Raforkulög

Fimmtudaginn 30. janúar 2003, kl. 12:28:37 (3235)

2003-01-30 12:28:37# 128. lþ. 69.1 fundur 462. mál: #A raforkulög# (heildarlög, EES-reglur) frv., ÁSJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 69. fundur, 128. lþ.

[12:28]

Árni Steinar Jóhannsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Hvað varðar þessa síðustu framsetningu hæstv. iðnrh. hef ég talað fyrir því mörgum sinnum að það væri nauðsynlegt fyrir fyrirtækið Rarik að framleiða meiri orku á eigin vegum, styð það að fyrirtækinu verði gert kleift að gera það og er tilbúinn að skoða það hvenær sem er ef það gæti orðið til þess að laga stöðuna.

En ég fagna því ef hæstv. ráðherra gefur grænt ljós á að iðnn. sé heimilt að setja inn í lög þennan jöfnunarþátt. Ég sé að hv. þm. Svanfríður Jónasdóttir nikkar við því enda talaði hún um það í ræðu sinni að það væri grundvallarmál í hennar huga. Ég lít svo á að hæstv. iðnrh. sé að gefa tóninn um að nefndinni sé heimilt að negla niður á einhvern hátt hvernig staðið verður að því enda er það grundvallaratriði.