Álverksmiðja í Reyðarfirði

Þriðjudaginn 28. janúar 2003, kl. 23:22:40 (3149)

2003-01-28 23:22:40# 128. lþ. 66.10 fundur 509. mál: #A álverksmiðja í Reyðarfirði# frv., ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 66. fundur, 128. lþ.

[23:22]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Ég vil vekja athygli á misræmi sem kemur fram í upplýsingum og forsendum ýmissa þeirra aðila sem hafa fjallað um þetta mál fyrir hönd stjórnvalda. Það er nokkuð sem efh.- og viðskn. hlýtur að taka til athugunar þegar hún fær málið til meðferðar. Það sem skiptir máli þegar menn velta fyrir sér arðsemi þessar framkvæmdar er tvennt: Annars vegar stofnkostnaðurinn, kostnaðurinn við virkjunina og hins vegar raforkuverðið. Þetta tvennt ræður einkum arðsemi af þessari framkvæmd.

Nú vísa þeir aðilar sem hafa fjallað um þetta fyrir hönd stjórnvalda gjarnan í útreikninga Sumitomo-bankans japanska og segja að hann hafi gefið Landsvirkjun sín blessunarorð um að fagmennlega sé að verki staðið, að þessir útreikningar standist.

Nú langar mig til að spyrja hvort ríkisstjórnin eða fulltrúar hennar hafi skýringar á misræmi sem fram kemur í gögnum frá Landsvirkjun annars vegar og frá Sumitomo-bankanum hins vegar. Samkvæmt ársskýrslu Landsvirkjunar fyrir árið 2001 er stofnkostnaður Kárahnjúkavirkjunar og tengdra framkvæmda vegna álvers Hydro Aluminium áætlaður 118 milljarðar kr. á genginu 100 kr. fyrir dollarann. Samkvæmt skýrslu Sumitomo Mitsui Banking Corporation frá september 2001, þ.e. á sama tíma, er kostnaður áætlaður 1.200 millj. dollara og tekið er fram að miðað sé við gengið 85 kr. fyrir dollarann. Með öðrum orðum er kostnaður áætlaður 102 milljarðar kr. miðað við það gengi.

Samkvæmt upplýsingum Landsvirkjunar er um helmingur kostnaðar í íslenskum krónum en helmingur í dollurum. Þegar þetta er reiknað upp þá ætla sérfræðingar að núvirði framkvæmdarinnar falli um u.þ.b. 7 milljarða kr.

Um þetta var spurt hjá Reykjavíkurborg. Borgarfulltrúar spurðu borgarhagfræðing eða óskuðu eftir því að hann aflaði upplýsinga um það misræmi sem þarna kemur fram. Í svari borgarhagfræðings við fyrirspurn borgarfulltrúa um þetta segir, með leyfi forseta:

,,Það er rétt sem segir í ársskýrslunni að stofnkostnaður vegna sölu til Reyðaráls var áætlaður 118 milljarðar kr. á verðlagi í janúar 2002. Sumitomo reiknaði þennan kostnað yfir í bandaríkjadollara á þáverandi gengi, sem var 100 og notaði því stofnkostnað að fjárhæð um 1.200 millj. dollara í sínu líkani sem var í bandaríkjadollurum.``

Nú kemur skýrt fram í skýrslu Sumitomos að bankinn miðar við gengið 85 kr. dollarann við útreikning stofnkostnaðar. Það er því ekki sérlega trúverðugt þegar Landsvirkjun heldur því fram að bankinn miði við eitthvert annað gengi. Það er í raun aðeins tvennt sem getur skýrt þetta misræmi, þ.e. annars vegar að Landsvirkjun hafi gefið bankanum upp aðeins hluta kostnaðarins, hins vegar að bankinn hafi gert þau mistök að miða við ranga kostnaðartölu, fengið þannig út lægri stofnkostnaðartölu, sem merkilegt nokk dugir bankanum til að koma verkefninu í plús. Landsvirkjun hafi síðan tekið þá niðurstöðu án athugasemda og notað til að sannfæra stjórnmálanefnd og almenning um arðsemi verkefnisins væri jákvæð.

Sá möguleiki hlýtur að teljast afar fjarlægur að alþjóðlegur banki segist nota eitt gengi en noti svo annað í útreikningum sínum. Væri sú raunin mundi það líka kasta rýrð á útreikningana sjálfa sem staðfesta áttu arðsemi framkvæmdarinnar.

Nú er margt afskaplega undarlegt í forsendunum sem gefnar eru fyrir þessari framkvæmd. Þannig hefur verið mjög mikið flökt í kostnaðar- og afkastatölum. Kostnaðaráætlun vegna Kárahnjúkavirkjunar hefur flökt verulega, jafnvel tekið verulegum breytingum á mjög stuttu tímabili. Tölur um framleiðslugetu álvers Alcoa fóru skyndilega úr 295.000 tonnum á ári upp í 322.000 tonn á ári, eftir að skýrsla Náttúruverndarsamtaka Íslands kom út sem sýndi verulegt tap á orkusölu til álversins miðað við lægri töluna sem áður hafði verið gefin út.

Nú gerast mjög undarlegir hlutir í haust. Boðinn er út stór hluti af þessum framkvæmdum, 40 km göng og hluti af stíflunni. Nokkur stór fyrirtæki bjóða í þetta verkefni. Sum þeirra, með skandinavískar rætur, falla frá tilboði sínu. En ítalska fyrirætkið Impregilo kemur inn í hópinn. Þetta fyrirtæki biður í tvíang um frest á því að útboðsgögnin verði opnuð. Það er orðið við því.

En áður en útboðsgögnin eru opnuð, hvað gerist þá? Þá kemur fulltrúi Landsvirkjunar fram í fjölmiðlum og segir hvert kostnaðarmat Landsvirkjunar á framkvæmdinni er. Og ekki nóg með það. Hann segir við landsmenn: ,,Nú skuluð þið bíða og sjá hvað kemur upp úr umslaginu frá Impregilo. Og viti menn, upp úr því umslagi kom tilboð sem var lægra en kostnaðaráætlun Landsvirkjunar. Hvað skyldi Landsvirkjun gera þá við þær aðstæður? Hún lækkar stofnkostnað sinn niður frá því sem áður hafði komið fram í skýrslum frá þeirri stofnun.

Eru þetta mjög trúverðug vinnubrögð? Mér finnst það ekki og ekki síst í ljósi þess að erlendar kannanir sýna að kostnaður við framkvæmdir af þessari stærðargráðu og af þessu eðli hefur tilhneigingu til að hlaupa upp um 30% að meðaltali samkvæmt könnunum sem Alþjóðabankinn hefur sent frá sér.

Landsvirkjun gengur hins vegar út frá miklu lægra mögulegu fráviki. Þannig hefur Landsvirkjun staðhæft að einungis séu um 1% líkur á að eigendur þurfi að taka á sig vaxtakostnað vegna Kárahnjúkavirkjunar. Þykir mér það vera mjög ótrúverðugt þótt ekki sé nema í ljósi þess að meðalfrávik sambærilegra framkvæmda, eins og ég nefndi, eru af þessari stærðargráðu, 30--40%. Reyndar hafa verið að birtast í fjölmiðlum dæmi um miklu meiri frávik en þessu nemur. Menn hafa vísað í undirgöngin í Kaupmannahöfn, svo dæmi sé tekið.

[23:30]

Svo virðist sem líkindareikningur Landsvirkjunar byggi á því að taka fáeinar valdar framkvæmdir sem staðist hafa áætlanir og leggja þær til grundvallar. Í töflu sem birt er með skýrslu eigendanefndarinnar svokölluðu og skýrslu Sumitomos er miðað við fimm framkvæmdir Landsvirkjunar á tímabilinu 1996--2001 sem allar hafa staðist áætlun. Sú stærsta þessara framkvæmda er 1/9 af umfangi Kárahnjúkavirkjunar. Það er á þessum grunni sem fyrirtækið heldur því fram að aðeins séu 15--18% líkur á að framkvæmdin fari allt að 10% fram úr áætlun og 4--5% líkur á að hún fari allt að 20% fram úr áætlun. Með öðrum orðum virðist sá möguleiki útilokaður fyrir fram að framkvæmdin geti farið meira en 20--25% fram úr áætlun þvert á alþjóðlega reynslu sem vísað hefur verið til.

Fyrirtækið virðist þvert á móti gefa sér það fyrir fram að mestar líkur séu á að framkvæmdin verði langt undir kostnaðaráætlun. En það er athyglisvert að í eigendaskýrslunni sem hefur verið mikið vitnað til að undanförnu er birt tafla sem sýnir möguleg frávik, reyndar ekki 20--30% hækkun á stofnkostnaði, 10% hækkun er talað um, og ef sú yrði raunin yrði fyrirtækið komið í tap, í bókhaldslegt tap. Og aðrar breytur líka, ef vextir fara upp um hálft prósentustig er framkvæmdin líka komin í tap.

Ég hef stundum velt því fyrir mér hvort fjölmiðlafólk almennt, að ekki sé minnst á stjórnarmeirihlutann, með örfáum, því miður allt of fáum, mjög góðum undantekningum --- vísa ég þar í hv. þm. Katrínu Fjeldsted sem ég er hjartanlega sammála og er ein af fáum sem er sínum flokki til sóma finnst mér í þessari umræðu --- ég hef stundum velt því fyrir mér hvort hv. þingmenn lesi þessar skýrslur og hvort fjölmiðlamenn hafi t.d. lesið og farið í saumana á eigendaskýrslunni.

Einn ágætur vinur minn sagði að það væri sennilega ráð að birta þessar skýrslur á kínversku því stjórnarmeirihlutinn mundi áfram nikka til samþykkis en þjóðin lifði þá ekki í þeirri blekkingu að þetta fólk hefði skilið skýrsluna.

Ég leyfi mér að efast stórlega um það ... (Gripið fram í.) já, ég meina þetta, ég efast stórlega um að stjórnarþingmeirihlutinn almennt hafi lesið þessa skýrslu. Þau hafa aldrei getað svarað neinni gagnrýni sem fram hefur komið, neinni málefnalegri, tölulegri gagnrýni, aldrei svarað (Gripið fram í: Á kínversku?) --- aldrei svarað. Og ég spyr hvort þessir aðilar hafi lesið skýrsluna. Hefur hv. þm. Ísólfur Gylfi Pálmason lesið eigendaskýrsluna? Ég spyr. Hefur hann gert það? Hefur hann farið í saumana á þeirri skýrslu? (ÍGP: Ég hef lesið hana.) Lesið hana og farið í saumana á henni? Finnst hv. þingmanni ekki misræmi í því sem segir undir lokin um niðurstöðurnar og hins vegar því sem fram kemur í skýrslunni? (Gripið fram í: Af hverju vilt þú endilega ...?) Og finnst hv. þingmanni ekki undarlegt það misræmi sem er að finna í sjálfri skýrslunni og síðan í tölum sem birtast í skýrslum Landsvirkjunar? Hafa menn farið í saumana á þessum málum? Þarna kemur fram alvarlegt misræmi. Og að sjálfsögðu verður farið rækilega yfir þetta þegar málið kemur til umfjöllunar í efh.- og viðskn. þingsins. (ÍGP: Ég get ekki lesið kínversku.)

Um þennan stofnkostnað sem hefur verið færður niður --- ég kem með mjög alvarlegar ásakanir um misræmi sem er að finna annars vegar í skýrslum Landsvirkjunar og hins vegar í forsendum Sumitomo-bankans japanska sem allir hafa vísað til sem eins konar syndaaflausnar í þessu máli, (Gripið fram í.) hann hafi blessað málið, blessað útreikninga þess. Ég vil að farið verði rækilega yfir þetta. Ég vil líka að farið verði rækilega yfir það misræmi sem er að finna í skýrslum Landsvirkjunar annars vegar og eigendaskýrslunni hins vegar. Þetta þarf allt saman að skoða.

Síðan vek ég athygli á því að Landsvirkjun lækkar áætlanir sínar um stofnkostnað eftir að Impregilo kemur fram með tilboð sitt en áður en gengið er frá samningum við það fyrirtæki. Það er enn verið að semja við fyrirtækið en engu að síður sér Landsvirkjun ástæðu til þess að færa stofnkostnaðinn niður. Þetta finnst mér vera umhugsunarefni og athugunarefni sem þarf að fara rækilega í saumana á. Ef stofnkostnaðurinn hækkar um einhverja tugi milljarða er þetta fyrirtæki óumdeilanlega komið í tap. Hinn þátturinn sem ræður arðsemi þessa verkefnis er orkuverðið. Orkuverðið er bundið þróun álverðs. Og hvað gera menn þar? Þeir byggja á áætlunum. Þeir byggja á áætlunum og spádómum, einkum tveggja aðila, CRU og King-fyrirtækisins. Landsvirkjun segist velja þá leið að taka eins konar meðaltal af spádómum þessara aðila. Og nú spyr ég: Hvernig hafa spádómar þessara fyrirtækja reynst í tímans rás? Hvernig hafa spádómarnir reynst á síðustu árum? Vita menn það? Þeir hafa ekki staðist. Í skýrslu Landsvirkjunar frá 2001 segir, með leyfi forseta:

,,Almennt er gert ráð fyrir að viðsnúningur á álmarkaði hefjist á síðari hluta ársins 2002`` --- síðasta ári --- ,,og markaðurinn nái sér verulega á strik á árinu 2003.``

Þetta hefur ekki gerst. Og í þeim spádómum sem menn byggja núna á er gert ráð fyrir því að álverðið fari áfram niður þar til á árunum 2005, 2006, 2007, þá verði sveifla upp á við. Og hvað skyldi vera að gerast á þeim tíma? Þá er álverið einmitt að hefja framleiðsluna. Ég spyr: Eru þetta pantaðir spádómar? Ég spyr. Þetta eru fyrirtæki sem hafa spáð ranglega, Landsvirkjun hefur gert það líka, og nú er því spáð að álverðið verði orðið ákjósanlegt og standist kröfur um arðsemi þegar álverksmiðjan tekur til starfa. Er þetta trúverðugt? Mér finnst það ekki.

Í þessum spádómum hafa álfyrirtækin og orkufyrirtækin í tímans rás miðað við reynslu undangenginna ára. Þegar til mjög langs tíma er litið aftur í tímann hefur það staðist. Það sem hins vegar virðist vera að gerast núna er eðlisbreyting á þessum markaði sem veldur því að við getum ekki byggt á reynslu liðins tíma. Og í hverju er þessi eðlisbreyting fólgin? Hún er fólgin í tvennu. Í fyrsta lagi er hún fólgin í því að það er að færast í vöxt að ál sé endurunnið (Gripið fram í: Það er jákvætt.) og það er mjög jákvætt en það hefur sínar afleiðingar.

Travis Engen, aðalforstjóri Alcans, svaraði í Morgunblaðinu 28. nóvember sl. spurningu um aukinn þrýsting af hálfu umhverfissamtaka á þennan veg, með leyfi forseta:

,,Það er rétt að hafa í huga þegar rætt er um umhverfismál að þótt framleiðsla á áli útheimti mikla orku er mjög hentugt að endurvinna ál. Heimsframleiðslan er kannski um 27 milljónir tonna á ári og þar af eru 7 milljónir endurunnið ál. Og það tekur aðeins 1/20 af orkunni sem fer í að framleiða ál að endurvinna það.``

Við erum að tala um einn tuttugusta, 5%. Við erum að tala um að það taki 5% af orkunni að endurvinna ál. Og við erum komin í 7 millj. tonna af þeim 27 millj. sem framleidd eru. Ef menn vilja muna var Norsk Hydro að fara í samstarf við þýskt fyrirtæki sem hefur sérhæft sig í endurvinnslu áls og út á þá braut ætluðu þessi fyrirtæki að fara saman. Þetta er einn þátturinn sem veldur því að það er erfitt að byggja á reynslunni í þeim mæli sem menn hafa gert hingað til þegar þeir spá fyrir um þróun álverðsins.

Hitt atriðið sem veldur þessari eðlisbreytingu er að álframleiðslan er að færast frá hinum ríku þjóðum, hinum ríka hluta heimsins, yfir til fátækari ríkja; Mósambíks, Víetnams, Kína. Kína var fyrir fáeinum árum einn mesti innflytjandi á áli í heiminum. Nú er þetta að snúast við. Hlutur Kína í álframleiðslu er að stóraukast. Þannig var ársframleiðslan 2,8 millj. tonna árið 2000, 3,32 millj. árið 2001 og gert er ráð fyrir að ársframleiðsluaukningin á árunum 2001--2005 nemi um 3,9 millj. tonna. Við erum að tala þarna um stærsta álframleiðanda í heimi, sem var innflytjandi en er að verða útflytjandi. Þetta veldur því að álverðið lækkar. Þetta er annað sem veldur eðlisbreytingu og þess vegna er mjög vafasamt að byggja á spádómum og reynslu undangenginna ára þegar álverðið er metið.

Ég hef því miður ekki meiri tíma í þessari umræðu til að vekja máls á fleiri þáttum en mig langar til að enda ræðu mína á að vitna í Stefán Pétursson, framkvæmdastjóra fjármálasviðs Landsvirkjunar. Hann spurði í fjölmiðlum ekki alls fyrir löngu hvort menn gerðu sér grein fyrir því að ef ekki yrði ráðist í neinar meiri háttar fjárfestingar á vegum Landsvirkjunar á komandi árum mundi Landsvirkjun greiða upp skuldir sínar á 15 árum. Og ég svara: Er það ekki bara ágæt hugmynd?