Raforkulög

Fimmtudaginn 30. janúar 2003, kl. 11:13:19 (3217)

2003-01-30 11:13:19# 128. lþ. 69.1 fundur 462. mál: #A raforkulög# (heildarlög, EES-reglur) frv., ÁSJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 69. fundur, 128. lþ.

[11:13]

Árni Steinar Jóhannsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Hæstv. iðnrh. fullyrðir í ræðustól við framsetningu frv. að frjálsræði hjá öðrum löndum í þeim dúr sem verið er að fara inn á hér hafi gefist vel. Ég spyr: Hvernig getur hæstv. ráðherra fullyrt slíkt þegar fréttir berast frá Noregi t.d. um að hin nýju fyrirtæki háfi inn gróða. Það er gríðarleg hækkun á raforkuverði, sérstaklega í kuldaköstum. Stórvandræði eru á svæðum eins og í Narvík þar sem raforkufyrirtækin komast hjá því að miðla og selja orkuna. Orkuverð í Noregi fór í vetur upp í 14 kr. á kílóvattstundina. Þaðan berast fréttir af gríðarlegum vandamálum í kjölfar breytinganna.

Mig langar að heyra skoðun hæstv. ráðherra á því sem er að gerast t.d. í Noregi og spyrja ráðherrann hvort þetta sé formúla sem hún getur skrifað upp á að hafi gengið nokkuð vel annars staðar, og tekur þá Noreg sem dæmi.