Verndun Mývatns og Laxár

Miðvikudaginn 29. janúar 2003, kl. 14:09:26 (3169)

2003-01-29 14:09:26# 128. lþ. 67.4 fundur 468. mál: #A verndun Mývatns og Laxár# fsp. (til munnl.) frá umhvrh., Fyrirspyrjandi EMS
[prenta uppsett í dálka] 67. fundur, 128. lþ.

[14:09]

Fyrirspyrjandi (Einar Már Sigurðarson):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að leggja fram fyrirspurn til hæstv. umhvrh. varðandi lög um verndun Mývatns og Laxár í Suður-Þingeyjarsýslu. Fyrirspurnin hljóðar þannig:

Hefur ráðherra í hyggju að leggja fyrir yfirstandandi löggjafarþing frumvarp um breytingar á lögum nr. 36/1974, um verndun Mývatns og Laxár í Suður-Þingeyjarsýslu?

Ástæða þessarar fyrirspurnar er að sjálfsögðu sú að þessi lög eru nokkuð komin til ára sinna og eru raunverulega barn síns tíma. Um nokkurt skeið hefur verið unnið að endurskoðun þessara laga, m.a. veitti hreppsnefnd Skútustaðahrepps þann 15. mars sl. umsögn um drög að frv. Einnig hefur komið fram að hæstv. ráðherra hafði í hyggju að leggja fram frv. í þessa veru á haustþingi en gaf það frá sér af einhverjum ástæðum. Þess er auðvitað vænst að það verði gert nú fyrir þinglok og þess vegna m.a. er þessi fyrirspurn fram komin.

Ástæður þess að leitað hefur verið eftir því að þessi lög verði endurskoðuð eru auðvitað fyrst og fremst þær að lögin hafa valdið miklum vanda í stjórnsýslunni við Mývatn, m.a. vegna þess að sveitarstjórn Skútustaðahrepps hefur í raun og veru ekki haft fulla lögsögu í ýmsum málum. Náttúruvernd ríkisins hefur haft neitunarvald á ýmsum þáttum, m.a. varðandi framkvæmdir og skipulagsmál, og þetta hefur valdið að minni hyggju óþarfanúningi milli aðila. Þess vegna er full ástæða til þess að reyna að leysa úr þeim vanda með breytingu á lögunum. Það virðist hafa náðst nokkuð góð sátt í starfshópi eða nefnd sem hefur verið að vinna að þessari endurskoðun á vegum hæstv. ráðherra.

Það eru auðvitað nokkur atriði sem nefndin náði ekki saman um en mér sýnast þau ekki vera stórvægileg og ekki líkleg til vandræða. Mig langar í þessu sambandi til að vekja athygli á því sem kemur m.a. fram í umsögn hreppsnefndar Skútustaðahrepps varðandi þau frumvarpsdrög sem ég nefndi áðan. Þar segir, með leyfi forseta:

,,Þau frumvarpsdrög sem hér eru til meðferðar munu hafa verulegar breytingar í för með sér hvað stjórnsýsluna varðar. Frumvarpsdrögin munu að mati sveitarstjórnar í engu breyta um að náttúruvernd verður í hávegum höfð hér eftir sem hingað til.``

Þess vegna, herra forseti, tel ég afar brýnt að hæstv. ráðherra svari fyrirspurninni sem nákvæmast um það hvort ekki sé áreiðanlega fyrirhugað að leggja fram frv. um endurskoðun á lögum um verndun Mývatns og Laxár í Suður-Þingeyjarsýslu.