Varnir gegn mengun sjávar

Miðvikudaginn 29. janúar 2003, kl. 15:14:05 (3182)

2003-01-29 15:14:05# 128. lþ. 68.2 fundur 53. mál: #A varnir gegn mengun sjávar# (förgun skipa og loftfara) frv., GHall
[prenta uppsett í dálka] 68. fundur, 128. lþ.

[15:14]

Guðmundur Hallvarðsson:

Herra forseti. Hér er ekkert smámál á ferðinni. Í yfirgripsmikilli ræðu síðasta ræðumanns kom fram hluttekning mikil yfir þeim óförum sem blasa við og tek ég að mörgu leyti undir ágæt orð hans um hversu dapurlegt málið er varðandi þessi skip sem liggja í reiðileysi. Hins vegar hefur komið fram að mörg þessara skipa gætu sinnt ákveðnum verkefnum. Það er kannski rétt að skýra frá því að í gær var afgreitt frá samgn. frv. til laga um skráningu skipa. Það gerir vonandi kleift að skapa verkefni fyrir einhver þessara skipa erlendis. Alla vega verður hægara að skrá skip erlendis til verkefna þar. Við vitum að þó nokkuð margar íslenskar útgerðir gera út skip undir erlendum fána. Þau eru í ágætum verkefnum erlendis og má t.d. nefna Sjóla í Hafnarfirði sem gerir orðið út ein fimm skip og til eru fleiri dæmi.

[15:15]

Hins vegar þegar talað er um að eðlilegt sé að farga þessum skipum er margt sem kemur upp í hugann hvernig það skuli gert. Ég hef heyrt marga tala um að eðlilegt væri að sökkva þeim og þau gætu jafnvel verið smáseiðum til varnar og skjóls. Einnig hefur komið fram að athugandi væri að sökkva skipum eða koma þeim fyrir á söndunum og sjá hvort landbrot yrði með öðrum hætti og ekki í jafnríkum mæli og nú er og fleira í þeim dúr.

Sannleikurinn er sá að ekki eru mörg ár síðan sanddæluskipið Sandey var dregið á þurrt inn við Sundin í Reykjavík og þar var skipið nánast klippt niður. Það er ekki langt síðan 180 tonna bátur var dreginn á þurrt eða settur í slipp á Suðurnesjunum og hogginn niður. Þar kom í ljós eins og hv. flutningsmenn koma inn á í greinargerð sinni að það kostaði u.þ.b. 2--3 millj. umfram það sem fékkst í brotajárnsverði að klippa þennan 180 tonna bát niður. Hins vegar kom það í ljós að eftir að stálið hafði verið tekið, voru um 30 tonn af úrgangi eða rusli sem þurfti að farga með öðrum hætti.

Þeir aðilar sem hafa unnið að þessu telja að þarna hafi slippkostnaðurinn verið nokkuð mikill og telja að hægt sé að skapa aðstöðu í landi, að hægt sé að draga skipin þar upp og vinna að því að klippa þau niður eða brenna og væru nokkur skip tekin í einu, væri þetta ekki óyfirstíganlegt mál fjárhagslega. Sannleikurinn er sá að ég hjó eftir því þegar hv. flm. Einar K. Guðfinnsson talaði um þessi mál og kom inn á þá skatta sem verið er að leggja t.d. á bifreiðaeigendur varðandi förgun úreltra og ónýtra bifreiða að einhver kostnaður þessu samfara væri ekki á útgerðina bætandi. Ég er hins vegar ekki sammála honum í því og tel eðlilegt að útgerðarmenn sitji við sama borð varðandi skip sín eins og landsmenn allir varðandi þann skatt sem nú er verið að leggja á t.d. bifreiðaeigendur vegna förgunar gamalla og úreltra bifreiða.

Ef litið er t.d. til þessa 180 tonna báts sem ég var að segja frá sem var rifinn suður með sjó þá voru þetta um 2--3 millj. kostnaður og ég tel að það sé ekki óyfirstíganlegt útgerðinni að leggja til hliðar þær upphæðir svo að farga megi þessum skipum. En eins og ég sagði áðan hafði þessi aðili samband við mig og taldi að ef hægt væri að koma upp aðstöðu í fjöru og nokkur skip væru tekin í einu, þá væri þetta mál ekki eins kostnaðarsamt og menn hafa af látið.

Það liggur vissulega mikið við þegar til þess er litið, eins og kemur fram í greinargerð hv. þm. Einars K. Guðfinnssonar og Kristjáns Pálssonar, að um 5 km viðlega í höfnum er upptekin vegna slíkra skipa sem eru í reiðileysi annaðhvort vegna verkefnaleysis eða vegna þess að þau eru úrelt, að þá er ekki um neina smáupphæð að ræða og líka þegar litið er til þess að á næstu fjórum árum er ætlað að setja 4,7 milljarða í framkvæmdir við hafnir landsins. Þá hljóta menn að spyrja: Er hluti af þörfinni sá að gömul og úrelt skip eru farin að taka of mikið pláss í höfnum? Það gengur náttúrlega ekki upp að ætla fjármagn til hafna vegna þess að mikill viðlegukantur er upptekinn vegna skipa sem eru í reiðileysi.

Komið var inn á það áðan að hugmyndir væru uppi um að draga nokkur skip á land og gera þau að sumarbústöðum. Ég tek undir orð hv. þm. Guðjóns Arnars Kristjánssonar þegar hann sagði að því miður hafi síðutogarar allir verið dregnir út og seldir í brotajárn. Það hefði verið eðlilegt að geyma eitt til tvö skip vegna sögulegra forsendna og ég held að við eigum að horfa á nokkur skip sem er eðlilegt að geyma. Ég nefni t.d. að nú er Reykjavíkurborg að stíga það ágæta skref að ætla að opna sjóminjasafn í Reykjavík og vonandi er ekki langt að bíða þar til af því verður.

Þá eru nokkur skip sem eðlilegt væri að geyma. Ég nefni t.d. dráttarbátinn Magna sem er fyrsta íslenska smíðaða stálskipið. Ég nefni elsta hvalbátinn og eðlilegt væri t.d. að horfa til varðskipsins Óðins þegar nýtt varðskip kemur, að leggja því til við sjóminjasafnið þar sem hægt væri að geyma sögulegar minjar úr umliðnum þorskastríðum.

Ég held, virðulegi forseti, að eðlilegt væri að þessu máli yrði vísað beint til ríkisstjórnar og hún mundi þegar hefjast handa um og kalla til aðila til þess að skoða úrlausnir á málinu með það í huga sem hér hefur komið fram: niðurrif skipa, sökkva þeim á hafsbotn eða nýta þau til varðveislu strandlengjunnar. Það eru því nokkrir kostir í stöðunni sem ég tel að séu allrar athygli verðir og ég tel að það væri óráð að ráðast í það með einhverjum gassa að sökkva þeim skipum sem úrelt eru og nánast orðin ónýt án þess að það sé athugað áður en lagt er upp með förgun skipanna með hvaða hætti það skuli gert.

Ég nefni t.d. það atvinnuástand sem er nú hjá járniðnaðarmönnum. Hér er mikið verkefni fyrir járniðnaðarmenn ef það yrði ofan á að draga þessi skip á þurrt og höggva þau niður, klippa þau niður eða brenna eftir því hvað heppilegast er. Ég nefndi áðan Sandeyna. Það var mjög sérstakt að horfa á þau vinnubrögð þegar það skip var klippt niður og virtist vera mjög létt verk. Hins vegar er ljóst að það fylgir því alltaf einhver mengun þegar skip er klippt niður eða brennt en það skapar alla vega atvinnu og það eru þá nokkur verðmæti sem við erum að flytja út aftur til endurvinnslu. Mjög athyglisvert er að skoða það að þegar rætt var um stjfrv. sem flutt var 1996, sem var breyting á lögum um varnir gegn mengun sjávar, þá var stuðst við þennan svokallaða OSPAR-samning um verndun Norður-Atlantshafsins sem undirritaður var í París 1992 og tók gildi 1998. Íslendingum, Norðmönnum, Frökkum og Spánverjum er gefinn frestur til ársloka 2004 til að hætta að sökkva ónýtum skipum. Það er dálítið sérkennilegt að sjá að þarna séu Spánverjar í flokki. Það er þó sú þjóð sem hefur verið að kaupa af okkur brotajárn, kaupa af okkur skip sem við höfum rifið niður eða brotajárn sem við höfum hreinsað til á okkar landi. Það er ekkert augljóst hvert við gætum flutt þetta brotajárn eða hverjir eru kaupendur. Hins vegar segir sá aðili sem er með starfsemi suður með sjó að þetta sé mál sem þurfi að skoða. Eins og ég sagði áðan, af 180 tonna skipi kom um 30 tonn af rusli sem þurfti að farga með sérstökum hætti og líklega hefði kostnaður staðið undir sér ef ekki hefði verið keypt upp pláss í slipp til þess farga því skipi og rífa það.

Virðulegur forseti. Hér er hið þarfasta mál á ferðinni og auðvitað þarf það að fá einhverja úrlausn Alþingis, en ég tel að það þurfi að skoða og það væri ekki óeðlilegt eins og ég sagði áðan að þessu máli yrði vísað til ríkisstjórnar í trausti þess að hún mundi þegar skipa starfshóp sem hefði skamman tíma til þess að fjalla um þessa þætti, þ.e. förgun á landi, sem sé gera þetta að brotajárni, að sökkva í sæ eða á landi til að vernda landbrot suðurstrandarinnar.

Herra forseti. Þetta er það sem ég vildi sagt hafa í þessu máli og þakka flutningsmönnum fyrir að hafa komið málinu hingað inn í þingsali aftur því að þangað á það fullt erindi. Hins vegar deilir okkur kannski á um leiðir en við erum þó allir sammála um markmiðið, að nauðsynlegt sé að losa hafnir undan óreiðuskipum. Það er nauðsynlegt vegna þess að þegar slík skip taka upp dýra og mikla viðlegukanta, þá kallar það á kröfuna um áframhaldandi framkvæmdir í höfnum sem eru mjög dýrar og viðamiklar.