2003-01-29 15:58:49# 128. lþ. 68.94 fundur 390#B upplýsingaskylda stjórna hlutafélaga um starfslokasamninga og fleiri sambærilega samninga# (umræður utan dagskrár), EOK
[prenta uppsett í dálka] 68. fundur, 128. lþ.

[15:58]

Einar Oddur Kristjánsson:

Herra forseti. Ég ætla að það hafi verið alveg hárrétt hjá upphafsmanni þessarar umræðu að það er öllum fyrir bestu gagnvart almenningshlutafélögum og gagnvart félögum í eigu ríkisins að upplýsingar liggi allar fyrir, allar. Ég ætla að sá sé siður í Bandaríkjunum og að það séu lögin þar. Þar telja menn það heppilegt og sjálfsagt að upplýsa það alls staðar. Menn geta gert það meira að segja á netinu, fengið nákvæmar upplýsingar um kaup og kjör manna.

Ég las það í Dagblaðinu í dag að til standi að breyta reglum Kauphallarinnar. Ég fagna því. Ég ætla líka að það standi til af hálfu viðskrh. að setja slíkar reglur. En það er næst hjá þinginu, úr því að svo mikil samstaða er um þessi mál, að efh.- og viðskn. skoði lagagrundvöllinn, athugi hvort eitthvað skorti á að hægt sé að tryggja að svo sé og geri það þá sjálf (Gripið fram í.) ef eitthvað vantar upp á lagagrundvöllinn til að tryggja að allar upplýsingar um almenningshlutafélög sem eru á markaði og allar upplýsingar um hlutafélög í eigu ríkisins séu öllum aðgengilegar. Við skulum að sjálfsögðu standa að því að svoleiðis verði það, enda ætla ég að allir vilji það.