Verndun Mývatns og Laxár

Miðvikudaginn 29. janúar 2003, kl. 14:18:24 (3172)

2003-01-29 14:18:24# 128. lþ. 67.4 fundur 468. mál: #A verndun Mývatns og Laxár# fsp. (til munnl.) frá umhvrh., Fyrirspyrjandi EMS
[prenta uppsett í dálka] 67. fundur, 128. lþ.

[14:18]

Fyrirspyrjandi (Einar Már Sigurðarson):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin og segja að ég hvet hæstv. ráðherra eindregið til þess að flýta þessu verki sem kostur er. Ég trúi ekki öðru en að ríkisstjórnin og þingflokkar stjórnarliðsins muni greiða fyrir gangi þess þar í gegn þannig að þingið megi taka afstöðu til frv. sem allra fyrst. Það er afskaplega brýnt að þetta mál fái framgang nú á vorþingi því eins og við vitum þá verður væntanlega skipt um ríkisstjórn á vordögum og það tekur alltaf einhvern tíma fyrir nýja ráðherra að koma sér inn í mál og koma svona málum í gegn. (Landbrh.: Treystirðu ekki væntanlegri ríkisstjórn?) Jú, hv. þm. Ég treysti fyllilega væntanlegri ríkisstjórn til þess að taka á málinu en ég er hræddur um að það gæti tafið það enn frekar. Núverandi ríkisstjórn er heldur betur búin að hafa tíma til þess að kippa þessu máli í liðinn og það er því miður ekki komið lengra en raun ber vitni og orðið tvísýnt, eins og skilja mátti af ræðu hæstv. ráðherra, að það nái fram fyrir vorið.

Ég vil taka undir með hv. þm. Guðjóni Arnari Kristjánssyni að það er afskaplega brýnt að við förum að koma ýmsum gömlum lögum í það form að hlutur heimamanna sé sem mestur um næsta nágrenni. Það er bara í takt við nútímastjórsýslu að þannig séu málin. Sú forræðishyggja að það sé alltaf best að stýra og stjórna málum frá skrifborði í Reykjavík er fyrir löngu orðin úrelt. Það gengur auðvitað ekki að sveitarstjórn eins og sveitarstjórn Skútustaðahrepps þurfi að búa við það að hafa allt annað um sitt umhverfi að segja en aðrar sveitarstjórnir í landinu.

Herra forseti. Lokaorð mín eru þessi: Ég vona að hæstv. ráðherra komi þessu máli í þann búning að það verði tilbúið til þess að leggjast fyrir ríkisstjórn og þingflokka stjórnarliðsins. Ég trúi því og treysti að þingflokkarnir og ríkisstjórnin hleypi þessu máli þar í gegn með miklu hraði.