2003-01-29 15:50:41# 128. lþ. 68.94 fundur 390#B upplýsingaskylda stjórna hlutafélaga um starfslokasamninga og fleiri sambærilega samninga# (umræður utan dagskrár), GAK
[prenta uppsett í dálka] 68. fundur, 128. lþ.

[15:50]

Guðjón A. Kristjánsson:

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Lúðvíki Bergvinssyni fyrir að taka þetta mál til umræðu. Ég tel að starfslokasamningar og önnur starfskjör yfirmanna í fyrirtækjum hafi vakið undrun flestra Íslendinga, annarra en þeirra sem eru stjórnarmenn í fyrirtækjum, þ.e. almenns fólks og almennra hluthafa, svokallaðra minni hluthafa í hlutafélögum. Starfslokasamningar og aðrir sambærilegir samningar eiga að vera fyrir opnum tjöldum, einkum í hlutafélögum í opinberri eigu að öllu leyti, hálfopinberum hlutafélögum og almenningshlutafélögum. Það kann að vera mun snúnara að eiga við það að krefjast opinberra upplýsinga um fámennishlutafélög og hlutafélög í eigu fjölskyldu, enda er þar málum öðruvísi fyrir komið.

Allt fyrirkomulag sem kallar á laumuspil varðandi starfslokasamninga í áðurnefndum fyrirtækjum í almenningseigu, hálfopinberri eigu og opinberri eigu er óþolandi. Landssíminn og VÍS eru dæmi um mál sem ég tel að eigi að upplýsa að þessu leyti. Það er ánægjulegt að hæstv. viðskrh. skuli hafa boðað lagabreytingar sem ættu að geta tryggt að slíkar upplýsingar verði aðgengilegar almenningi því að fortíðin í þessum málum er óþolandi.

Það vekur mikið vantraust með almennu launafólki að málum skuli vera svo komið sem raun ber vitni varðandi starfslokasamninga yfirmanna í fyrirtækjum.