Raforkulög

Fimmtudaginn 30. janúar 2003, kl. 11:09:40 (3214)

2003-01-30 11:09:40# 128. lþ. 69.1 fundur 462. mál: #A raforkulög# (heildarlög, EES-reglur) frv., iðnrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 69. fundur, 128. lþ.

[11:09]

Iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (andsvar):

Hæstv. forseti. Eins og hv. þm. hefur eflaust tekið eftir svaraði ég þessari grein í Morgunblaðinu og færði rök fyrir því að ég teldi mikilvægt að horfa á heildarmyndina og að í raun væri mjög erfitt að innleiða einungis tilskipunina án þess að taka tillit til íslenska markaðarins og það held ég að sé aðalatriðið.

En eins og við höfum rætt áður á hv. Alþingi veitir tilskipunin vissulega ákveðið svigrúm. En það sem er þó algjört grundvallaratriði í henni er að ekki eru gefnar undanþágur frá frelsi varðandi vinnsluna. Það hefur engin þjóð fengið. Eftir að hafa átt fund með fulltrúum Evrópusambandsins og farið yfir málið var það algjörlega skýrt að aldrei hefði verið hægt að fá undanþágu frá þeim þætti. Hins vegar höfðum við ákveðið svigrúm sem lítið einangrað raforkukerfi til að fá hugsanlega undanþágu frá ýmsum þáttum, þ.e. ef það væri þannig að við ættum í erfiðleikum með að innleiða þá þætti. Hins vegar fengum við það skriflegt frá Orkustofnun fyrir nokkrum árum að ekki væri erfiðleikum bundið fyrir Ísland að innleiða þá þætti málsins og ég er alveg sammála þeirri niðurstöðu Orkustofnunar. Ég tel ekki að þetta mál sé þannig vaxið að það sé sérstökum erfiðleikum bundið fyrir okkur Íslendinga að innleiða þessa tilskipun. Þess vegna er ég mjög sátt við frv. sem nú liggur frammi og vonast til þess að það fái hér bærilegar viðtökur.