Raforkulög

Fimmtudaginn 30. janúar 2003, kl. 12:05:59 (3231)

2003-01-30 12:05:59# 128. lþ. 69.1 fundur 462. mál: #A raforkulög# (heildarlög, EES-reglur) frv., ÁSJ
[prenta uppsett í dálka] 69. fundur, 128. lþ.

[12:05]

Árni Steinar Jóhannsson:

Virðulegi forseti. Við fjöllum um frv. til raforkulaga og framtíðarskipan orkumála á grunni tilskipunar frá Evrópusambandinu. Ég vil aðeins koma að því í upphafi máls míns að tilskipanir frá Evrópusambandinu --- það er skoðun mín, hefur lengi verið og hefur komið fram í málflutningi mínum að sá grunnur sem lagður er til grundvallar nýrri stefnu í Evrópu henti engan veginn hér á landi eins og fram hefur verið haldið í máli sumra hv. þm. Við erum með einangrað raforkukerfi sem er á engan hátt tengt við markaðssvæði Evrópu og þannig höfum við algjöra sérstöðu í okkar málum og eigum að líta á þau út frá hagsmunum okkar einum en ekki út frá þeim hagsmunum sem koma fram í tilskipunum og pappírum Evrópusambandsins á grunni þeirrar vinnu sem menn hafa farið í þar á bæ út af stöðu raforkumála.

Ég ímynda mér að þetta fyrirkomulag í Evrópu sé gott fyrir Evrópu vegna þess að Evrópusambandið stóð frammi fyrir því að umframgeta í orkukerfinu þar var um 20% fyrir tilskipun og markmiðið var að koma á betri nýtingu og stuðla að minni mengun. Það er alveg ljóst að það fyrirkomulag, þó að það sé kannski ekki alveg komið í fullan gang enn þá alls staðar, hefur orðið til mikilla hagsbóta, sérstaklega fyrir miðhluta Evrópu. En strjálbýlli svæði Evrópu hafa ekki komið vel út úr þessari tilskipun eins og dæmin sanna frá Noregi og líka frá Svíþjóð þó að hæstv. ráðherra segi að hlutirnir hafi gengið vel þar á bæ. Mjög mikil vandamál eru í Noregi sem byggja fyrst og fremst á því að menn sjá sér hag í því, eigendur raforkufyrirtækjanna, að framleiða eins og þeir geta, það er þá á vorin og sumrin, og senda frá sér raforku en huga minna að miðlun til vetrar vegna þess að með frjálsu flæði á orkunni geta þeir átt möguleika á því að kaupa orku t.d. frá Danmörku. Þannig er staðan að Danir keyra gríðarlega dísil- og kolaorku inn á raforkukerfi Norður-Evrópu og ekki síst í vetur þar sem var svona kalt.

Sérstaða Íslands, eins og ég nefndi áðan, er sú að við erum með eigið kerfi sem er ekki tengt neinum og þess vegna þurfum við að huga að þessum málum frá okkar grunni og hvernig við viljum koma þeim málum fyrir. Vinnsla, flutningur, dreifing og sala orkunnar á að byggja á því hvernig við viljum jafna og koma hlutum fyrir af öryggi og hagsýni.

Vandkvæðin á upptöku tilskipunarinnar hér eru gríðarleg. Við erum með Landsvirkjun, okkar stóra fyrirtæki sem er stofnað til þess að næra stóriðju með krafti sínum. Við erum með Rafmagnsveitur ríkisins sem þjóna að langmestu leyti dreifbýli landsins, getum við sagt, ásamt Orkubúi Vestfjarða sem núna er í eigu ríkisins. Við erum með Hitaveitu Suðurnesja og síðan örfáar aðrar veitur. Í þessu frv. er ekkert tekið á grundvallarmálum sem eru dreifing og jöfnun kostnaðar yfir landið. Það má í rauninni segja að í gegnum árin hafi Rafmagnsveitur ríkisins verið svikamylla gagnvart landsbyggðinni vegna þess að við stofnun Landsvirkjunar eru tekin frá Rafmagnsveitum ríkisins nánast öll framleiðslutæki. Rafmagnsveitur ríkisins hafa ekki nema um það bil 7% af eigin afli og eru þess vegna algjörlega háðar því að kaupa afl frá stóra fyrirtækinu Landsvirkjun. Orkubú Vestfjarða býr hins vegar miklu betur þar sem Mjólkárvirkjun er innan orkubússvæðisins og tilheyrir fyrirtækinu þannig að Orkubú Vestfjarða hefur verið með um 40% af eigin framleiðslu sem hefur leitt til þess að orkuverð á svæði þess er töluvert lægra en á Rarik-svæðunum.

Hvers vegna er Rarik svikamylla gagnvart landsbyggðinni? Það er ósköp einfalt. Uppsetningin er á þeim grunni að framleiðslutækin, þ.e. virkjanirnar, eru ekki látin fylgja með í þeim pakka þegar sú vegferð var farin að stofna Landsvirkjun til þess að næra stóriðju. Þess vegna er kerfi Rafmagnsveitna ríkisins algjörlega háð því að kaupa rafmagn af stút frá Landsvirkjun á gríðarlega háu verði að því er mörgum finnst.

Hver er svo afleiðingin? Fyrirtækið Rarik er með gríðarlega hátt orkuverð víðast hvar á landinu, miklu hærra en aðrir landsmenn búa við, ég tala ekki um þá landsmenn sem njóta þess að vera eigendur í Landsvirkjun í krafti þess að búa í Reykjavík, á höfuðborgarsvæði eða á Akureyri. Þar er mjög mikill munur á. En annað vandamál í sambandi við Rafmagnsveitur ríkisins er að þeim er gert að sinna hinum svokallaða félagslega þætti og það hefur margoft komið fram í umræðum að félagslegi þátturinn, að mati fyrirtækisins, er metinn að lágmarki á 500 millj. og sennilega 900 millj. sem þurfa að koma einhvers staðar frá. Það er hægt að gera á margan hátt, eins og ég nefndi í málflutningi mínum áðan. Við höfum fyrirmyndir frá öðrum löndum. Í fyrsta lagi er spurning um að gera það með beinum framlögum úr ríkissjóði sem að mínu mati er ekki góð leið. Í öðru lagi er hægt að gera það með framleiðslugjaldi sem aðrar þjóðir hafa gert til jöfnunar og er skoðunarvert að mínu mati og síðan hafa aðrar þjóðir farið út í það líka að rétta af í dreifbýlinu með því að lækka skatta þar sem orkuskattar eru miklir. Þetta eru allt saman færar leiðir.

Virðulegi forseti. 900 millj. eru auðvitað miklir peningar. En vegna þess að Rarik hefur ekki fengið framlög frá ríkinu eins og vera ber er það einfaldlega þannig að arðbærasti markaðurinn á orkuveitusvæði Rariks er skattlagður til þess að þjóna dreifbýlinu. Þannig horfa málin við. Þetta er gríðarlega alvarlegt mál fyrir allt dreifbýlið, sérstaklega atvinnu- og iðnaðaruppbyggingu og atvinnustarfsemi alla í dreifbýlinu.

Við skulum velta fyrir okkur einföldu dæmi sem við vorum með uppi á borðum nýverið. Þar er Rafveita Sauðárkróks seld Rarik eftir samninga bæjarstjórnar Sauðárkróks og ríkisstjórnar út af vanda sveitarfélagsins Skagafjörður. Þar er ljóslifandi dæmi um hvernig þessi samsetning er. Rafveita Sauðárkróks hafði áður keypt rafmagnið í heildsölu og selt síðan kúnnum og lítil og meðalstór fyrirtæki á Sauðárkróki gátu fengið þá, fyrir þessa breytingu, orku sem nam rétt rúmlega 2 kr. á kílóvattstund. Eftir að Rarik varð eignaraðili Rafveitu Sauðárkróks stóðu þessi sömu fyrirtæki frammi fyrir kostnaði upp á 6 kr. á kílóvattstund. Það er gríðarlegur munur fyrir fyrirtæki, bæði smá og stór, á svona stöðum. Við verðum að átta okkur á því að mörg iðnfyrirtæki úti á landi --- það er alveg sama í hvaða framleiðslu þau eru, við getum tekið rækjuvinnslur eða iðnað af ýmsu tagi --- þurfa þessa orku og þurfa að greiða gríðarlegar upphæðir til þess að sinna sínum málum.

[12:15]

Ég var vestur í Stykkishólmi um daginn og þar í skel- og rækjuvinnslu voru menn að kynda gufukatla því raforkuverðið á kílóvattstundina fór upp í 9 kr. Þetta eru hlutir sem þurfa að vera í lagi og við þurfum að hafa þessa heildarmynd hvað varðar þetta frv. og negla niður hvernig við ætlum að fara að því að dreifa orku inn á landið, inn á heimilin og iðnaðinn hvar sem hann er staðsettur í landinu. Það er meginatriði.

Þess vegna tek ég undir með hv. þm. Einari Oddi Kristjánssyni og hef raunar mörgum sinnum áður sagt það sjálfur að það er grundvallaratriði að það sé neglt hvernig staðið verður að dreifingu inn á hinn svokallaða félagslega þátt. Það er reyndar leiðinlegt orð, ég er sammála hv. þm. Einari Oddi Kristjánssyni um að við eigum ekki að tala í þeim dúr. En Rarik, fyrirtækið sjálft, hefur í sérstakri skýrslu fjallað um félagslega þáttinn og það eru þessar upphæðir sem ég var að nefna. Það er alveg ótækt að halda áfram þessari vinnu öðruvísi en að það sé neglt niður. Það er algjörlega óásættanlegt að frv. gangi í gegn án þess að sett sé inn í það hvernig menn ætla að standa að þessum málum. Þetta er svo gríðarlega stórt hagsmunamál hvað varðar alla byggð í landinu að ég efast um að menn átti sig á því. Ég held, virðulegi forseti, að í staðinn fyrir að elta þessar Evróputilskipanir með skottið á milli fótanna og éta þetta hrátt og setja þetta í frv. ættum við að skoða stöðu okkar út frá okkar þörfum, frekar það en að fylgja eftir formúlu sem búið er að kokka upp af Evrópusambandinu sem eflaust nýtist Mið-Evrópu ágætlega í krafti þess að þeir voru með mikla umframorku í kerfinu. Um Ísland gilda hins vegar allt önnur lögmál.

Ef menn ganga nú inn á þessa hugsun mína um að það eigi að rétta hag landsbyggðarinnar sem er á orkuveitusvæði Rariks erum við í raun og veru að tala um miklu stærra heildardæmi en bara það sem fyrirtækið Rarik setur fram sem hinn félagslega þátt, 500--900 millj. eftir því hvernig menn horfa á það. Ef við erum að tala um jöfnun yfir landið allt, hvaða formúlu sem menn nota, erum við sennilega að tala um milljarða. Þá er það orðinn breyttur grunnur til allra samninga um raforkusölu og veitti ekki af að menn væru búnir að hugsa þá hugsun hvernig ætti að hafa hlutina áður en stærsti raforkusamningur Íslandssögunnar verður gerður. Auðvitað skiptir raforkuframleiðslufyrirtækin mjög miklu máli hvernig við ætlum að standa að þessu máli. Það skiptir máli ef við ætlum að fara inn á félagslega þáttinn og framkalla jöfnun og það skiptir líka máli ef við ætlum að taka orkuveitusvæði Rariks, lækka verð þar og jafna út. Það hlýtur að gera það.

Virðulegi forseti. Ég er fulltrúi Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs í iðnn. og þar munum við fara yfir þessi mál. Ég heyri á máli manna á hv. Alþingi að það er alls engin samstaða innan stjórnarflokkanna um málin og vitna ég þar í ræðu hv. þm. Einars Odds Kristjánssonar sem að mörgu leyti er algjörlega sammála þeim áherslum sem ég hef lagt hér. Í dreifbýli, á grunni tilskipunar Evrópusambandsins, hafa menn staðið frammi fyrir hækkandi orkuverði. Norðmenn kveinka sér gríðarlega undan hækkandi orkuverði og það hefur komið fram í greinum og skrifum að orkufyrirtækin, í krafti þess hvernig þau starfa núna í nýju umhverfi, háfi til sín gróða. Það getur náttúrlega aldrei leitt til annars en hækkaðs orkuverðs.

Það berast fréttir af því frá Svíþjóð, sem er með mikið dreifbýli líka, að þar hafi dreifbýlisveitur í nýju umhverfi hækkað verðið hjá sér gríðarlega. Það sem kom mönnum á óvart var að þéttbýlisveitur gerðu það líka þannig að menn standa þar enn fremur frammi fyrir hækkandi orkuverði. Þetta nýja umhverfi virðist gagnast langmest og best miðhluta Evrópu enda er hugmyndin sjálfsagt að langmestu leyti komin þaðan, fyrir það svæði, enda var þar 20% umframgeta í orkugeiranum.

Ég er sammála því sem fram hefur komið hjá þeim hv. þm. sem hér hafa talað að sú vegferð sem við erum á hlýtur að leiða til hækkaðs orkuverðs. Því meira eftirlit og því meiri umsýsla, því hærra verð, og við höfum reynsluna af því. Við erum hér á hinu háa Alþingi dag eftir dag að vinna að ýmsum eftirlitsmálum, ekki síst í sjávarútvegi, sem hafa kallað á tugi starfa og þar af leiðandi afleiddan gríðarlegan kostnað. Þetta kerfi sem við ætlum að innleiða án þess að taka á öllum þáttum málsins --- sérstaklega á þeim þáttum sem eru brýnastir, þ.e. verðlagningu til allra neytenda í landinu, rétti þeirra gagnvart þessu kerfi, hvernig við ætlum að standa að því, ég tala nú ekki um að víða um land eru línur mjög illa farnar og þar liggja fyrir milljarðafjárfestingar sem þyrfti að fara í sem allra fyrst, gefa mönnum kost á því t.d. víðar að hafa þriggja fasa rafmagn o.s.frv. --- er meingallað. Þetta eru mál sem við þurfum að leggja niður fyrir okkur í nýju ljósi.

Virðulegi forseti. Ég hlakka til að fara í þá vinnu að fjalla um frv. í iðnn. Eins og ég segi er ég þar fulltrúi fyrir Vinstri hreyfinguna -- grænt framboð, og það verður grundvallaratriði hjá mér og okkur að þessi svokallaði félagslegi þáttur verði ekki settur í nefnd. Það verði tryggt í þeim lögum sem e.t.v. verða samþykkt, nýju frv. til orkulaga, að það verði tekið inn í og gengið frá því hvernig menn ætla að framkalla þá jöfnun. Ég nefndi fyrr í ræðu minni þær þrjár formúlur sem aðrir nota. Bein framlög ríkisins hafa ekki dugað vel. Við höfum í sjálfu sér að sumu leyti verið með bein framlög ríkisins til Rariks, a.m.k. annað veifið, en aldrei í þeim mæli sem þurft hefur. Ég nefndi líka að skattlagningarleiðin er fær, hún hefur t.d. verið farin í Noregi og líka í Skotlandi, norðurhlutanum að hluta, en síðan er jöfnunin sem e.t.v. er bara best að setja í lög, að menn búi við sama raforkuverð alls staðar og það sé tekið út á notkuninni eða þá í framleiðslugjaldi á þau fyrirtæki sem framleiða orkuna.

Ef við ætlum okkur t.d. að fara í framleiðslugjald á orkuvinnslufyrirtækin er þar hlutur sem menn verða að fá að vita um sem allra fyrst. Það breytir augljóslega samningsstöðu manna, t.d. hjá Landsvirkjun, vegna orkusölu til stóriðju ef ofan á framleiðsluna hjá fyrirtækinu kemur gjaldtaka til þess að stuðla að þeirri jöfnun sem mörg okkar eru sammála um að eigi að eiga sér stað.