Álverksmiðja í Reyðarfirði

Miðvikudaginn 29. janúar 2003, kl. 16:11:01 (3201)

2003-01-29 16:11:01# 128. lþ. 68.1 fundur 509. mál: #A álverksmiðja í Reyðarfirði# frv., SJS (um atkvæðagreiðslu)
[prenta uppsett í dálka] 68. fundur, 128. lþ.

[16:11]

Steingrímur J. Sigfússon (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Ég veit ekki af hverju hv. þm. Hjálmar Árnason svarar svo véfréttalega sem raun ber vitni, hvort hann brestur minni til þess hvernig þessum hlutum hefur verið háttað alvenjulega á undanförnum árum eða hvort hann er viljandi að drepa málinu á dreif. Það hefur iðulega verið ákveðið fyrir fram og gengið þannig frá því, í umræðum eða við lok umræðna áður en mál fer til nefndar, að nefndarvinnunni verði hagað með tilteknum hætti.

Stundum hefur verið ákveðið að tvær nefndir, við skulum segja utanrmn. og sjútvn., vinni sameiginlega að máli þannig að þær fundi sameiginlega um það. Það hefur stundum verið ákveðið að sú fagnefnd sem fer með mál ráðherra sem flytur viðkomandi mál fái málið til sín en hún óski eftir áliti viðkomandi nefnda sem málið varðar einnig. Ég minnist þess að fyrir einum tveimur árum síðan vorum við einmitt með eitt mjög stórt mál af þessu tagi þar sem nákvæmlega þessi leið var valin, að efh.- og viðskn. og umhvn. skiluðu sérstökum álitum til iðnn. Þetta liggur fyrir í sögunni.

Það er ekkert annað en viljaleysi eða skortur á þroskuðum vinnubrögðum að geta ekki gefið um það yfirlýsingu hér og nú að svona verði þessu hagað. Allt og sumt sem við förum fram á er að það liggi fyrir við þessa afgreiðslu að iðnn. muni gefa umhvn. og efh.- og viðskn. færi á að láta álit sitt í ljós við iðnn. áður en málið er afgreitt þaðan. Þetta er réttmætt og rökstudd ósk og nægir að vísa til þess, herra forseti, að þetta frv., þó flutt sé af iðnrh. og á málasviði iðnrh., er að mestu leyti um sérákvæði skattalegs eðlis. Ég hvet hv. formann iðnn. til að lesa frv., enda ekki seinna vænna hafi hann ekki gert það enn þá. (Gripið fram í.) Þetta frv., eins og m.a. kom fram í ræðum í gær, er að mestu leyti um sérákvæði á sviði skattaréttar. Þetta er staðreynd.

Kárahjúkavirkjun kemur einnig við sögu í frv. Það er sérstaklega að henni vikið í einni af greinum frv. þar sem t.d. er talað um að fella niður ákveðin gjöld sem tengjast ekki bara byggingu álvers heldur líka Kárahnjúkavirkjun. Þannig tengist þetta augljóslega líka þeirri miklu umfjöllun sem orðið hefur um umhverfismál í tengslum við þetta mál. Ég spyr og bið um einhver svör við því hvað er að því að haga málsmeðferðinni eins og við höfum óskað. Ég hef ekki heyrt þau. Mér þykir mjög miður ef það er ekki einu sinni vilji til að sýna sanngirni í vinnubrögðum af þessu tagi.

Síðan þakka ég fyrir þann ríflega ræðutíma sem mér var veittur.