Raforkulög

Fimmtudaginn 30. janúar 2003, kl. 12:29:46 (3236)

2003-01-30 12:29:46# 128. lþ. 69.1 fundur 462. mál: #A raforkulög# (heildarlög, EES-reglur) frv., ÁRÁ
[prenta uppsett í dálka] 69. fundur, 128. lþ.

[12:29]

Árni R. Árnason:

Herra forseti. Málið sem við ræðum hér hefur áður komið til umræðu og raunar verið mjög lengi á döfinni. Undirbúningur ráðuneytis og annarra aðila er orðinn alllangur og fyrir því eru ljósar ástæður sem menn gerðu sér kannski ekki alveg grein fyrir í byrjun.

[12:30]

Fyrir okkur Íslendinga er ánægjulegt að minnast þess að fyrir þó nokkrum árum sátu tveir miklir heimsmenn á fundi í Höfða, forsetar Bandaríkjanna og Sovétríkjanna. Þeir gerðu með sér áskilnað sem sumum þótti þá ekki mjög merkilegur en raunin var sú að þar var á ferðinni samningur á milli tveggja stórvelda sem hafði áhrif um allan heim og varð m.a. grundvöllur að því að Sovétríkin, og síðar Rússland, fengu fullar heimildir til að flytja gas til Vesturlanda þar sem raforka framleidd með gasi og raunar fleiri jarðefnaeldsneytum var keppinautur raforku framleiddrar af öðrum orkugjöfum.

Það er að vísu einkenni í okkar raforkustarfsemi að við framleiðum ekki raforku með jarðefnaeldsneyti nema í undantekningartilvikum, þ.e. þegar mesta notkun verður á nokkrum stöðum á landinu og þar sem nokkrir aðilar hafa valið þann kost að nota jarðefnaeldsneyti vegna þess að það er ódýrara, aðilar sem eiga í beinni, ef svo má segja, samtímasamkeppni við erlenda keppinauta sem búa að slíkri raforku. Staðreyndin er sú að þær aðferðir sem við nýtum með endurnýjanlegum og hreinum orkugjöfum eru þannig að virkjun þeirra er umtalsvert dýrari. Svo miklu munar að það er algjört skilyrði fyrir umtalsverða raforkustarfsemi að gera fyrirframsamninga um orkusölu til langs tíma. Öðruvísi verður sú starfsemi ekki verulega hagkvæm eða samkeppnisfær.

Ég tel rétt að geta þess strax að ég er fylgjandi því að koma á samkeppni í raforkustarfsemi. Ég tel það eiga vel við í flestum greinum, öllum greinum þar sem um er að ræða marga vinnustaði sem veita þjónustu, selja vöru eða framleiða. Þó verður að geta þess að ég hygg að viðfangsefnin í þessu málefni séu öðruvísi en í flestum öðrum atvinnuvegum vegna þess að í raforkustarfsemi okkar hefur öll skipan greinarinnar og fyrirtækjanna sem hafa starfað í henni til áratuga verið lóðrétt, hvert fyrirtæki aflar sér orku ýmist með eigin vinnslu eða innkaupum, flytur hana til sín, flytur hana jafnvel milli dreifingarkerfa, dreifir henni og selur. Skipulag allra þessara fyrirtækja er náttúrlega saman hnýtt í áratugastarfi. Það verður því mjög erfitt að breyta þeim öllum í það sem við gætum kallað lárétta skipan greinarinnar. Það er ástæðan fyrir því að við eigum erfitt með að höndla t.d. verðjöfnun á flutningskostnaði raforku sem hér hefur verið mikið umtalsefni. Þess ber strax að geta að henni verður hvergi við komið án þess að þeir beri kostnaðinn sem starfa eða búa á orkuveitusvæðum sem eru þéttari og hagkvæmari eða eru búsettir nær virkjunum. Ég ætla síðar að nefna tvö mjög sterk dæmi um þetta.

Varðandi undirbúning þessa máls verð ég að geta þess sem ég hef raunar bent á fyrr þegar við höfum rætt mál af þessum toga. Mér hefur þótt að framan af hafi velflestum orkufyrirtækjum landsmanna verið haldið of lengi fyrir utan nánasta undirbúning málsins. Hvort sem það er rétt ályktun eða ekki er alveg ljóst að lengi vel gætti vantrausts hjá smærri orkufyrirtækjunum út í þennan undirbúning. Þau þóttust fjær standa og að þeirra athugasemdir væru ekki sóttar og ekki eftir þeim leitað fyrr en á síðustu stigum. Ég hygg að hugsanlegt sé að þessa vantrausts gæti enn. Kannski er það ein af ástæðum þess að farin er sú leið sem kemur fram í frv., að fresta í raun gildistöku tiltekinna þátta þess meðan enn verður sett af stað frekari undirbúningsvinna.

Það hefur komið fram í þeirri umræðu sem orkufyrirtækin hafa fitjað upp á, sem er réttmætt, að það er álitaefni, í þessari grein eins og í fleirum, að sami ráðherra fari með eignarhlut ríkisins í fyrirtækjum sem ríkið er annaðhvort eitt eigandi að eða á ásamt öðrum, þurfi síðan að sitja yfir málum allra annarra fyrirtækja í greininni og skera úr um atriði sem eiga að gagnast þeim öllum jafn vel. Það verður að segjast eins og er að það hefur komið fram í þessari grein, rétt eins og í fjarskiptastarfsemi, sem er nýlega orðin samkeppnisvædd að önnur smærri fyrirtæki hafa á stundum spurt, og stundum nokkuð alvarlega, hvort hagsmunir þeirra hafi virkilega verið hafðir í huga í umræðunni sem leiddi til niðurstöðu eða ákvörðunar.

Í þessu sambandi ber að geta þess að sérstaklega er spurt hvort tvö tiltekin fyrirtæki sem ríkið á mestan hlut í hafi átt að standa nær þessu máli en öll önnur. Þar hefur beinlínis verið spurt um stöðu Landsvirkjunar og Rariks. En það hefur líka komið fram þegar fyrirtækin hafa sjálf rætt málin sín á milli að þau tvö fyrirtæki telja í báðum tilvikum að þeirra staða við umræðuna og undirbúning hafi alls ekki verið sú sama. Í raun og veru telja öll fyrirtækin að hagur þeirra og aðstaða séu sérkenni þeirra. Þau telja sig öll hafa sérkenni. Auðvitað er það sérkenni á öllum raforkufyrirtækjum okkar í dag, annarra en Landsvirkjunar, að þau dreifa og selja orku beint til notenda sem hafa ekkert annað að leita. Þessar dreifiveitur og notendur þeirra hljóta að spyrja: Hver tryggir mér að endingu framboð á raforku? Þau sjá það ekki gert skýrt í þessu frv. Hver tryggir framboð á raforku?

Ég held að óhætt sé að nefna af hálfu okkar sem höfum nú komið að þessu máli nokkrum sinnum að það er með engum hætti gert ráð fyrir því með þessum frv., þessu og þeim sem fylgja, að tekin verði upp samkeppni um flutning og dreifingu á raforku. Það er misskilningur ef einhver heldur því fram. Hins vegar hafa mörg orkufyrirtæki bent á að eins og staðan er í dag er hætta á afar miklu valdi. Sum þeirra hafa nánast talað um ofurvald eins af núverandi raforkufyrirtækjum í þeim hugmyndum um fyrirkomulag flutningskerfis og meginflutningskerfis sem uppi eru. Það getur verið önnur ástæða þess að það fyrirkomulag á að ræða frekar í framhaldinu í nefnd sem ráðherra hyggst skipa.

Ég hef talið skynsamlegt að stefna að því að gera ekki greinarmun á því sem kallað er í frv. meginflutningskerfi og að öðru leyti flutningskerfi. Ég hefði álitið að hægt væri að skilgreina eitt heilt flutningskerfi þó að eigendur einstakra hluta þess séu ólíkir. Ég hef m.a. talið litlu skipta hvort um það verði stofnað sérstakt hlutafélag eða ekki. Raunar hef ég talið að hlutafélag væri þjálasta fyrirkomulagið á slíku fyrirtæki og þannig auðveldast fyrir eigendur einstakra hluta flutningskerfisins eins og það er í dag að hefja náið samstarf. Hins vegar er alveg ljóst að með samkeppni og meiri flutningum milli virkjana, dreifikerfa og notenda en er í dag, flóknari flutningum, verður að samhæfa þetta kerfi mjög vel.

Ég kem þá að því atriði sem kann að vera undirstaðan að umræðu um jöfnun á flutningskostnaði. Það liggur fyrir að á strjálbýlum svæðum landsins eru fjárfestingar í flutningskerfum og dreifikerfum alls ekki allar hagkvæmar, og sennilega yfirleitt ekki arðbærar. Í frv. er staðfastlega gert ráð fyrir því að fyrirtækin, þar á meðal flutningsfyrirtæki, hafi arð af öllu eigin fé, þ.e. af öllum sínum fjárfestingum. Þetta mun að mínu viti leiða til þess að flutningskostnaður mun hækka. Honum er í dag haldið niðri með því að heimta ekki arð af öllum þessum fjárfestingum. Það munu koma fram verðhækkanir og þær verða mestar þar sem hagkvæmnin er mest í dag. Ég get ekki skilið það öðruvísi.

Ég verð að viðurkenna að mér sýnist að þetta geti leitt til þess að hækkanir af þessum ástæðum geti orðið meiri en sem nemur aukinni hagkvæmni í starfsemi virkjana eða vinnslustöðva og seljenda á skömmum tíma. Ég álykta þetta vegna þess hversu stórir hlutar af heildarkerfinu í flutningi og dreifingu eru óarðbærir í dag, ýmist niðurgreiddir eða látnir safna skammtíma- eða langtímaskuldum. Að sjálfsögðu er það ástæða þess hvernig ráðherra svaraði andsvari eins hv. þm. hér áðan, að ástæða væri til að veita aukið fé til þessa þáttar.

Í dag er það þannig í raforkuvinnslu að einn aðili er með u.þ.b. 90% af allri framleiddri raforku í landinu. (Gripið fram í.) Sá aðili selur langmestan hluta framleiðslu sinnar utan innanlandsmarkaðar. Við vitum það fyrir að sú sala verður aldrei hluti af virkum innanlandsmarkaði í raforku. Þar er að vísu samkeppni, langtímasamkeppni, við aðra raforkumarkaði. En við höfum engar tengingar við þá í dag þannig að sú virkni kemur ekki til í fyrirsjáanlegri framtíð.

Um samkeppni í sölu verður að segjast eins og er, að flestir seljendur raforku í dag framleiða enga en kaupa í heildsölu ýmist af Landsvirkjun eða Rarik. Þeir hafa ákveðna skyldu, þjónustuskyldu, til að bjóða öllum notendum og fyrirtækjum á veitusvæði sínu raforku. Sum fyrirtæki sem framleiða raforku í dag eru bundin af langtímasamningum um að, eigum við að segja, eiga orkuskipti við Landsvirkjun. Þau selja Landsvirkjun orku sem hún endurselur til stóriðju, kaupa af Landsvirkjun orku í svipuðum mæli, meira eða minna. En þau kaup eru við hærra verði en fyrirtækin selja við til Landsvirkjunar.

Þetta er merkilegt fyrirbrigði og ég veit að þau fyrirtæki sem eiga í þessum samningum við Landsvirkjun hafa talið sig tilneydd. Látum það vera meðan við ræðum þetta mál. Það getur skipt okkur miklu máli um framhald og framvindu þessa máls að sem flest orkuvinnslufyrirtæki selji bæði til stóriðju og á innanlandsmarkaði þannig að þau hafi sem flest sambærileg einkenni í starfsemi sinni. Þá hygg ég að það verði eðlilegra og skiljanlegra að eiga í samkeppni en samt sem áður geri ég ekki ráð fyrir að samkeppni um stóriðjuviðskipti muni nokkuð snerta samkeppni á innanlandsmarkaði.

Staðreyndin er sú að samningar Landsvirkjunar við stóriðjufyrirtæki í langtímasamkeppni við aðra raforkumarkaði eru allir til mjög langs tíma, til nokkurra áratuga. Þetta segir mér að sá markaður sem við ætlum að skapa, innanlandsmarkaður, verður mjög lítill. Samkeppnin verður á litlum markaði sem gefur ekki mikinn sveigjanleika. Þá verður líka að nefna að sú reynsla hefur þegar fengist á Norðurlöndunum, okkar næstu grannlöndum, að við aðilaskipti, þ.e. ef kaupendur vilja skipta við annan orkusala, reynast uppgjörin afar flókin og skiptin taka meira en heilt ár. Mér þykir það afar langur tími.

Þá ætla ég að nefna nokkur atriði sem ég tel rétt að skoða betur, ef ekki strax í hv. iðnn., þá síðar. Í frv. er gert ráð fyrir eftirlitsþætti Orkustofnunar sem fram að þessu hefur ekki farið með beint eftirlit með starfsemi raforkufyrirtækja eða annarra orkufyrirtækja. Hún hefur meira unnið að rannsóknum og þá eftirliti með orkuauðlindum okkar, bæði jarðhita og vatnsföllum. Hún á að taka upp eftirlit með gæðum og afhendingaröryggi en mér sýnist slíkt eftirlit fyrir hendi í dag með vissum hætti. Samkvæmt öðrum lögum ber Löggildingarstofu og skoðunarstofu sem hún hefur eftirlit með að hafa eftirlit með öryggisþáttum allra raforkukerfa, þar á meðal virkjana. Ég hef því álitið að eftirlit með þeirri starfsemi, varðandi öryggi þeirra sem leiðir til öryggis í afhendingu raforku, geti hugsanlega verið nægjanlegt. Ég tel rétt að skoða þetta sérstaklega, hvort þörf er á að bæta við fleiri húfum á þeirri leið.

Mér virðist sem sérkennilegar reglur eigi að gilda um dreifingu flutningskostnaðar. Ég ætla þess vegna að nefna það sérstaklega undir lok máls míns. Það er hægt að lesa út úr þeim reglum sem fram eru komnar, t.d. að flutningur raforku frá Nesjavöllum til höfuðborgarinnar, eftir jöfnun flutningskostnaðar, verði eitthvað meiri en flutningur á raforku frá Nesjavöllum gegnum höfuðborgarsvæðið til annarra landshluta, vel að merkja nema til Suðurnesja. Mér skilst að þangað eigi flutningskostnaðurinn að vera mestur, enda er það svo að samkvæmt þessu verður flutningur á raforku frá Svartsengi til Grindavíkur, sem mér vitanlega er stysta leið milli virkjunar og þéttbýlis hér á landi, að kosta meira en framleiðslukostnaðurinn í Svartsengi. Ég tel þessi tvö dæmi gefi okkur ástæðu til að þessir þættir verði skoðaðir nánar.

[12:45]

Mér skilst að þetta eigi að vera merki til fjárfesta um það hvar verði hagkvæmast að virkja. En, drottinn minn, verður samkvæmt þessu hagkvæmast að virkja á Norðausturlandi? Eigum við að skoða það? Mér er sagt, herra forseti, að við eigum væntanlegar í loftið tillögur eins hv. þm. ásamt öðrum mönnum um aðra kosti en að byggja Norðlingaölduveitu. Það sé að virkja meira en nú er gert í Kröflu og flytja framleiðsluna til suðvesturhornsins eða til Grundartanga. Á því svæði eru flutningslínur fulllestaðar. Flutningskerfið í landinu er of dýrt samkvæmt því sem ég nefndi fyrr. Til þess að auka flutningsgetuna frá norðausturhorninu til Grundartanga þarf að byggja nýjar línur. Það mun ekki kosta minna en eitthvað vel á annan tug milljarða, ef ég skil rétt. Það mun alla vega verða viðbótarkostnaður sem hefur engin áhrif til þess að auka hagkvæmni flutningskerfisins. Ég verð því að viðurkenna að ef þær fréttir sem mér eru sagðar um þetta eru réttar, þá eykur það á vandann sem núna er í flutningskerfinu. Það verður ekki hagkvæm vinnsla og afhending miðað við heildarkostnað við að vinna og flytja.

Ég vek sérstaklega athygli á því, herra forseti, að ég tel nauðsynlegt að við gerum það skýrt í þessu máli fyrir dreifiveitum sem telja sig hafa ákveðnar skyldu við íbúa og fyrirtæki á sínu veitusvæði og fyrir kaupendur raforku, hver muni tryggja þeim raforkuframboð í framtíðinni, ekki aðeins fyrir landið í heild, heldur á hverju svæði.

Ég tel skynsamlegt að stefna að því að flutningskerfið verði eitt samfellt kerfi, en ekki tvö aðskilin. Og ég tel rétt í því ljósi, ef ástæða er til, að endurskoða eða fylla út í það sem fram kemur í bráðabirgðaákvæðum VII og VIII í frv., til að þessi atriði öll verði undir í þeirri athugun sem þá á að fara fram, jafnvel líka þau ákvæði sem eru um heimildir flutningsfyrirtækis umfram alla aðra í framtíðinni til að reisa flutningsvirki.

Ég er nokkuð viss um að fram muni koma þarfir annarra aðila til að byggja afmarkaðar flutningslínur, til að mynda ef reist verða hér eins og hugmyndir eru um í framtíðinni, t.d. á Suðurnesjum, smærri iðjuver sem við mundum kannski kalla stór en allar erlendar þjóðir kalla smá, er mundu hugsanlega vera beint tengd við orkuframleiðslu, annaðhvort á Reykjanesskaga eða í nágrenni hans.

Ég tel að ákvæði um að einungis flutningsfyrirtæki á landinu megi reisa flutningsvirki geti verið tálmun í vegi slíkra hugmynda. Við eigum að forðast allar tálmanir. Ætlunin er með þessu að skapa frelsi, því það verður engin samkeppni nema þar sem frelsi ríkir. Það eru raunar tvær meginástæður sem eru forsendur samkeppni, þ.e. einkaréttur bæði á eignum og réttindum, klár einkaréttur, og frelsið. Þessu tvennu verðum við að ná fram.