Endurgreiðsla virðisaukaskatts hjá heilbrigðisstofnunum

Miðvikudaginn 29. janúar 2003, kl. 14:07:18 (3168)

2003-01-29 14:07:18# 128. lþ. 67.3 fundur 503. mál: #A endurgreiðsla virðisaukaskatts hjá heilbrigðisstofnunum# fsp. (til munnl.) frá fjmrh., fjmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 67. fundur, 128. lþ.

[14:07]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde):

Herra forseti. Það má til sanns vegar færa að þeir sem eru í sömu stöðu eigi að njóta sömu starfsskilyrða. Það held ég að sé almenn skoðun nú til dags. Hins vegar er það þannig með Heilsustofnun NLFÍ í Hveragerði að hún er skráð í þjóðskrá sem félagasamtök. Kannski þarf líka að huga eitthvað að þeim þætti málsins. Hún er a.m.k. ekki opinber aðili í skilningi virðisaukaskattslaganna. Ef menn hugleiða hins vegar hvort rétt sé að breyta lögum til þess að ná utan um þá starfsemi --- auðvitað yrði ekki unnt að einangra slíka lagabreytingu við eina stofnun --- vaknar auðvitað sú spurning hvort menn vilja fara þá leið til þess að greiða fyrir því að fleiri einkaaðilar geti komið inn í rekstur á þessu sviði með sama hætti og t.d. Öldungur hf. sem rekur hjúkrunarheimilið Sóltún. Þar veit ég að hefur líka verið óánægja með þessi atriði. Það er að mörgu leyti af sömu rót runnið, þ.e. þar er um að ræða hlutafélag sem ekki telst vera opinber aðili þó að það hafi með höndum starfsemi sem oftast nær er rekin af slíkum aðilum.

Þetta er allt saman til umhugsunar, herra forseti, og ég þakka þingmanninum fyrir að vekja athygli á þessu máli hér og þær ábendingar sem fram hafa komið frá honum.