Endurgreiðsla virðisaukaskatts hjá heilbrigðisstofnunum

Miðvikudaginn 29. janúar 2003, kl. 14:00:32 (3166)

2003-01-29 14:00:32# 128. lþ. 67.3 fundur 503. mál: #A endurgreiðsla virðisaukaskatts hjá heilbrigðisstofnunum# fsp. (til munnl.) frá fjmrh., fjmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 67. fundur, 128. lþ.

[14:00]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde):

Herra forseti. Það er rétt sem fram kom hjá hv. þingmanni að margt er vel gert í Hveragerði í sambandi við heilbrigðis- og umönnunarmál, og vonandi margt fleira í bígerð varðandi heilsutengda ferðaþjónustu, bæði þar og víðar á Suðurlandi. En skattskylda í atvinnustarfsemi er ekki tengd því hvar viðkomandi starfsemi fer fram, heldur gilda um hana almennar reglur sem settar eru í lögum og reglugerð, í þessu tilviki um virðisaukaskatt.

Skv. 2. gr. laga um virðisaukaskatt er öll eiginleg heilbrigðisþjónusta undanþegin virðisaukaskatti. Með ákvæðinu er starfsemi heilbrigðiskerfisins jafnt starfsemi hins opinbera sem sjálfstætt starfandi aðila haldið utan við skattskyldusvið laganna. Undanþáguákvæðið tekur að vísu aðeins til þjónustu sem veitt er í heilbrigðiskerfinu því sala á vöru er skattskyld þótt hún sé afhent í tengslum við heilbrigðisþjónustu. Þannig er Heilsustofnun NLFÍ undanþegin virðisaukaskatti vegna þeirrar læknisfræðilegu þjónustu sem þar er boðið upp á, svo sem vegna þjónustu lækna, sjúkraþjálfara o.s.frv. Hins vegar er stofnunin virðisaukaskattsskyld vegna annarrar starfsemi sem þar fer fram og er ekki læknisfræðileg, er þar af leiðandi ekki partur af hinni eiginlegu heilbrigðisþjónustu. Sem dæmi um þetta má nefna virðisaukaskattsskylda starfsemi sem fer fram þegar fæði er selt til starfsmanna eða þegar matvara er framleidd.

Ég tel í rauninni að þar með sé ég búinn að svara meginefni fyrirspurnarinnar en í 42. gr. laga um virðisaukaskatt og reglugerð þar að lútandi er kveðið á um að opinberir aðilar geti notið endurgreiðslna vegna kaupa á tiltekinni vinnu og þjónustu og er þar m.a. átt við sorphreinsun, ræstingu, snjómokstur, björgunarstörf, sérfræðiþjónustu o.fl. Þessar endurgreiðsluheimildir eru bundnar við ríki, sveitarfélög og stofnanir þeirra og ná ekki til félagasamtaka eða hlutafélaga. Þetta á við um fleiri en Heilsustofnun NLFÍ, t.d. hlutafélagið Öldung sem rekur hjúkrunarheimilið Sóltún en á það var látið reyna með úrskurði hjá ríkisskattstjóra hvort sú stofnun ætti rétt á endurgreiðslu virðisaukaskatts á þessum grundvelli. Svo var ekki talið vera. Þannig virðist ljóst að heilsustofnunin í Hveragerði eigi ekki rétt á sömu endurgreiðslum og opinberir aðilar þar sem stofnunin er ekki opinber aðili. En auðvitað getur hún, ef hún kærir sig um, látið á það reyna fyrir réttum aðilum, t.d. með því að sækja um endurgreiðslu virðisaukaskatts til skattstjóra og færa síðan þá ákvörðun með kæru til yfirskattanefndar. Það er auðvitað einn möguleiki fyrir utan þann möguleika að breyta lögum, sem ekki hefur verið lagt til.

Að því er varðar aðrar sjúkra-, heilsu- og öldrunarstofnanir sem hv. þm. spyr um gildir sú regla sem ég gat um að endurgreiðsla virðisaukaskatts varðandi þessi tilteknu kaup getur átt sér stað ef um er að ræða opinbera aðila. Það eru ekki til staðar sérstakar reglur um endurgreiðslu virðisaukaskatts fyrir sjúkra-, heilsu- og öldrunarstofnanir en hins vegar er öll eiginleg heilbrigðisþjónusta undanþegin virðisaukaskatti eins og áður er fram komið og skiptir þá ekki máli hvort um er að ræða opinbera aðila eða aðila sem starfa sjálfstætt.

Ég tel, herra forseti, að með þessu sé fyrirspurnunum svarað. Annars vegar er gerður greinarmunur á heilbrigðisþætti í viðkomandi rekstri, hann er undanþeginn, en hins vegar er um það að ræða hvort menn geta fengið endurgreiðslur vegna ýmissar annarrar þjónustu sem keypt er og þar er í lögum gerður greinarmunur á starfsemi opinberra aðila og annarra.