Raforkulög

Fimmtudaginn 30. janúar 2003, kl. 11:59:35 (3227)

2003-01-30 11:59:35# 128. lþ. 69.1 fundur 462. mál: #A raforkulög# (heildarlög, EES-reglur) frv., ÁSJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 69. fundur, 128. lþ.

[11:59]

Árni Steinar Jóhannsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil spyrja hv. þm. Einar Odd Kristjánsson af hverju í ósköpunum hann hafi verið svona seinn að kveikja í þessu máli. Í umræðu um raforkumál sl. tvö ár hef ég fyrir hönd Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs drepið á nákvæmlega sömu grunnþætti og hv. þm. gerir, þ.e. undanþágumöguleika frá tilskipun ESB, dreifbýlið og jöfnun kostnaðar. Að því leyti til erum við algjörlega sammála, þetta eru meginatriði sem þarf að taka á. En hvers vegna í ósköpunum, verandi í stjórnarflokki og stærri stjórnarflokknum, er hv. þm. að koma upp með þessi mál núna, vekur fyrst athygli á þessu af krafti á haustdögum hvað varðar Orkubú Vestfjarða og lýsir þá mjög miklum efasemdum? Það gerir hv. þm. Björn Bjarnason einnig. Þessi mál eru búin að vera í grundvallaratriðum í umræðunni sl. tvö og hálft ár í tengslum við mörg mál, þar á meðal í tengslum við umfjöllun um Orkubú Vestfjarða. Eru þessi mál ekki rædd í þaula, í grunn, í stjórnarflokkunum? Hvers vegna þurfa stjórnarliðar á síðustu metrum afgreiðslu mála að koma fram með gagnrýni sem er í grundvallaratriðum þannig að frv. er ónýtt og þyrfti að vinna upp á nýtt? Ég er sammála hv. þingmanni varðandi samanburðinn við Evrópusambandið og tilskipanir, og ekki síst félagslega þáttinn. Ég drap á það mál í andsvari við hæstv. ráðherra að það er óafgreitt og algjörlega óásættanlegt að það mál fari í nefnd. Það verður að vera gengið frá því í frv. Og ég er sammála hv. þingmanni um jöfnun. En hvers vegna þessi seinagangur? Það skil ég ekki og spyr um hann.