Raforkulög

Fimmtudaginn 30. janúar 2003, kl. 12:26:06 (3233)

2003-01-30 12:26:06# 128. lþ. 69.1 fundur 462. mál: #A raforkulög# (heildarlög, EES-reglur) frv., ÁSJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 69. fundur, 128. lþ.

[12:26]

Árni Steinar Jóhannsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Hæstv. iðnrh. segir að ég skilji ekki málið og tali um mína leið varðandi jöfnunina. Ég talaði ekki um mína leið, ég talaði um þær leiðir sem aðrir hefðu farið því að við þurfum ekkert að finna upp hjólið í þessum málum. Ég nefndi þrjár leiðir.

Ef hæstv. ráðherra er komin inn á framleiðslugjald, af hverju þurfa málin þá að vera í nefnd? Af hverju fara þau mál bara ekki hreinlega inn í frv.? Það er það sem málið snýst um. Fleiri hv. þm. hafa talað um nauðsynina á því að það sé á hreinu hvaða formúlu menn ætli að nota, og ef hæstv. ríkisstjórn er nú komin með þá formúlu að hún vilji framleiðslugjald, af hverju er það þá ekki sett inn og afgreitt með í staðinn fyrir að vera með það í nefnd og halda áfram vinnunni við það? Það kann ekki góðri lukku að stýra. Ef hæstv. ríkisstjórn er svona sammála um meginlínurnar í þessu getur ekki þurft að vera með málið lengi í nefnd í framhaldi af því. Það er þá augljóslega tiltölulega einfalt að ganga frá þeim málum samhliða því eða setja það inn í frv. við afgreiðslu þess máls.