Raforkulög

Fimmtudaginn 30. janúar 2003, kl. 13:30:13 (3241)

2003-01-30 13:30:13# 128. lþ. 69.1 fundur 462. mál: #A raforkulög# (heildarlög, EES-reglur) frv., ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 69. fundur, 128. lþ.

[13:30]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Hér er til umfjöllunar frv. til raforkulaga, frv. sem hefur lengi verið í smíðum, var kynnt eina morgunstund hér í þinginu sl. vor. Það var mjög árla morguns, ég held að klukkan hafi verið sex, þegar hæstv. iðn.- og viðskrh. talaði fyrir frv. Síðan dagaði það uppi eins og von var, þingi var að ljúka. Nú hefur það verið lagt fram að nýju en að uppistöðu til byggir það á kerfisbreytingum sem Evrópusambandið er að innleiða á evrópskum raforkumarkaði. Grundvallarforsendurnar eru þær að framvegis skuli aðskilja raforkuframleiðsluna á þann veg að hún sé aðskilin dreifingu, dreifingin síðan aðskilin sölunni á raforkunni. Það sem vakir fyrir mönnum er að koma á fót sameiginlegum raforkumarkaði. Við komum ekki til með að eiga aðild að honum eða hafa tengsl við hann, a.m.k. ekki í allra næstu framtíð hvað sem síðar verður. Auðvitað er sá kostur fyrir hendi að flytja rafmagn um streng til útlanda en einmitt í ljósi þess að við erum ekki komin inn í þá framtíð --- sú framtíðarsýn er ekki orðin að veruleika og verður það hugsanlega aldrei, hver veit? --- hefði mér þótt æskilegast að íslenska ríkisstjórnin hefði sótt um undanþágu frá þessari tilskipun þannig að við yrðum ekki knúin til breytinga einvörðungu á grundvelli þessa nýja fyrirkomulags í Evrópusambandinu.

Ég hef áður gagnrýnt þá ótrúlegu miðstýringaráráttu sem er stunduð á þeim bænum og er frábrugðin því fyrirkomulagi sem við þekkjum t.d. frá Bandaríkjunum þar sem einstök ríki ráða því sjálf, og borgir þess vegna, á hvern hátt fyrirkomulagi raforkumála er háttað. Þannig gildir eitt um Kaliforníu og annað um New York, og innan Kaliforníu geta verið mismunandi skipulagsform eins og dæmin sanna úr nýliðinni sögu þegar Los Angeles borg slapp frá Enron-skandalnum, einfaldlega vegna þess að raforkukerfið í Los Angeles var á snærum þeirrar borgar, undir almannastjórn og í almannaeigu.

Enda þótt Evrópusambandið gefi okkur ekki tilskipanir um eignarhaldið á raforkuframleiðslunni, dreifingunni eða sölunni, er engu að síður á miðstýrðan hátt verið að leggja okkur línurnar hvað þetta snertir, um aðskilnað einstakra þátta raforkugeirans: framleiðslu, dreifingu og sölu.

Þessi hugsjón kom reyndar ekki í frumvarpsformi fyrst inn í þingið heldur sem hluti af tilskipanasafni. Eitt vorið samþykkti þingið þetta eins og vill henda með ýmis önnur frv., nánast með bundið fyrir augun. Það voru einvörðungu þingmenn Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs sem höfðu fyrirvara, og meira en fyrirvara, þeir andmæltu því óðagoti að samþykkja viljayfirlýsingu til grundvallarbreytinga á raforkukerfinu án þess að um það hefði farið fram nokkur umræða að gagni og nánast engin hér í þingsölum. Þannig kom sú viljayfirlýsing snemma af hálfu Alþingis um að við ætluðum að feta okkur inn á þessa braut. Það er ekki fyrr en núna, á allra síðustu vikum og mánuðum, sem aðrir aðilar en þingmenn Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs hafa hreyft andmælum. Nú síðast í haust lýsti hv. þm. Björn Bjarnason, þingmaður Sjálfstfl., því yfir að hann hefði talið, og teldi, æskilegt að leitað yrði undanþágna.

Grunnhugmyndin í þessu frv., eins og ég skil málið án þess að hafa farið mjög ítarlega í það, er að nú skuli stefnt að því að markaðsvæða rafmagnsframleiðsluna og söluna. Hins vegar skal ákvörðunum um endanlegt fyrirkomulag skotið á frest og málið sett í nefnd. Í þeirri nefnd munu eiga sæti fulltrúar allra þingflokka sem sæti eiga á Alþingi og er það vel. Mér finnst rétt og gott að stuðlað sé að þverpólitískri aðkomu að málinu. En í nefndinni skulu jafnframt eiga sæti fimm fulltrúar frá Samorku, tveir frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, einn frá Alþýðusambandi Íslands, Samtökum atvinnulífsins og Neytendasamtökunum. Ég sakna sárlega einna samtaka þarna, heildarsamtaka fjölda starfsmanna á þessu sviði, sem starfa í þessum geira, og þar vísa ég til BSRB. Innan BSRB er að finna fjölmarga og stóra hópa starfsmanna í orkugeiranum sem starfa hjá rafveitunum og víðs vegar í orkugeiranum. Ætli það sé ekki fjölmennasti hópurinn innan þeirra samtaka. Ég ætla því að leyfa mér að koma á framfæri þeirri ábendingu að það væri æskilegt og eðlilegt að þau samtök ættu aðkomu að þessari nefnd.

Það er að sjálfsögðu vel í lagt frá Samorku. Þaðan eiga að koma fimm fulltrúar, og ég er ekki að andmæla því nema síður sé að margir komi úr þeim geira að þessu máli, alls ekki. En fyrst minnst er á Samorku langar mig til að geta um frétt ríkissjónvarpsins um helgina þar sem fram komu mjög ákveðnar staðhæfingar um þróun raforkuverðs á Norðurlöndum. Það var tengt við markaðsvæðingu í raforkugeiranum. Eftir því sem ég kemst næst eru þær staðhæfingar rangar. Þær eru ósannar. Ég er að vonast til þess að ríkissjónvarpið sem flutti þessa frétt í góðri trú, vegna þess að hún er byggð á samantekt frá Samorku, komi á framfæri leiðréttingum sem ég tel einboðnar. Ella þarf ég að sannfærast um að ég hafi rangt fyrir mér í því efni. Í fréttum ríkissjónvarpsins sl. sunnudag var vitnað í þessa samantekt frá Samorku þar sem því var haldið fram að rafmagnsverð í Svíþjóð og Noregi hafi ekki hækkað sem neinu nemur við markaðsvæðingu kerfisins. Hins vegar hefði skattlagning aukist verulega og það skýrði fyrst og fremst verðbreytingar.

Þetta kemur ekki heim og saman við yfirlýsingar norsku neytendasamtakanna í haust. Talsmaður þeirra sagði þá að hin markaðsvæddu fyrirtæki hefðu samráð sín í milli um að keyra verðlagið upp og háfuðu þegar þar var komið sögu inn milljarða í gróða á kostnað notenda.

Varðandi þetta og varðandi þróun orkuverðsins er t.d. fróðlegt að líta á umfjöllun í norska dagblaðinu frá 22. september sl. en þar var sýnt fram á að markaðsvæðing hefði sprengt upp raforkuverðið í Noregi. Í blaðagreinunum sem þá birtust í Dagbladet var vitnað í talsmann norska neytendaráðsins, Per Anders Stahlheim. Hann segir í blaðinu að norsk raforkufyrirtæki raki saman milljörðum, hagnaðurinn í rafmagnsgeiranum sé ævintýralegur. Árið 2000 hafi hagnaður norskra rafveitna verið um 11,6 milljarðar norskra kr. og rafveiturnar hafi greitt 3,7 milljarða norskra í arð til eigenda sinna. ,,Þetta er orðinn markaður þar sem menn háfa inn peninga,`` segir Stahlheim. Hér er ég að vitna í þessa blaðagrein í Dagbladet frá þessum tíma.

Ég bendi þeim sem áhuga hafa á að það er hægt að nálgast nánari upplýsingar um þetta á upplýsingavef BSRB, bsrb.is mun það vera. Sérstökum áhugamönnum um efnið get ég bent á heimasíðu mína líka, ogmundur.is, en þar er fjallað ítarlega um þetta efni.

Það eru komnar út fleiri skýrslur, m.a. frá hreyfingu innan úr hreyfingu launafólks og núna alveg á síðustu dögum birtist skýrsla frá Bertil Dahlsten sem starfar fyrir SEKO, samtök launafólks í þjónustu og samgöngum. Þessa skýrslu sendi hann til EPSU, en það eru Evrópusamtök launafólks í almannaþjónustu, sá hluti þeirra samtaka sem starfar innan Evrópusambandsins. Þar er ástandinu á norræna rafmarkaðnum eftir markaðsvæðingu lýst í dökkum litum, sagt að verð sl. fjóra mánuði hafi hækkað um 400% hjá Nord Pool sem er miðlunarfyrirtæki norrænna rafmagnsveitna. Að auki hafi sænska stjórnin hækkað skatta á rafmagn á sama tíma. Það er rétt. Og það eru þær staðhæfingar sem Samorkumenn komu með. Hins vegar skýrir það ekki þessa hækkun nema að litlum hluta.

Í þessari skýrslu Bertils Dahlstens er því haldið fram að ástæður ófremdarástandsins hafi opinberlega verið taldar lítil úrkoma sl. ár. Í skýrslunni segir að þetta sé ekki satt, úrkoma hafi þvert á móti verið óvenjumikil, bæði 2000 og 2001. Hins vegar hafi verið til staðar fyrir markaðsvæðingu umframorka í sænska kerfinu til þess að mæta þurrum árum og álagspunktum. Það fyrsta sem raforkuframleiðslufyrirtækin gerðu var að skera þessa umframorku í burtu, um 10% af framleiðslugetu sænska raforkukerfisins fyrir breytingar. Fyrirtækin sögðu að þau framleiddu ekki rafmagn að gamni sínu og ekkert þeirra taldi sig þurfa að bera kostnað af slíkri öryggisorkugetu. Þessa orku þurfa Svíar nú að flytja inn frá kolaraforkustöðvum í Póllandi og Þýskalandi.

Þá er lýst í þessari skýrslu Bertils Dahlstens áhyggjum af fjárfestingum og viðhaldi í sænskum raforkuiðnaði. Um 40% af starfsmönnum hafi verið sagt upp og engin nýliðun eigi sér stað. Engar fjárfestingar hafi verið gerðar í iðnaðinum síðan fyrir markaðsvæðingu en raforkuiðnaðurinn krefjist langtímaáætlana varðandi uppbyggingu og viðhald ef tryggja eigi landsmönnum öruggan aðgang að nægu rafmagni.

Hér er ég að vitna óbeint, ekki orðrétt, í skýrslu frá sænskum verkalýðssamtökum til Evrópusambands launafólks í almannaþjónustu. Ég byggi staðhæfingar mínar á því sem frá þessum aðilum kemur og vek athygli á að þær stangast algerlega á við þær staðhæfingar sem koma frá Samorku og voru birtar í sjónvarpinu um síðustu helgi.

[13:45]

Nú finnst mér að finna þurfi út hvað er rétt í þessu efni og auðvitað stendur sú krafa upp á ríkissjónvarpið að ganga úr skugga um hið rétta. Ég er alls ekki að áfellast ríkissjónvarpið í þessu efni, alls ekki, a.m.k. ekki á þessu stigi, sjónvarpið hefur enn tækifæri til að kafa ofan í hlutina. Allt of oft vill það samt gerast að umræða um mikilvæg mál eins og þessi er látin hanga í lausu lofti og ekki leiðrétt þegar rangt er farið með.

Þá vil ég nefna það að markaðsvæðing á rafmagni hefur í för með sér mikið óöryggi fyrir notendur. Þeir eiga allt sitt undir geðþótta eigenda hlutafjárins þegar búið er að hlutafélagavæða þessa framleiðslu. Þannig má benda á að eitt stærsta orkufyrirtæki Bretlands, British Energy, sem framleiðir og selur 25% rafmagns í Bretlandi, hefur að undanförnu ítrekað sent út viðvörun um að án frekari aðstoðar frá opinberum aðilum stefni í gjaldþrot fyrirtækisins. Hlutabréf þess kolféllu í september sl. og gerðist þetta þrátt fyrir neyðaraðstoð bresku ríkisstjórnarinnar upp á 410 millj. breskra punda sem veitt var til endurskipulagningar á fjármálum fyrirtækisins. Markaðsvirði hlutafjárins er komið niður í 173,8 millj. punda, samanborið við rúmar 2.000 millj. punda fyrir ári síðan. Þannig hefur verðgildi hlutabréfa fallið um 91% á einu ári og aldrei verið lægra í sögu fyrirtækisins. Fulltrúi stofnunar sem á hlutabréf í British Energy lét hafa eftir sér að ríkisstjórnin hafi með fjárstyrk sínum bjargað fyrirtækinu tímabundið frá gjaldþroti. Eftir sé hins vegar að finna svar við þeirri grundvallarspurningu hvað verða megi fyrirtækinu til bjargar til framtíðar litið en það tapi nú á framleiðslu rafmagns. Með öðrum orðum, þegar mest þarf á að halda hlaupa hlutafjáreigendurnir brott. Þetta er ástæðan fyrir því að þetta fyrirkomulag, hlutafélagafyrirkomulagið í grunnþjónustu, er mjög óheppilegt. Grunnþjónustan þarf alltaf að vera til staðar og það er óheppilegt og óskynsamlegt að haga eignarforminu þannig að eigandinn sé sífellt að hugsa um það hvernig hann geti hámarkað gróða sinn. Ef það nú gerist að illa árar á þessum markaði í þessum rekstri, er hann farinn burtu. Það gerðist einmitt í þessu fyrirtæki. Það mætti taka fleiri dæmi, bæði frá Frakklandi og Bandaríkjunum hvað þetta snertir.

Hvers vegna er verið að ræða þetta? Jú, vegna þess að við eigum að læra af reynslu annarra þjóða. Hér hafa fulltrúar ríkisstjórnarinnar og Samorku komið fram og reynt að telja okkur trú um að það sé heppilegt rekstrarform að markaðsvæða þessa starfsemi, færa hana í annað eignarhaldsform. Þess vegna hljóta menn að horfa til reynslu annarra þjóða í þessu efni. Náttúrlega er hrikalegust reynsla þjóðar af einkavæðingu rafmagnsins; það er í Nýja-Sjálandi. Þar var orðið sannkallað neyðarástand og ríkið þurfti þá að koma inn með hjálpandi hönd, eins og er að gerast núna í Bretlandi, og ég hef rakið, þar sem milljarðatugum er pumpað inn í þessa framleiðslu til þess að halda fyrirtækinu á floti.

Herra forseti. Þetta voru almenn orð um þessa skipulagsbreytingu, þessa grundvallarskipulagsbreytingu sem menn eru núna að byrja að feta sig inn á. Við sáum hvað var að gerast hér með Norðurorku fyrir jólin, þar kom hver ráðherrann upp á fætur öðrum og hver stjórnarþingmaðurinn líka (Forseti hringir.) algerlega gagnrýnislaust og dásamaði þessa breytingu. Og nú óska ég eftir því að menn (Forseti hringir.) reyni að sjá til þess að við drögum rétta lærdóma af reynslu annarra þjóða. Ég veit að hæstv. forseti er mér sammála í því.