Viðgerð á rannsóknaskipinu Bjarna Sæmundssyni

Miðvikudaginn 29. janúar 2003, kl. 14:30:51 (3176)

2003-01-29 14:30:51# 128. lþ. 67.5 fundur 504. mál: #A viðgerð á rannsóknaskipinu Bjarna Sæmundssyni# fsp. (til munnl.) frá iðnrh., GuðjG
[prenta uppsett í dálka] 67. fundur, 128. lþ.

[14:30]

Guðjón Guðmundsson:

Herra forseti. Það var góð frétt fyrir íslenskan skipaiðnað þegar samið var við Slippstöðina á Akureyri um viðgerðina á Bjarna Sæmundssyni. Það er verkefnaskortur hjá íslenskum skipasmíðastöðvum. Því munar mjög um hvert stórverkefni sem unnið er hérlendis. Það er erfitt að reka stór fyrirtæki á smáverkefnasnapi. Þau þurfa að hafa stór verkefni sem kjölfestu í starfseminni. Oft eru vetrarmánuðirnir erfiðastir hvað verkefni varðar. Þá er mesti álagstíminn hjá fiskiskipaflotanum og útgerðir nota yfirleitt annan árstíma til viðgerða, breytinga og endurbóta. Þess vegna er þetta fjögurra mánaða verkefni kærkomið.

Það er stórmál að þessi iðngrein haldi velli. Þessi þjóð sem byggir afkomu sína að stórum hluta á fiskveiðum verður að eiga öflug skipaiðnaðarfyrirtæki til að þjóna flotanum.

Því miður lögðust skipasmíðar að mestu af fyrir áratug eða svo. Það er því ánægjulegt, eins og hæstv. ráðherra nefndi, að tvö íslensk fyrirtæki eiga nú í viðræðum við Færeyinga um byggingu á tveimur togurum. Verði það að veruleika slá menn tvær flugur í einu höggi, hefja skipasmíðar að nýju og jafnframt útflutning á íslenskri framleiðslu skipa sem var óþekkt á árum áður.