Álverksmiðja í Reyðarfirði

Þriðjudaginn 28. janúar 2003, kl. 23:02:15 (3148)

2003-01-28 23:02:15# 128. lþ. 66.10 fundur 509. mál: #A álverksmiðja í Reyðarfirði# frv., SJS
[prenta uppsett í dálka] 66. fundur, 128. lþ.

[23:02]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég ætla að fara yfir nokkur atriði nú í seinni ræðu minni sem mér gafst ekki tími til að víkja að í dag, annaðhvort alls ekki eða þá í mjög litlu.

Ég minni á það að ég var búinn að ræða ítarlega aðdraganda eða sögu þessa máls, umhverfisáhrifin sem ein og sér að mínu mati eru þess eðlis og af þeirri stærðargráðu, umtalsverð neikvæð og óafturkræf umhverfisáhrif sem tengjast þessum framkvæmdum þegar þær eru allar teknar saman í heild sinni, að þau gera framkvæmdirnar ótækar. Þetta gerir það að verkum að af þeirri ástæðu þegar, og einni, ættu menn að hverfa frá því að ráðast í þessar framkvæmdir. Þær eru ekki réttlætanlegar og ég spái því að þær fái þunga dóma þegar fram líða stundir ef í þær verður ráðist, þess verði ekki langt að bíða, það verði ekki margir áratugir liðnir af Íslandssögu framtíðarinnar þegar menn verða orðnir almennt sammála um að þarna hafi menn verið að keyra út af sporinu. Ég þekki a.m.k. fæst dæmi þess þar sem meiri háttar umhverfisfórnir hafa verið færðar á altari meintra skammtímaávinninga að menn hafi ekki fengið timburmenn og vonda samvisku yfir því þegar frá líður. Og margar eru þær, þjóðirnar, iðnvæddar og þéttbýlar í kringum okkur sem mundu gefa mikið fyrir að ná ýmsum náttúrugersemum sínum til baka sem færðar voru á altari slíkra sjónarmiða á umliðnum áratugum eða öldum.

Ég nefndi einnig lítillega skattaákvæðin sem þetta frv. gerir ráð fyrir til handa þessu óskabarni, álveri hins erlenda auðhrings, sem á nánast að öllu leyti að fá mjög sérstaka meðhöndlun í skattalegu tilliti. Það er hreinasta öfugmæli sem frv. gengur út á, að um það eigi að gilda íslensk skattalög. Það er nánast sama hvar borið er niður í tekjuskatti, hvað varðar frádrátt vegna rekstrartapa, fyrningarákvæði, eignarskatta, iðnaðarmálagjald, fasteignaskatta, gatnagerðargjöld, byggingarleyfisgjöld og skipulagsgjöld, skattlagningu arðs, frádrátt vaxtakostnaðar, vörugjöld, fyrirvara eða öryggisákvæði hvað varðar álagningu mengunargjalda, fjárfestingarvörur eru tollfrjálsar o.s.frv. Það er eiginlega alveg sama hvar borið er niður --- ég man í svipinn ekki eftir mörgum öðrum skattstofnum í landinu --- þetta fyrirtæki er að einhverju leyti undanþegið eða hefur sérákvæði gagnvart öllum skattstofnunum. Það má fara rækilegar yfir þetta ef menn vilja en þannig er það nú að eftir stendur nánast mjög fátt, þau þó almennu skattaákvæði sem á að heita að fyrirtækið lúti eins og greiðsla tekjuskatts af hagnaði eru þó með sérstökum fyrirvörum og öryggisákvæðum til handa fyrirtækinu.

Það sem ég vil aðeins gera að umtalsefni í viðbót, herra forseti, er áhættan í þessu verkefni. Það er hin sameiginlega heildaráhætta sem í þessum pakka er. Ég velti því fyrir mér hvort aldrei hafi komið til greina að láta gera sjálfstætt, heildstætt áhættumat á málinu í heild sinni þar sem lagðir væru saman þeir þættir í uppbyggingu og rekstri virkjunarinnar í viðskiptasamningunum við kaupandann, álverið, og í rekstri þess sem hér gætu komið við sögu. Þarna er margt sem getur farið úrskeiðis og það er margs konar áhætta sem þarf að skoða.

Í fyrsta lagi er algjörlega ljóst að það er mjög mikil óvissa í þessari framkvæmd. Hún er tæknilega þess eðlis að óvissan er umtalsverð. Það þarf ekki að hafa nema t.d. lágmarksþekkingu á jarðfræði til að sjá að það eru nokkað snúnar aðstæður sem þarna á að fara í, að byggja stærstu jarðvegsstíflu í Evrópu á eldvirku sprungusvæði, leggja margra tuga kílómetra jarðgöng í mjög ungu gosbergi. Það er ekki eins og til standi að bora þarna í gegnum massíft granít. Ónei. Þarna er um að ræða ung jarðlög, ungt gosberg sem er sprungið, sem er með millilögum, og allt þetta skapar mjög erfiðar aðstæður til slíkrar mannvirkjagerðar. Skyldi það ekki mögulega hafa haft þau áhrif á vestrænu og norrænu verktakana og samstarfsaðila þeirra hér heima sem þekkja mjög vel til mannvirkjagerðar við slíkar aðstæður að þeir buðu svona gríðarlega miklu hærra í verkið en Ítalirnir sem voru að bora í graníti suður í Afríku?

Það þarf ekki að hafa mikla þekkingu á ýmsum öðrum aðstæðum til þess að átta sig á því að þarna er auðvitað óvissa. Frá náttúruhamfarasjónarmiði séð er þetta svæði ekkert auðvelt viðfangs. Eldvirkt, með jökla að baki, þar sem jarðhiti og eldvirkni hafa á umliðnum árum, öldum og árþúsundum iðulega orsakað hamfarahlaup og mikil læti. Þannig eru t.d. nýjar kenningar uppi um það í jarðfræðinni að sum gljúfrin, stóru gljúfrin í fallvötnunum og jökulánum norðan jökla, séu miklu yngri en áður var talið. Og vegna hvers? Jú, vegna þess að það hafa þá komið hamfarahlaup eða lón tæmst á þessum slóðum síðar en menn gerðu áður ráð fyrir, jafnvel miklu síðar heldur en við lok ísaldar fyrir tíu til tólf þúsund árum. Þannig er þetta allt í kollinum á manni þegar maður er að velta fyrir sér því sem þarna á að gera og er algerlega einstakt í Íslandssögunni. Þarna er um að ræða að fara út á nýja braut í risamannvirkjagerð hvað varðar tæknilega útfærslu og áhættu af ýmsum toga.

Það er mikil áhætta í sambandi við arðsemina. Það viðurkenna allir. Hagnaður af þessu dæmi er sýnd veiði en ekki gefin. Það liggur bara í því að fara yfir þær forsendur sem menn þurfa að gefa sér til þess að þetta komi sæmilega út á pappírunum, t.d. hækkandi álverð. Það gefur augaleið að þarna hlýtur að vera gríðarleg áhætta. Það hljóta menn að verða að viðurkenna.

Það er mikil áhætta í sambandi við raforkuverðið sem er auðvitað ein stærsta breytan í þessu. Þar er veðjað á að álverð hækki. Og hv. þm. Pétur Blöndal sem var í ræðustól áðan hélt miklar ræður um að þörfin fyrir ál mundi fara hraðvaxandi á komandi árum af því að hann hefur smíðað sér þá einföldu kenningu, þá einföldu mynd af heiminum, að af því að ál sé léttara en járn muni það vera hagstæðara í bíla og þar af leiðandi hljóti það að vaxa um aldur og ævi í þeirri iðngrein. Staðreyndin er sú að væntanlega hefur ál að mestu leyti tekið þann sess sem það kemur yfir höfuð til með að ná í bíla- og áliðnaði. Og menn þekkja það væntanlega að í ákveðnum bílahlutum hjá stærstu verksmiðjum heimsins er ál að hverfa og víkja fyrir öðrum efnum. Stuðarar á bílum voru almennt úr áli, þ.e. þegar ál tók við af stáli fyrir tíu, fimmtán árum, af því að þá voru menn að reyna að létta bílana í kjölfar orkukreppunnar og olíukreppunnar fyrstu, og ýmsir hlutir í burðarvirki í bíla, stuðarar og annað slíkt, komu úr áli. Það stóð í svona fimm til tíu ár, kannski fimmtán. Núna eru þessir hlutir í mjög miklum mæli orðnir úr plasti. Ég hvet þingmenn til að fara niður í bílageymslu og banka í neðri hluta á síðunum á bílunum sínum og sparka í stuðarann og ég spái því að þeir komist að þeirri niðurstöðu að það kemur lítið hljóð. Þarna er nefnilega ekki lengur um málm að ræða, heldur plast nánast í öllum tilvikum. Þetta ættu menn að kynna sér áður en þeir halda ræður af því tagi sem hv. síðasti ræðumaður gerði áðan.

Jafnvel þótt þörf fyrir ál vaxi eins og bjartsýnir spámenn gera ráð fyrir er mjög líklegt að sú þörf verði mettuð, aðallega af tvennum toga, annars vegar með endurvinnslu áls sem fer vaxandi og hins vegar með áli frá þróunarríkjum, með áli frá Kína. Kínverjar eru að reisa þvílíkar risavirkjanir og auka þannig orkuframleiðslu sína að ef þeir veittu þótt ekki væri nema hluta af því afli í álframleiðslu gætu þeir mettað heimsmarkaðsþörfina. Síðan kemur það til sem ég nefndi, ýmiss konar ný efni, gerviefni, sem sum ganga einu nafni undir heitinu ,,fjölliður``, þ.e. pólýamíðefni, plast, koltrefjar, sílíkon, flúor og fleira í þeim dúr, eru að ryðja sér mjög til rúms á mörgum sambærilegum sviðum iðnaðar þar sem menn töldu áður að ál eða aðrir léttmálmar --- gleymum því ekki að ál er reyndar ekki eini léttmálmurinn sem til greina getur komið, það eru til margir aðrir, sumir að vísu dýrari í framleiðslu --- einokuðu tiltekinn markað.

Að síðustu er svo auðvitað, eins og hv. þm. Ögmundur Jónasson vék að fyrr í umræðunni í kvöld, gríðarleg áhætta fólgin í því að reisa eitt stykki risavirkjun fyrir einn kaupanda. Það verður bara ein raflína niður á Reyðarfjörð. Áhættan er ekki bara fólgin í því að það fyrirtæki fari á hausinn, sem auðvitað getur gerst. Áhættan er líka fólgin í því að samningsstaða okkar tekur mið af þessum aðstæðum. Ísland er í algerlega sérstakri stöðu hvað þetta snertir meðal Evrópuríkja. Við erum eini einangraði orkumarkaðurinn sem eitthvað kveður að, (Iðnrh.: Kaupa 85%.) sem enga tengingu hefur við markaðinn á meginlandinu. Kaupa 85%, segir hæstv. ráðherra, í 20 ár. Tryggja kaup á 85% í 20 ár. En það eru endurskoðunarákvæði. Og það geta komið upp það sem kallast á vondu máli ,,force majeure``-ákvæði. Það geta komið upp þær aðstæður að Alcoa segi einfaldlega við okkur: Ja, nú er þetta bara þannig að þetta gengur svo illa og heimsmarkaðsverð á áli er þannig eða aðrar aðstæður að við bara ráðum ekki við þetta rafmagnsverð og við neyðumst til að segja hér upp og loka ef við fáum ekki lækkun á raforkuverðinu. Jú, Ísland segir: Ja, þið eru skuldbundin til að kaupa 85% í 20 ár. Þá segir Alcoa: Já, það er ódýrara að borga það út heldur en að reka verksmiðjuna nema við fáum hagstæðari skilyrði. Og strax að þessum 20 árum liðnum lokum við, og þótt það væru 40.

Með öðrum orðum: Við erum auðvitað á hnjánum gagnvart þessum eina kaupanda orkunnar. Við eigum ekki það val sem Norðmenn eiga í sínum samningum. Þeir geta sagt við aðilana: Nú, ef þið ekki ætlið að kaupa orkuna setjum við hana bara inn á netið og seljum hana niður til Evrópu. Við eigum ekki þann kost, Ísland er einangraður og lokaður orkumarkaður og það er algjörlega ljóst að þessi aðili hefur okkur í greipum sínum.

Síðan, herra forseti, væri auðvitað fróðlegt að ræða hér ítarlegar um þær spurningar um grundvallaráherslur í atvinnuuppbyggingu sem hér vakna. Það er nærtækt að fara yfir í umræður um það þegar maður hefur heyrt ræður fluttar eins og þá sem hv. þm. Halldór Blöndal flutti fyrr í dag. Hann fór bara með ritúalið, með rulluna um það að ekkert nema stóriðja gæti tryggt hér hagvöxt, skapað ný störf og bætt lífskjör. Þetta tyggur hver á fætur öðrum. Þvílíkt himinhrópandi vantraust á möguleika og tækifæri í almennri atvinnusköpun í landinu, og í raun og veru svo rangt í ljósi þess þó áhugaverða sem á mörgum vígstöðvum hefur verið að gerast sem betur fer. Annars værum við ekki vel stödd, Íslendingar, ef ekki hefði orðið sá gríðarlegi vöxtur í ferðaþjónustu, í lyfjaiðnaði, í ýmsum iðngreinum tengdum sjávarútvegi o.s.frv. Þá væri ástandið ekki björgulegt.

Ég held að við eigum miklu frekar að nálgast þetta eins og t.d. Írar sem ekki líta á það sem eitthvert óskaplegt vandamál að það þurfi að verða til störf í landinu og það séu fjölmennir árgangar ungs fólks að koma inn á vinnumarkaðinn. Þeir segja: Það er auðlind. Það er af því að þeir hafa fyrir löngu áttað sig á því að mesta auðlindin af þessu öllu saman er auðvitað mannauðurinn. Það er hann sem þarf að virkja. Og ekki mengar það.

[23:15]

Auðvitað stöndum við líka á ákveðnum krossgötum varðandi grundvallaráherslur í atvinnuuppbyggingu okkar. Það er enginn að segja, a.m.k. ekki sá sem hér stendur, að nýting orkunnar á skynsamlegum og hófsamlegum nótum og iðnaðaruppbygging geti ekki og eigi ekki og megi ekki vera hluti af uppbyggingu í atvinnulífi okkar á komandi árum og áratugum. Það sjáum við mjög gjarnan fyrir okkur, enda gangi menn í þá hluti á þann hátt sem á að gera, þ.e. að menn taki þá þá virkjunarkosti sem vænlegastir eru frá sjónarhóli umhverfisins og ráðstafi orkunni með markmið um sjálfbæra þróun atvinnulífs og samfélags í huga.

Umbreyting í orkubúskapi Íslendinga þar sem reynt er að hverfa frá innflutningi á kolefnaeldsneyti og færa okkur yfir í innlenda orkugjafa úr umhverfisvænum virkjunarkostum er að sjálfsögðu jákvæð þróun í þessum efnum. Við gætum t.d. byrjað á því að reyna að ná niður raforkuverðinu til almennra notenda þannig að menn hættu að framleiða gufu með svartolíu í landinu, menn hættu að elda á öllum veitingahúsum og matsölustöðum bæjarins og landsins á gasi, menn hættu að framleiða gufu í efnalaugum, drykkjarverksmiðjum, málningarverksmiðjum eða hvað það nú er, með svartolíu. Þannig mætti áfram telja. En þannig er ástandið í dag. Það er ekki verið að leggja mikið í þessa hluti heldur er lagt ofurkapp á að færa útlendingum á silfurfati stærstu virkjunarkosti landsins með tilheyrandi umhverfisfórnum og selja þá raforku á svona 1/8 af því sem almennir notendur verða að greiða.

Eitt enn er óhjákvæmilegt að nefna, herra forseti, og það er að gangi plön ríkisstjórnarinnar um þessa nýju þungaiðnvæðingu landsins og stórkostlegu aukningu í álframleiðslu eftir þá tekur ál á næstu árum við af þorskinum sem sú breyta í efnahagslífinu sem við verðum háðust. Það er bara ósköp einfaldlega að gerast núna og gerist þá á næstu árum. Ég hélt að það væri ekki keppikefli í sjálfu sér að skipta þorski út fyrir annan sveiflugjafa, heldur hefðu menn alltaf verið að tala um að það væri vont að efnahagslíf einnar þjóðar væri svona háð einum hlut sem gæti sveiflast mikið með tilheyrandi efnahagslegum áhrifum.

Það er þannig núna, herra forseti, að samkvæmt spá þjóðhagsáætlunar fyrir útflutning á árinu 2002 er heildarútflutningsverðmæti allra sjávarafurða um 110--115 milljarðar kr. En ál er komið í 42 milljarða. Nú á samkvæmt þessum plönum að meira en tvöfalda framleiðslu á ári. Með fyrirhugaðri stækkun Norðuráls og byggingu Fjarðaáls mun álframleiðslan meira en tvöfaldast, ef ég hef lesið rétt, og það lætur nærri ef maður leggur saman núverandi framleiðslu í Straumsvík og á Grundartanga og reyndar meira en það. Segjum að álframleiðslan færi úr 42--43 milljörðum núna --- hún er núna um 40% af sjávarvöruframleiðslunni --- í kannski 90 milljarða, hún færi upp að hliðinni á sjávarvörunum. En þar er þó um að ræða gervallan sjávarútveginn og allar hans framleiðsluvörur sem eru sem betur fer mjög fjölbreyttar og verðlag þeirra sveiflast nú sjaldan alveg í takti á mismunandi mörkuðum um allan heim. En álið er þessi einsleita afurð sem fer bara upp og niður í takt við heimsmarkaðsverðið. Það eru að vísu örlítið mismunandi úrvinnslustig, t.d. eru barrarnir í Straumsvík verðmætari og meira unnir en hleifar frá Grundartanga og hleifar sem þarna verða væntanlega til, a.m.k. fyrst í stað. En sama er. Þessi eini málmur yrði svona risastór í okkar hagkrefi og yfir 80% af raforkumarkaðnum væri orðinn bundinn þessari einu breytu.

Svo tala menn hér eins og það sé ekkert íhugunarefni að halda bara áfram á þessari braut og þess vegna kalla fleiri til, bara ef einhverjir vilja koma. Hvort það eru Rússar eða Kínverjar skiptir ekki máli. Allir eiga að vera velkomnir bara til þes að hægt sé að framleiða meira og meira ál.

Við heyrðum í einum og einum ræðumanni hér í dag sem var að ákalla þetta í sinn landshluta. Nú, trúi menn því að stóriðja og álframleiðsla sé það eina sem geti komið að einhvejru verulegu liði í atvinnuuppbyggingunni þá vilja auðvitað allir fá álver því það er engu öðru til að dreifa.

Ég segi bara að það er eins gott að menn höfðu ekki áttað sig á þessu fyrir daga fyrsta álversins, þ.e. að þeirra biði ekkert annað en að lepja dauðann úr skel nema hingað kæmi erlend stóriðja. Það er eins gott að bændur í Þingeyjarsýslu á 19. öldinni vissu ekki af þessu. Þeir hefðu lagst upp í rúm og breitt sængina upp yfir höfuðið í staðinn fyrir að stofna kaupfélög og brjótast til (Iðnrh.: Var það ekki mikil ógæfa?) bjargálna með þeim hætti. Að stofna kaupfélögin? Nei. Það var nú aldeilis ekki. Það er sama sagan, herra forseti. Ef þetta nafn ber hér á góma þá kippist hæstv. iðn.- og viðskr. við. Ég er ákaflega mikill aðdáandi þeirrar sögu, (Iðnrh.: Já, þú gekkst úr einu.) stofnunar kaupfélaganna á sínum tíma og þeirrar merku endurreisnar sem Þingeyingar voru sérstaklega í forsvari fyrir.

Herra forseti. Við höfum lagt til að þjóðin fái að segja álit sitt í þessu máli. En með hliðsjón af öllum þeim málflutningi sem hér hefur farið fram, m.a. um stærð verkefnisins og því að allir viðurkenna að því fylgja mikil og óafturkræf umhverfisáhrif að fara þarna með framkvæmdir inn á stærsta lítt snortna víðerni landsins --- og það verður auðvitað aldrei samt eftir ef svo fer --- með hliðsjón af þessu öllu og því að nú ber svo vel í veiði að kjósa á til Alþingis 10. maí nk. þá held ég að það væri handhægt og mundi ekki tefja þessi framkvæmdaáform að neinu marki þó að þjóðin fengi að láta sitt álit í ljós á sjálfstæðum kjörseðli við þessar kosningar og við munum láta á það reyna áður en þing lýkur störfum með einum eða öðrum hætti að svo verði.