Raforkulög

Fimmtudaginn 30. janúar 2003, kl. 12:55:10 (3240)

2003-01-30 12:55:10# 128. lþ. 69.1 fundur 462. mál: #A raforkulög# (heildarlög, EES-reglur) frv., ÁRÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 69. fundur, 128. lþ.

[12:55]

Árni R. Árnason (andsvar):

Herra forseti. Ég held að það sé rétt að segja það alveg beint út að við erum ekki að borga neitt óbeint vegna kostnaðar annars staðar, við borgum það beint. En frv. gerir ráð fyrir því að við borgum meira, að við borgum líka arðsemi af þessum óarðsömu fjárfestingum.

Það er annar vandinn í vegi þess að t.d. Suðurnesjamenn eins og raunar fleiri landsmenn njóti þess að vera í nálægð við orkuauðlindir. Hinn vandinn er sá að alla tíð hefur Hitaveita Suðurnesja ekki fengið heimild til þess að virkja og framleiða raforku fyrir sitt svæði, alla tíð. Það er niðurstaðan úr hinu pólitíska kerfi.

Meginbreytingin sem verður með þessu frv. þegar það verður að lögum er sú að öll orkufyrirtæki sem fullnægja almennum skilyrðum, fullnægja almennum skilyrðum sem þau vita fyrir hver eru, mega hefja framleiðslu og bjóða fram sína orku. Það er meginmunurinn frá því kerfi sem við höfum í dag. Það mun hins vegar væntanlega leiða til þess, herra forseti, að menn sem segja í dag að raforkukerfi okkar sé afskaplega hagkvæmt, geti bent á að það verði ekki svo. Hugsanlega verður á einhverjum tímum offramboð á raforku. En við þekkjum í dag og höfum þekkt lengi að ef við hefðum haft mjög harðan vetur, þá væri hér skortur á raforku og við værum að framleiða hana einhvers staðar á landinu með varaaflsstöðvum með olíu, með jarðefnaeldsneyti. Og það hefur raunar verið gert hér mjög lengi þegar slíkar aðstæður koma upp. Við ætluðum okkur alltaf að hætta því, ekki vegna kostnaðar, heldur vegna umhverfisáhrifa. Ég held að við náum því betur með þessu sem hér er verið að undirbyggja heldur en kerfinu eins og það er í dag. Það er mitt álit.

Ég held að meginkeppikeflið í þessu málefni sé að fyrirtæki sem fullnægja almennum skilyrðum hafi frelsi til þess að hefja sjálf undirbúning og framkvæmd viðskiptahugmynda sinna. En til þess þurfa líka réttindi að vera klár, réttindi orkufyrirtækja í dag eru ekki klár. Það er gallinn varðandi það sem ég sagði um einkarétt.