2003-01-29 15:55:04# 128. lþ. 68.94 fundur 390#B upplýsingaskylda stjórna hlutafélaga um starfslokasamninga og fleiri sambærilega samninga# (umræður utan dagskrár), HjÁ
[prenta uppsett í dálka] 68. fundur, 128. lþ.

[15:55]

Hjálmar Árnason:

Herra forseti. Fyrsta spurningin í þessu máli hlýtur að vera sú hvort Alþingi geti og eigi að skipta sér beint af því sem fram fer innan fyrirtækja í einkaeigu, ekki með öðrum hætti heldur en að setja hinar almennu leikreglur. Öðru máli gegnir hins vegar um fyrirtæki í eigu ríkisins. (SJS: En Framsfl.?)

Grundvallaratriði í þessu máli er að í hinum himinháu starfslokasamningum sem virðast hlaupa á tugum eða hundruðum millj. kr. eftir fréttum að dæma endurspeglast sú græðgi sem gegnsýrir í rauninni allt samfélagið. Það má segja að hún birtist öfgafyllst hjá svokölluðum toppum en eftir fréttum að dæma, nánast daglegum, kemur hún fram á öllum sviðum. Þetta snertir gildismat þjóðarinnar, þetta veraldlega gildismat sem virðist knúið áfram af græðginni frægu og hefur auðvitað áhrif á hið félagslega líf, á siðferðisvitund þjóðarinnar og fjölskyldur hennar þannig að ef menn ætla sér að leysa þau vandamál sem fylgja græðgi gerist það ekki eingöngu hér. Til þess þarf þjóðarátak gegn græðgi. (SJS: Þegar ráðherrarnir gera samninga.)