Verndun Mývatns og Laxár

Miðvikudaginn 29. janúar 2003, kl. 14:20:33 (3173)

2003-01-29 14:20:33# 128. lþ. 67.4 fundur 468. mál: #A verndun Mývatns og Laxár# fsp. (til munnl.) frá umhvrh., umhvrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 67. fundur, 128. lþ.

[14:20]

Umhverfisráðherra (Siv Friðleifsdóttir):

Virðulegur forseti. Hér hefur verið spurt um athugasemdir sem aðilar hafa gert við frumvarpsdrögin sem nefndin samdi. Ég get nefnt það hér að Skútustaðaheppur hefur gert athugasemdir við niðurstöðu nefndarinnar á þremur blaðsíðum. Það hafa líka komið fram athugasemdir frá Kísiliðjunni varðandi hvaða skilning eigi að leggja í það að óheimilt verði að valda spjöllum eða raski á lífríki, jarðmyndunum og landslagi á landsvæði því sem um getur í 1. mgr. 2. gr. o.s.frv., sem lýtur að friðlýsingu ákveðinna svæða. Ef það ákvæði væri skilið bókstaflega fælist í því að svo til allar framkvæmdir væru bannaðar, þar á meðal starfsemi Kísiliðjunnar þannig að slík lagatúlkunaratriði er verið að skoða.

Það hafa líka komið fram athugasemdir frá iðn.- og viðskrn., Orkustofnun, Umhverfissamtökum Mývatns og Landeigendafélaginu. Þær eru í megindráttum á þá leið að aðilar eru mótfallnir því að kveðið sé á um sérstaka vernd vatnasviðs Laxár og Mývatns. Einnig hafa aðrir aðilar óskað eftir því að gerðar verði breytingar á ákvæðinu um bann við breytingum á rennsli straumvatna og vatnsborðshæð. Ýmsar álíka athugasemdir hafa því komið inn sem lúta að málum sem við teljum að eðlilegt sé að skoða ofan í kjölinn áður en við leggjum fram frumvarpsdrög. Þó að náðst hafi þokkaleg sátt í þessari nefnd þá hafa aðrir gert athugasemdir og líka aðilar sem voru í nefndinni. En þetta er allt til skoðunar og ég vona, virðulegur forseti, að okkur takist á næstunni að ljúka þessu máli þannig að þingið geti tekið það til meðferðar.