Varnir gegn mengun sjávar

Miðvikudaginn 29. janúar 2003, kl. 15:31:46 (3185)

2003-01-29 15:31:46# 128. lþ. 68.2 fundur 53. mál: #A varnir gegn mengun sjávar# (förgun skipa og loftfara) frv., HjÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 68. fundur, 128. lþ.

[15:31]

Hjálmar Árnason (andsvar):

Herra forseti. Hvað varðar þá fullyrðingu að það sé ekki mjög dýrt að setja skip í brotajárn og endurvinna þau, þá er eðlilegt að spyrja: Af hverju hafa menn þá ekki gripið til þess? Það er vegna þess að það er talinn verulegur kostnaður af því.

Þetta mál hefur áður komið til umfjöllunar á Alþingi og þó að þetta frv. verði samþykkt, þá felur það ekki í sér að öll skip skuli sett á hafsbotn, að þeim skuli öllum sökkt. Það er einungis verið að opna fyrir þá heimild en að sjálfsögðu skoða menn aðrar leiðir einnig eins og ágætar hugmyndir sem hv. þm. nefndi, að nota þetta til þess að verja land eða sökkva skipum og skapa fiskislóð o.s.frv., einungis er verið að opna slíka leið en í því felst ekki að þarna skuli öllum skipum sökkt. Það er einungis verið að opna leiðina. Um þetta hefur verið nóg talað og það er mikilvægt að Alþingi móti þessa stefnu og opni þessa athyglisverðu leið.