Starfatorg.is

Miðvikudaginn 29. janúar 2003, kl. 13:48:34 (3162)

2003-01-29 13:48:34# 128. lþ. 67.2 fundur 450. mál: #A starfatorg.is# fsp. (til munnl.) frá fjmrh., fjmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 67. fundur, 128. lþ.

[13:48]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde):

Herra forseti. Hv. þm. spyr:

,,Hvað er starfatorg.is og hver er tilgangur þess?``

Starfatorg.is er vefur um laus störf hjá ríkinu sem starfræktur hefur verið frá 15. mars á sl. ári og fjmrn. hefur umsjón með fyrir hönd ráðuneyta og ríkisstofnana. Á Starfatorginu er að finna upplýsingar um laus störf hjá ríkinu en einnig ýmsar upplýsingar um málefni og starfsumhverfi ríkisstarfsmanna. Jafnframt er þar að finna umfjöllun um ríkið sem vinnuveitanda.

Starfræksla Starfatorgsins er liður í því að draga ríkið betur fram sem vinnuveitanda og vinnustað í harðnandi innlendri og alþjóðlegri samkeppni um hæft starfsfólk. Starfræksla þess miðar að því að auðvelda þeim sem eru í atvinnuleit, hvort heldur þeir eru staddir hérlendis eða erlendis, að nálgast þegar þeim hentar upplýsingar um þau störf sem á hverjum tíma eru í boði hjá ráðuneytum og stofnunum ríkisins og þá um leið að kynna sér starfskjör, réttindi og skyldur og annað starfsumhverfi ríkisstarfsmanna. Starfatorgið er þess vegna hvorki ráðningarþjónusta né vinnumiðlun.

Gerð og frágangur starfsauglýsinga og birting þeirra í fjölmiðlum og allt ráðningarferli er sem fyrr í höndum og á ábyrgð einstakra stofnana og geta þær ef þær kjósa svo keypt þjónustu af ráðningarstofum eða vinnumiðlurum úti á einkamarkaðnum. Auglýsingarnar eru sendar fjmrn. sem setur þær inn á Starfatorgið og fjarlægir þær síðan þegar umsóknarfrestur er runninn út.

Þingmaðurinn spyr:

,,Telur ráðherra slíkan rekstur eiga heima undir hatti ríkisins og ef svo er, af hverju?``

Svarið við þessari spurningu er það að starfræksla Starfatorgsins, þ.e. birting upplýsinga á einum stað um störf hjá ríkinu, er ekki eiginlegur rekstur heldur upplýsingamiðlun af hálfu ríkisins um laus störf, starfskjör og starfsumhverfi hjá ríkinu sjálfu en ekki hjá öðrum aðilum. Starfatorgið er þáttur í þróun upplýsingasamfélagsins en stjórnvöld hafa á undanförnum árum lagt áherslu á það verkefni og fé verið veitt til þess á fjárlögum, m.a. til þess að þróa vef Stjórnarráðsins svo hann geti gegnt hlutverki upplýsingaveitu fyrir almenning. Starfatorgið er hluti af vef Stjórnarráðsins og er krækja á forsíðu hans yfir á Starfatorgið. Engin þjónusta er á vegum Starfatorgsins og allt ráðningarferli sem fyrr í höndum og á ábyrgð einstakra ríkisstofnana.

Með Starfatorginu eru framfarir í upplýsingamiðlun nýttar til þess að hafa jafnan tiltækar á einum stað og öllum aðgengilegar upplýsingar um laus störf hjá ríkinu.

Þingmaðurinn spyr í þriðja lagi, herra forseti:

,,Hefur verið kannað hver áhrif af rekstri starfatorg.is eru á rekstur einkarekinna fyrirtækja sem starfa á sama markaði?``

Hér gætir ákveðins misskilnings eins og þegar er fram komið. Starfræksla Starfatorgsins, þ.e. birting upplýsinga á einum stað um laus störf hjá ríkinu, er ekki atvinnustarfsemi heldur upplýsingamiðlun af hálfu ríkisins um laus störf á þess vegum. Með Starfatorginu er ríkið að sinna eigin verkefnum en ekki verkefnum fyrir aðra. Er staða ríkisins að þessu leyti svipuð og annarra aðila, hvort heldur einstakra sveitarfélaga eða einkafyrirtækja, sem birta á heimasíðum sínum upplýsingar um laus störf og starfsumhverfi hjá viðkomandi. Sem fyrr segir er engin þjónusta á vegum Starfatorgsins, hvorki fyrir vinnuveitendur né umsækjendur. Ráðuneyti og ríkisstofnanir eru eftir sem áður, og óháð Starfatorginu, frjáls að því að hagnýta sér mannaráðningar þjónustufyrirtækja sem sérhæfa sig á sviði ráðningarþjónustu, vinnumiðlunar, auglýsinga og upplýsingamiðlunar. Þarf ekki annað en skoða auglýsingar á torginu til að sjá að margar stofnanir nýta sér slíka þjónustu eftir sem áður.

Þessi síða, herra forseti, starfatorg.is, hefur verið mikið heimsótt frá því að hún hóf göngu sína þrátt fyrir að ríkið hafi í sinni þjónustu einungis 10% heildarvinnuaflsins í landinu, ekki 20 eins og þingmaðurinn hélt hér fram. Ég vil láta það koma fram að þegar er hægt að sýna fram á verulegan sparnað í auglýsingakostnaði á vegum ríkisins vegna starfrækslu torgsins. Nú er auglýst á einum stað það sem ella hefði verið auglýst með öðrum hætti og auðvelt að sýna fram á að ríkisstofnanir geta sparað sér kostnað við birtingu auglýsinga með því að hagnýta sér Starfatorgið til hins ýtrasta. Hverjir verða fyrir barðinu á því? Ekki þeir sem reka sjálfstæða ráðningarþjónustu. Það eru þá frekar fjölmiðlar sem missa spón úr aski sínum við það að slíkum auglýsingum fækkar.

Ég vil svo geta þess að endingu, herra forseti, að Starfatorg þetta á sér fyrirmynd, m.a. í Danmörku en einnig vafalaust í öðrum löndum sem hafa kosið að tileinka sér nútímaupplýsingatækni með sama hætti og íslenska ríkið gerir í þessu máli.