Starfatorg.is

Miðvikudaginn 29. janúar 2003, kl. 13:55:44 (3164)

2003-01-29 13:55:44# 128. lþ. 67.2 fundur 450. mál: #A starfatorg.is# fsp. (til munnl.) frá fjmrh., fjmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 67. fundur, 128. lþ.

[13:55]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde):

Herra forseti. Það er alveg ótrúlegt að hlusta á þennan málflutning. Þingmaðurinn heldur því í raun og veru fram að allt sem fram kemur á vef Stjórnarráðsins sé ríkisrekin auglýsingastarfsemi, tilkynningar, fréttir og annað sem er á þessum vef, það sé verið að taka spón úr aski einhverra fjölmiðla væntanlega eða annarra aðila. (Gripið fram í.)

Ég tók eftir því, herra forseti, að þegar þessari fyrirspurn var fyrst útbýtt hét hún ,,Fyrirspurn til fjármálaráðherra um ríkisrekna ráðningarþjónustu.`` (BH: Það var leiðrétt.) Það var leiðrétt sem betur fer. En þingmaðurinn hefur ekki leiðrétt þann misskilning sinn að hér sé um að ræða ríkisrekinn auglýsingamiðil. Þetta er einfaldlega skrá á einum stað yfir laus störf, m.a. í samræmi við ábendingar sem komu fram fyrir nokkrum árum frá umboðsmanni Alþingis. Hann taldi eðlilegt að safna saman á einn stað upplýsingum um laus störf, m.a. með því að hagnýta sér framfarir sem orðið hafa í upplýsingamálum, til að greiða fyrir því að fólk gæti leitað sér að störfum hjá ríkinu. Það er það sem verið er að gera. Og eins og ég sagði áðan er þetta listi með upplýsingum um laus störf. Síðan er tilvísun til þeirrar stofnunar sem hefur með þessi mál að gera. Það kann vel að vera að hún hafi síðan falið einhverri ráðningarstofu eftir sem áður að annast málið, veita nánari upplýsingar o.s.frv. En heldur þingmaðurinn að Íslendingar sem eru t.d. við nám í útlöndum og eru að leita sér að vinnu hafi ekki ákveðinn hag af því að geta leitað inn á Starfatorgið í gegnum vef Stjórnarráðsins (Gripið fram í.) og fengið upplýsingar um laus störf eða að fólk hvar sem er í landinu geti aflað sér þessara upplýsinga með handhægum hætti og í leiðinni geti ríkið sparað sér auglýsingakostnað sem rynni ella til fjölmiðla? Ég hélt að það væri kappsmál allra hér inni að reyna að spara pínulítið í ríkisrekstrinum í staðinn fyrir að standa hér og snúa út úr fyrir fólki sem er að reyna að gera það, það væri markmiðið að spara fremur en að snúa út úr því sem gert er.