Starfatorg.is

Miðvikudaginn 29. janúar 2003, kl. 13:53:31 (3163)

2003-01-29 13:53:31# 128. lþ. 67.2 fundur 450. mál: #A starfatorg.is# fsp. (til munnl.) frá fjmrh., Fyrirspyrjandi BH
[prenta uppsett í dálka] 67. fundur, 128. lþ.

[13:53]

Fyrirspyrjandi (Bryndís Hlöðversdóttir):

Herra forseti. Ekki ætla ég að fara út í orðaskak við hæstv. ráðherrann um það hvort hér sé um rekstur að ræða eða ekki. Svo mikið veit ég, herra forseti, að það eru fleiri en ég sem álíta að þarna séu ríkið og ríkisstjórnin að fara inn á vettvang einkarekinnar starfsemi og vísa ég þar til kæru sem nú liggur fyrir frá aðilum sem starfa á einkareknum auglýsingamarkaði og mér skilst að sé ekki enn þá afgreidd frá samkeppnisráði.

Það er alveg ljóst, herra forseti, hvað sem segja má um ráðningarþáttinn í málinu, þó að bein afgreiðsla fari ekki fram um störf á þessum vettvangi, hefur þetta eigi að síður áhrif á kjör ráðningarfyrirtækja sem eru að feta sig, mörg hver lítil í viðkvæmum rekstri, á þessum markaði. Atvinnurekendurnir eru þeir sem hætta að koma inn á ráðningarskrifstofurnar. Þetta eru ,,atvinnurekendur`` hjá ríkinu vegna þess að það eru þeir sem borga fyrir þjónustuna sem ráðningarskrifstofa veitir. Þar af leiðandi hefur þetta áhrif þar.

Mér skilst af svörum hæstv. ráðherrans að þarna sé um að ræða ríkisrekinn auglýsingamiðil þar sem hægt er að auglýsa störf hjá ríkinu. Auðvitað er þetta í andstöðu við það sem fram kemur í innkaupastefnu ríkisins þar sem, eins og ég vakti athygli á áðan, ,,bestu kaup`` fela m.a. í sér að hugað sé að því hvort einstakir þættir í rekstrinum eða tiltekin verkefni verði betur leyst með kaupum á almennum markaði. Ég verð að segja það, herra forseti, að mér þykir hæstv. fjmrh. vera mjög svo í andstöðu við stefnu sína, við stefnu síns eigin flokks, við innkaupastefnu ríkisins, þegar hann reynir að réttlæta það hér að þessi þáttur auglýsingamarkaðarins fari alfarið inn á ríkismarkaðinn. Auðvitað sparar það peninga fyrir ríkið en hver er það sem borgar brúsann? Hver er það sem borgar, herra forseti, fyrir gerð auglýsinga? Það eru ríkisstarfsmenn sem vinna þessar auglýsingar, skilst mér, og að sjálfsögðu eru það þá skattgreiðendur sem borga þennan brúsa. Ég vil bara ítreka það. Segir ekki hæstv. fjmrh. að hér sé um að ræða ríkisrekinn atvinnuauglýsingamiðil?