Viðgerð á rannsóknaskipinu Bjarna Sæmundssyni

Miðvikudaginn 29. janúar 2003, kl. 14:32:12 (3177)

2003-01-29 14:32:12# 128. lþ. 67.5 fundur 504. mál: #A viðgerð á rannsóknaskipinu Bjarna Sæmundssyni# fsp. (til munnl.) frá iðnrh., Fyrirspyrjandi JB
[prenta uppsett í dálka] 67. fundur, 128. lþ.

[14:32]

Fyrirspyrjandi (Jón Bjarnason):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svörin og fagna því ef merkja má stefnubreytingu hjá stjórnvöldum gagnvart íslenskum skipasmíðaiðnaði, þ.e. að verið sé að kanna hvernig jafna megi samkeppnisstöðu íslensks skipasmíðaiðnaðar gagnvart beint og óbeint ríkisstyrktum skipasmíðaiðnaði í öðrum löndum. Þeir hafa orðið að keppa við þann iðnað og kljást við fullkomið skilningsleysi stjórnvalda hingað til. Það er því fagnaðarefni ef þarna verður á stefnubreyting.

Ég vil þó ítreka að þessu verði fylgt rækilega eftir, bæði að kanna og rétta samkeppnisstöðu skipasmíðaiðnaðarins. Ég held að það sé full ástæða til að vera á varðbergi og óttast þá hækkun á genginu sem við stöndum frammi fyrir, það er þegar 10--15% hærra en ætti að vera miðað við eðlilegt efnahagsástand. Allar horfur eru á að það muni hækka enn meira á næstu missirum vegna fyrirhugaðra stórframkvæmda hér á landi. Það mun enn gera skipasmíðaiðnaðinum erfiðara fyrir í samkeppnisstöðunni.

Við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs höfum lagt fram á Alþingi þáltill. sem miðar einmitt að því að endurreisa og styrkja íslenskan skipasmíðaiðnað.

Ég vil svo ítreka að ég fagna því að viðgerð á Bjarna Sæmundssyni skuli fara fram hér á landi. Það er þá breytt frá því sem varð um varðskipin Tý og Ægi þegar viðgerð þeirra var boðin út. Viðgerð á þeim fór fram erlendis þrátt fyrir mjög hörð mótmæli innlendra aðila, m.a. Félags járniðnaðarmanna.

Virðulegi forseti. Þetta er ein stærsta og sterkasta iðngrein hér á landi, undirstaða fyrir íslenskan atvinnuveg. Okkur ber að standa vörð um hana.