Álverksmiðja í Reyðarfirði

Þriðjudaginn 28. janúar 2003, kl. 22:54:56 (3144)

2003-01-28 22:54:56# 128. lþ. 66.10 fundur 509. mál: #A álverksmiðja í Reyðarfirði# frv., SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 66. fundur, 128. lþ.

[22:54]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Ég held að ég hafi loks fengið botn í málflutning hv. þm. í seinna svari hans áðan, að vegna þess að náttúruperlur landsins gætu spillst af ágangi ferðamanna sé um að gera að bjarga þeim bara í hvelli undir vatn eða malbik, þá sé vandinn leystur.

Ég verð að segja eins og er, að ég fékk eiginlega engan botn í málflutning hv. þm. Hv. þm. Katrín Fjeldsted hefur svarað hér ágætlega þessu með orkuna og þessu bulli sem veður uppi, að Ísland geti lagt af mörkum eitthvað sem skipti máli á heimsmælikvarða með sínum takmarkaða orkuforða sem einhvern tíma var reiknað út að væri ekki meiri en svo að væri hann allur nýttur væri orkuframleiðslan af svipaðri stærðargráðu og fylkið Hamborg eitt notar í dag.

Í öðru lagi, varðandi kenningar um vaxandi þörf fyrir ál. Það er umdeilt. Það er líka umdeilt að ál sé sérstaklega umhverfisvænn málmur vegna þess að það þarf gríðarlega orku til að framleiða hann í byrjun og það í sjálfu sér er ekki umhverfisvænt. Þess vegna er allt á fullri ferð í áttina að staðgengdarefnum. Það eru margir sem telja að plastefni, koltrefjaefni og svonefndar fjölliður af ýmsu tagi muni í vaxandi mæli leysa ál af hólmi á komandi árum og áratugum. Plastnotkun fer mjög vaxandi. Í bílum og meira að segja í flugvélum, sem hv. þm. nefndi hér. Menn halda að þær séu eingöngu framleiddar úr áli en áleiningar eru að hverfa út og víkja út fyrir plasti og koltrefjum. Það er farið að framleiða heilar orrustuþotur úr koltrefjaefni. Keppnishjól í hjólreiðum eru úr plastefnum. Og í Formúlunni, þar sem menn hafa nóga peninga, er álið horfið og plastefni og önnur gerviefni komin í staðinn.

Það er því mjög margt sem bendir til að a.m.k. ef álverð ætti að hækka muni það tapa í samkeppninni fyrir öðrum efnum. Það er ekki ávísun á að bisnessinn í þessu dæmi sem við höfum verið að ræða muni verða góður.