Hugmyndir um virkjun að fjallabaki

Fimmtudaginn 30. janúar 2003, kl. 10:35:11 (3207)

2003-01-30 10:35:11# 128. lþ. 69.91 fundur 391#B hugmyndir um virkjun að fjallabaki# (aths. um störf þingsins), RG
[prenta uppsett í dálka] 69. fundur, 128. lþ.

[10:35]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Mér eins og fleirum hnykkti nokkuð við í morgun að hlusta á fréttirnar, og ég verð að segja að það er athyglisvert að Landsvirkjun skuli nú ætla í einhverjum meiri mæli að skoða gufuaflið. Mig hefur furðað á því í allri umræðu um orkuöflun hversu lítið hefur verið fjallað um möguleikana sem felast í gufuafli, ekki síst gufuafli sunnan lands varðandi stóriðjuna þar sem kallar eftir orku.

Þegar ég heyrði þessa frétt í morgun, virðulegi forseti, velti ég því fyrir mér hvort Landsvirkjun væri komin í stríð, og við hverja það þá væri. Er hún komin hreinlega í stríð við náttúruunnendur þessa lands þar sem svo viðkvæm staða er uppi núna að við bíðum eftir því í dag að úrskurður falli um hvort eigi að fara inn í hin heilögu vé, Þjórsárver, eða er Landsvirkjun komin í lið með andstæðingum ríkisstjórnarinnar sem finnst að nú sé nóg komið af valdbeitingu og að gera það sem við viljum hvenær og hvar sem er?

Þrátt fyrir að það sé svo mikill meiri hluti fyrir því að byggja Kárahnjúkavirkjun voru mjög deildar meiningar um það og það eru mjög viðkvæmar tilfinningar í því að fara inn í Þjórsárverin. Þess vegna, virðulegi forseti, finnst mér hreinlega broslegt að Landsvirkjun skuli velja þennan tímapunkt til að kynna það að hún muni óska eftir að fara inn í Hrafntinnusker vestanvert og bora þar.