Raforkulög

Fimmtudaginn 30. janúar 2003, kl. 11:53:20 (3224)

2003-01-30 11:53:20# 128. lþ. 69.1 fundur 462. mál: #A raforkulög# (heildarlög, EES-reglur) frv., EOK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 69. fundur, 128. lþ.

[11:53]

Einar Oddur Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Ef það er misskilningur minn, eins og hæstv. ráðherra vill vera láta, skulum við bara ganga frá þessu frv. þannig að tryggt sé í því, en ekki vera að bíða eftir neinni nefnd, að flutningurinn og dreifingin séu á einni hendi. Við skulum þá ganga frá því. Þá er enginn misskilningur hjá mér. (Iðnrh.: Þarftu þá ekki að bíða eftir nýrri ríkisstjórn?) Af hverju er verið að setja þetta í nefnd? Af hverju er verið að fresta ákvörðun um það hvernig við ætlum að haga jöfnuninni á raforkunni? Af hverju er verið að setja það í nefnd? Ef ég hef eitthvað misskilið það skulum við bara ganga frá því hvernig við ætlum að hafa þetta í frv., þá er það leyst. Þá eru engin vandræði hjá mér ef það liggur fyrir í frv. hvernig við ætlum að gera þetta. Þá skal ég svo sem standa með þessu frv. Ekki stendur á mér. Við skulum þá setja þetta inn í frv. en ekki geyma það.

Það liggur líka fyrir að auðvitað fengum við frestun hjá Evrópusambandinu að taka þetta gilt. Ég veit allt um það. En við höfum ekki sótt um undanþágu frá þeim þætti að í dreifingunni og í flutningnum sé ekki samkeppni. Við höfum ekki sótt um það. Ég er handviss um það og hef um það upplýsingar frá stóra fyrirtækinu, raforkuframleiðendum Euro Electric, að við getum alveg fengið þessa undanþágu eins og við þurfum frá Evrópusambandinu. Við skulum gera það.