Viðgerð á rannsóknaskipinu Bjarna Sæmundssyni

Miðvikudaginn 29. janúar 2003, kl. 14:22:54 (3174)

2003-01-29 14:22:54# 128. lþ. 67.5 fundur 504. mál: #A viðgerð á rannsóknaskipinu Bjarna Sæmundssyni# fsp. (til munnl.) frá iðnrh., Fyrirspyrjandi JB
[prenta uppsett í dálka] 67. fundur, 128. lþ.

[14:22]

Fyrirspyrjandi (Jón Bjarnason):

Herra forseti. Ég vil leggja fram fyrirspurn um skipasmíðar og viðgerð á Bjarna Sæmundssyni.

Skipasmíðar og þjónusta við skip eiga sér langa sögu á Íslandi og á köflum hefur blómlegur iðnaður dafnað á þessu sviði sem skapað hefur þúsundir starfa í landinu og sparað þjóðinni umtalsverðan gjaldeyri. En nú um langt árabil hefur skipaiðnaðurinn hins vegar átt í miklum erfiðleikum. Samdráttur hefur verið viðvarandi í greininni. Fyrirtækjum hefur fækkað til muna og miklir rekstrarörðugleikar hrjá mörg þeirra sem eftir eru. Sérstaklega hefur staða nýsmíða verið erfið og má heita að nýsmíðar stærri skipa séu nærri aflagðar í landinu. Staðan er litlu skárri hvað varðar meiri háttar viðhaldverkefni, endurbyggingar eða endurbætur því að slík verkefni fara unnvörpum úr landi.

Margt hefur valdið því að svo er komið fyrir íslenskum skipasmíðaiðnaði sem raun ber vitni. Nefna má sem eina af meginástæðum að um langt árabil hefur íslenskur skipaiðnaður óstuddur af stjórnvöldum mátt sæta harðri samkeppni við ríkisstyrkta og niðurgreidda starfsemi í nágrannalöndunum. Því var, herra forseti, horft til boðaðra viðgerða á rannsóknaskipinu Bjarna Sæmundssyni þegar það var boðið út. Sem betur fer komu fréttir í gær um að samið hefði verið við innlendan aðila um viðgerðina. Mjög mörg tilboð komu í þessa viðgerð og lægsta íslenska tilboðið var fjórða í röðinni með um 119% af kostnaðaráætlun. Hin tilboðin sem voru hagstæðari hvað tölur varðar voru lægri.

Nú bárust þær fréttir í dag að gengið hefði verið að tilboði Slippstöðvarinnar á Akureyri. Þær spurningar sem ég lagði fram fyrir tveim vikum síðan eru því að því leyti til gamlar að búið er að ganga til samninga. Engu að síður er ástæða til að spyrja hæstv. iðnrh. á hvaða forsendum breytt var frá röð tilboða í þessar endurbætur á Bjarna Sæmundssyni þar sem fjórða lægsta tilboðinu var tekið nú. Er hér kannski um breytta stefnu stjórnvalda að ræða?

Það hefur verið gagnrýnt við viðgerð skipa erlendis, bæði varðskipanna Týs og Ægis á sínum tíma og einnig á skipum útgerðarinnar, að ekki sé reiknuð með þjóðhagsleg hagkvæmni þess að gera við skipin innan lands. Mun ráðherra beita sér fyrir því að framvegis verði gerð þjóðhagsleg úttekt á viðgerðum og smíðum á skipum hér innan lands áður en tekið er erlendum tilboðum? Hefur ráðherra gert sér grein fyrir því hve gengið hefur slæm áhrif á samkeppnistöðu íslensks skipaiðnaðar? Hyggst hún beita sér fyrir úrbótum hvað það varðar?