Varnir gegn mengun sjávar

Miðvikudaginn 29. janúar 2003, kl. 15:30:00 (3184)

2003-01-29 15:30:00# 128. lþ. 68.2 fundur 53. mál: #A varnir gegn mengun sjávar# (förgun skipa og loftfara) frv., GHall (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 68. fundur, 128. lþ.

[15:30]

Guðmundur Hallvarðsson (andsvar):

Herra forseti. Af orðum síðasta ræðumanns vildi ég koma hér upp og geta þess að frv. gengur aðeins í eina átt. Frv. gengur í þá átt að sökkva skipum. Það er eina leiðin. Ég tel hins vegar að full ástæða sé til að skoða það mál hvernig eigi að farga skipum. Ég gat um það áðan að hjá járniðnaðarmönnum er atvinnuleysi. Þetta mundi skapa mörg störf fyrir járniðnaðarmenn auk þess sem það hefur einnig komið fram að það er ekki svo kostnaðarsamt að eyða þessum skipum, að höggva þau niður. Um leið erum við að skapa bæði atvinnu og tekjur og það var þess vegna sem ég talaði um að eðlilegt væri að vísa því til ríkisstjórnarinnar til þess að hún hefði þá umsvif til að kalla saman ráðgjafarhóp til að fara yfir flóruna alla.

Í umræðunni kom m.a. fram að það ætti að skoða hvort rétt væri að sökkva eða láta þessi skip á land til að bjarga landbroti suðurstrandarinnar, sökkva þeim til þess að búa einhverjar uppeldisstöðvar fyrir smáfisk eða sökkva þeim djúpt á hafsbotn. Mér finnst að nokkrir þættir séu í óvissu og með því að setja þetta mál til hv. umhvn. þá er aðeins ein leið varðandi þetta frv., það er að sökkva skipunum og ekkert annað.