Raforkulög

Fimmtudaginn 30. janúar 2003, kl. 12:03:44 (3230)

2003-01-30 12:03:44# 128. lþ. 69.1 fundur 462. mál: #A raforkulög# (heildarlög, EES-reglur) frv., EOK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 69. fundur, 128. lþ.

[12:03]

Einar Oddur Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Ég veit ekki nákvæmlega hvort við erum að takast á um nokkurt mál. Ég hélt að menn lægju yfir þessu flókna máli og reyndu að átta sig á því hvern veg það gengi best fram fyrir menn. Ég kann enga skýringu á því af hverju menn ættu að skiptast í einhverja pólitíska stjórnmálaflokka varðandi afstöðu til þess. Þetta er bara flókið mál og erfitt, menn eru að reyna að gera sér grein fyrir því hvernig við stöndum best vörð um hagsmuni Íslands. Það er ekkert annað sem við erum að gera. Við erum að reyna að átta okkur á því. Ég er nær því að halda að heilmikil samstaða sé um það. Ég tel það. Ég tel að frv. sé búið að fá mjög mikla umfjöllun mjög víða og ég er sannfærður um að það sé minni ágreiningur en sumir vilja vera láta þegar nær dregur.

Ég er hins vegar ekki sammála því að svona frv. þurfi endilega að vera hér á síðustu metrunum, bara alls ekki neitt. Frv. um svona flókin mál og mikilverða málaflokka verður bara að taka sinn tíma, skiptir ekki meginmáli fyrir eina þjóð hvort það tekur eitt ár, tvö ár eða þrjú ár. Við tökum okkar tíma í það eins og þarf. Þannig er þetta ekkert á síðustu metrunum endilega. Við skulum bara fara í gegnum þetta fram og til baka, sinna þessu og skoða þetta, leggja okkur öll fram og reyna að ná sem bestri niðurstöðu. Það skiptir öllu máli. (Iðnrh.: Það er dagsetningarvandi.) Herra forseti. Það er ekki dagsetningarvandi. Það var beðið um undanþágur til tveggja ára. Ég er alveg sannfærður um að það er hið minnsta mál að framlengja þá undanþágu enda ekkert sem knýr á Evrópusambandið hvort þetta er tekið fyrir á Íslandi árinu fyrr eða seinna.