Raforkulög

Fimmtudaginn 30. janúar 2003, kl. 11:15:32 (3219)

2003-01-30 11:15:32# 128. lþ. 69.1 fundur 462. mál: #A raforkulög# (heildarlög, EES-reglur) frv., ÁSJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 69. fundur, 128. lþ.

[11:15]

Árni Steinar Jóhannsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er rangt hjá hæstv. iðnrh. að fyrirkomulagið stuðli ekki að þeim vandamálum sem koma upp í Noregi. Það er hagur fyrirtækjanna að framleiða sem mest á þeim tíma sem þeim hentar og þá láta fyrirtækin hjá líða að safna í uppistöðulón og miðla til vetrar. Það eru stóru málin þar og þetta er á grunni samtengingar við Danmörku eins og menn vita.

Ég vil spyrja hæstv. iðnrh. að öðru. Það eru vonbrigði að í frv. skuli ekki vera tekið á félagslega þætti raforkukerfisins. Það þarf að vera á hreinu alveg frá upphafi. Við vitum öll að raforkudreifing í sveitum kostar fleiri hundruð millj. og við þurfum að hafa alveg klára formúlu fyrir því. Það má ekki fara í nefnd. Það þarf að vera í frv. Sérstaklega eru nefndar þrjár leiðir sem aðrir hafa farið í þeim efnum. Ein er auðlindagjald inn á vinnsluna. Menn hafa farið í skattaþáttinn. Það hefur verið gert víða. Svo eru það bein framlög ríkisins til þeirra fyrirtækja sem stunda raforkudreifingu í landinu. Það er mjög mikilvægt fyrir okkur öll að í þessum pakka sé algjörlega neglt hvernig við ætlum að hátta raforkudreifingu í dreifbýli landsins og að þar sé gefin formúla. Ég spyr hæstv. ráðherra hvernig hún sér fyrir sér að það verði gert og hvaða formúla verði notuð af þessum þremur sem aðrir hafi ástundað.