2003-01-29 15:48:15# 128. lþ. 68.94 fundur 390#B upplýsingaskylda stjórna hlutafélaga um starfslokasamninga og fleiri sambærilega samninga# (umræður utan dagskrár), GunnB
[prenta uppsett í dálka] 68. fundur, 128. lþ.

[15:48]

Gunnar Birgisson:

Virðulegi forseti. Það má eiginlega skipta þessu máli í tvennt. Annars vegar eru það starfslokasamningar starfsmanna í þjónustu ríkisins sem falla undir gildissvið laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins frá 1996. Hins vegar eru það starfslokasamningar og aðrir sambærilegir samningar milli starfsmanna og framkvæmdastjóra eða stjórna hlutafélaga sem eru gerðir í trúnaði á milli viðkomandi starfsmanns og viðkomandi stjórnar.

Margar ástæður geta legið að baki starfslokunum sem aðilar vilja hafa fyrir sig, svo sem að aðilar geti ekki unnið saman, aldur og fleira. Það er síðan ákvörðun viðkomandi stjórnar hvort fyrirtækið upplýsi slíka starfslokasamninga eða ekki. Það gildir um öll hlutafélög, hvort sem þau eru í eigu ríkisins eða ekki.

En meginreglan hvað varðar upplýsingaskyldu fyrirtækja gagnvart hluthöfum er sú að stjórnskipan þeirra skal vera með þeim hætti að veittar séu upplýsingar um öll málefni sem tengjast fyrirtækinu, þar með talið helstu stjórnendur og launakjör þeirra. Þó að upplýsingar um laun og launakjör stjórnenda séu viðkvæm er oft betra að upplýsa þau heldur en að stjórnendur og stjórnir fyrirtækja sitji á slíkum upplýsingum og svo líti út sem verið sé að fela eitthvað gruggugt. Þá geta farið á kreik gróusögur þar sem oftast er farið með rangar upplýsingar eins og kom fram í máli hv. þm. Ögmundar Jónassonar. Viðkomandi starfsmenn og fyrirtæki geta skaðast af slíkri umræðu.

Það er skoðun mín að starfslokasamningar og aðrir sambærilegir samningar skuli vera aðgengilegir hluthöfum. En það má gæta sín í þessari umræðu að fara ekki með upphrópanir eins og um að upprætta spillingu og annað. Mér finnst það ekki tilhlýðilegt, ekki gagnvart viðkomandi starfsmönnum sem verið er að tala um og viðkomandi fyrirtækjum.