2003-01-29 16:00:18# 128. lþ. 68.94 fundur 390#B upplýsingaskylda stjórna hlutafélaga um starfslokasamninga og fleiri sambærilega samninga# (umræður utan dagskrár), GÁS
[prenta uppsett í dálka] 68. fundur, 128. lþ.

[16:00]

Guðmundur Árni Stefánsson:

Herra forseti. Við skulum einhenda okkur í þessa vinnu. Ég tek fagnandi yfirlýsingu hv. þm. Einars Odds Kristjánssonar þess efnis að þingið fari í að gera þessar leikreglur þannig úr garði að komið verði í veg fyrir óhóf af þeim toga sem okkur hefur birst á síðustu dögum, raunar síðustu mánuðum, missirum og árum. Sannleikurinn er þrátt fyrir allt sá, herra forseti, að allir þessir gjörningar eru gerðir í skjóli hins pólitíska valds. Menn hafa farið fram með þeim hætti sem raun ber vitni vegna þess að þeir hafa vitað og skynjað að þeir gætu það. En hingað og ekki lengra. Nú skulum við einhenda okkur í verkið, herra forseti, taka á þessum málum og setja á stopp.

Herra forseti. Það rifjast líka upp að það er ekki eingöngu að nú er til svara núverandi forstjóri VÍS, þar sem sagt er að tryggingar snúist um fólk --- sumt fólk a.m.k. en ekki allt. Hann er fyrrum iðnrh. og raunar tók núv. iðnrh.- og viðskrh. við af honum. Hann hefur svarað því til að fyrrum stjórn VÍS hafi tekið þessa ákvörðun um 200 millj. kr. starfslokasamning. Er ég að fara rangt með, herra forseti? Var það ekki þannig að VÍS var að verulegu leyti í eigu Landsbanka Íslands sem á þeim tíma var að verulegu leyti í eigu ríkissjóðs? Með öðrum orðum eru bein tengsl við hæstv. ráðherra viðskiptamála og stjórn fyrirtækisins á þeim tíma. Hún ber því ábyrgð á þessum gjörningi að hluta til samkvæmt yfirlýsingu Finns Ingólfssonar, núverandi forstjóra.

Ég bið hæstv. ráðherra að svara hvort henni, sem fulltrúa almannafjár á þeim tíma, hafi verið tilkynnt um þetta á þeim tíma. Það þýðir ekki að standa hér, herra forseti, og segja þegar það hentar: Þetta eru leikreglur hins almenna markaðar og koma okkur ekki við á hinu háa Alþingi.

Við viljum hafa leikreglur þannig að þær séu gagnsæjar, uppi á borðum og komi ekki þannig fyrir að fólki flökri þeir fjármunir sem hent er í forstjóra og nýríka Íslendinga. Nóg er nú samt.