Raforkulög

Fimmtudaginn 30. janúar 2003, kl. 14:17:37 (3243)

2003-01-30 14:17:37# 128. lþ. 69.1 fundur 462. mál: #A raforkulög# (heildarlög, EES-reglur) frv., KolH
[prenta uppsett í dálka] 69. fundur, 128. lþ.

[14:17]

Kolbrún Halldórsdóttir:

Herra forseti. Við ræðum hér eitt af viðameiri málum sem þetta þing fjallar um, þ.e. frv. til raforkulaga sem er að líta hér dagsins ljós í þriðja sinn. Eins og fram hefur komið í ræðum hv. þm. hefur mjög mikil umræða staðið um þetta mál úti á akrinum sl. tvö ár og sýnist þar sitt hverjum. Það er alveg ljóst að menn eru ekki á eitt sáttir og hér hefur verið dreginn fram í dagsljósið ágreiningur stjórnarflokkanna um málið og hann hefur orðið til þess að hluti af þessu frv. verður ekki afgreiddur heldur verður honum frestað og hann settur í nefnd. Ég tek undir gagnrýni sem komið hefur fram á það fyrirkomulag í ræðum þingmanna því að það er alveg ljóst að fyrirkomulag á jöfnun orkuverðs, jafnstórt og veigamikið atriði og það er, verður að liggja ljósar fyrir en hér. Þegar við erum að setja slíkan lagabálk í gegnum þingið finnst mér ekki alveg forsvaranlegt, herra forseti, að afgreiða málin eða ágreininginn á þann hátt sem hér er lagt til.

Ég segi að þetta sé eitt viðamesta mál sem þetta þing fjallar um og ég held að það séu orð að sönnu. Ég hefði gjarnan viljað fá meiri yfirsýn í gegnum umræðuna með því að hér lægju t.d. fyrir líka heildstæð auðlindalög. Ég hef haft pata af því og ég held að það sé alkunna að drög að slíkum lögum eða slíkri löggjöf muni vera til í ráðuneyti hæstv. iðnrh. Ég verð að segja að ég hefði viljað sjá slíka löggjöf lagða fram á sama tíma og þetta frv. til raforkulaga er rætt því þetta er hluti af svo stóru máli og um mál af þessu tagi þarf að marka heildstæða, heildræna stefnu. Ég hefði því viljað sjá hér auðlindalög og jafnvel lög um jarðhita líka. Þar er ákveðinn geiri í þessu umhverfi sem ég held að þurfi líka að hafa sérstaka löggjöf. Eins og við höfum vatnalög þá held ég að tímabært sé orðið að setja lög um nýtingu jarðhita almennt. Ofan á þetta hefði ég gjarnan viljað sjá hér náttúruverndaráætlun lagða fram og ég hefði viljað sjá hér tilbúna rammaáætlun ríkisstjórnarinnar um nýtingu vatnsafls og jarðvarma.

Að þessari upptalningu lokinni, herra forseti, sést hversu stórt og viðamikið mál þetta er. Ég tek undir þá gagnrýni sem hér hefur komið fram á hæstv. iðnrh. og stjórnarflokkana um að ekki skyldi vera hægt að klára þetta mál betur en frv. gefur til kynna.

Hæstv. ráðherra sagði í morgun að ný hugsun hafi verið að ryðja sér til rúms hvað varðar raforkumarkað og reglur á raforkumarkaði upp á síðkastið og síðustu árin. Hæstv. ráðherra sagði að gengið hefði vel í nágrannalöndum okkar að finna rúm fyrir þessa nýju hugsun.

Margt af því sem kom upp í huga minn þegar ég hlustaði á ræðu hæstv. ráðherra hefur komið fram í ræðum annarra þingmanna, en ég get ekki látið hjá líða, herra forseti, að ítreka það sem er alkunna, þ.e. að t.d. í Þýskalandi hafa afleiðingarnar af þessum orkusamruna verið mjög alvarlegar. Hér hefur nokkuð verið fjallað um Noreg. Þýskaland hefur ekki verið nefnt í þessari umræðu. Ég ætla að bæta því hér við. Það er alkunna að í Þýskalandi var afleiðing þessarar opnunar á markaði gífurlega mikill samruni fyrirtækja. Nokkrir stórir aðilar náðu ráðandi stöðu á markaði en allir smærri aðilar týndu tölunni og urðu að gefast upp. Raforkuverð í Þýskalandi hækkaði gífurlega fyrst um sinn, tók risastökk og enn þann dag í dag er orkuverð í Þýskalandi ekki búið að ná því verði sem það var áður en raforkumarkaðurinn var innleiddur, þ.e. sá markaður sem hér er verið að tala um. Það er ekki gert ráð fyrir því, herra forseti, að raforkuverð lækki neitt meira í Þýskalandi.

Í þeim greinum og viðtölum sem ég hef séð og lesið virðast menn gagnrýna þessa stóru aðila, stóru orkuframleiðendurna í Þýskalandi og því er beinlínis haldið fram að þessir stóru aðilar hafi farið út í þetta allt saman eða knúð á um þennan frjálsa markað til þess að halda verði háu. Það var auðveldara fyrir þá að halda verðinu háu þegar þeir voru einir og allsráðandi á markaðnum.

Þetta er ekkert ókunnugt lögmál. Þetta er nokkuð sem menn lenda í í hvert sinn sem frelsið, blessað viðskiptafrelsið er tekið til umfjöllunar. Það er kunnara en frá þurfi að segja að frelsinu fylgir líka ábyrgð og þegar birtingarmynd frelsisins er orðin græðgi og ágirnd þá held ég að betur sé heima setið en af stað farið.

Í Þýskalandi var þetta náttúrlega þannig að orkuver sem notuðu sama vatnið gátu ekki komið fram sem sjálfstæðir aðilar en þeir leystu málið með því að setja á þessa gífurlegu miðstýringu. Eins og ég segi þá er orkuverð í Þýskalandi ekki enn komið niður í það sem það var þegar þessum frjálsa markaði var komið á. Þetta er staðan þar, herra forseti.

Hér hefur verið talað mikið um sérstöðu Íslands, að hún sé mikil og að við búum við afmarkað og lokað kerfi og kostnaðarliðir okkar séu þar af leiðandi fastir en ekki breytilegir sem leiðir eingöngu af þessari sérstöðu þessa kerfis. Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon vitnaði áðan í ræðu í nál. minni hluta utanrmn. sem á sínum tíma fjallaði um þessa tilskipun. Ég vil bara lýsa því að ég er hjartanlega sammála því sem hv. þm. sagði um þá möguleika sem hann taldi okkur hafa átt á því að biðja um undanþágur. Ég er hjartanlega sammála því að það séu ákveðin atriði í þessari tilskipun sem eigi alls ekki við svona afmarkað, lokað kerfi eins og við Íslendingar búum við.

Alkunna er að þessi tilskipun byggir ekki hvað síst á því að kaupendur raforku geti verslað þvert á lönd og landamæri. Auðvitað verður það aldrei hægt á Íslandi, a.m.k. ekki í náinni framtíð, svo að hagkvæmt geti talist. Ekki getum við því hlaupið til grænna orkuframleiðenda í Bretlandi og keypt af þeim orku. Ónei, við erum bundin við okkar litla afmarkaða, lokaða kerfi og það setur okkur allt aðrar skorður en öðrum löndum í Evrópu.

Sérstaða Íslands felst einnig að að miklu leyti í því að við erum með um 70% af markaðnum bundin í stóriðjusamningum til langs tíma. Það verður að segjast eins og er að í þessum sal er ekki búið að ræða breytt hlutverk Landsvirkjunar í þessu nýja umhverfi í tengslum við þetta frv. En það er alveg ljóst og fjármálastjóri Landsvirkjunar hefur sagt það, að það borgar sig ekki, hvorki á Íslandi að öllum líkindum né annars staðar þá, að virkja fyrir stóriðju nema eins og hér er gert, þ.e. að ríkissjóður þarf að gangast í ábyrgð fyrir lántökum Landsvirkjunar.

Herra forseti. Einu sinni stóð til að búa til sérstakt félag um orkuöflunina vegna fyrirhugaðs álvers á Reyðarfirði. En það var kveðið upp úr með það fyrir nokkrum árum síðan, sennilega 1998, að slíkt yrði aldrei hagkvæmt, það væri einungis hagkvæmt að virkja fyrir stóriðju á þeim nótum sem gert er hér, þ.e. á vegum fyrirtækis sem hefur öll þau skattfríðindi sem Landsvirkjun hefur og á vegum fyrirtækis sem getur gengið í ríkissjóð og stærstu sveitarfélagasjóðina hér á landi til þess að gangast í ábyrgð fyrir lánveitingar sínar. Um þetta má lesa í erindi fjármálastjóra Landsvirkjunar sem flutt var á orkuþingi 2001 og birtist í bók sem gefin var út í tilefni af því þingi. Þetta er hluti af sérstöðu þessa markaðar.

Því er alveg ljóst að við eigum eftir að fjalla betur um þetta kerfi á Íslandi sem er í sjálfu sér bara örkerfi. Ísland er í samhengi Evrópusambandsins dvergríki og raforkukerfið okkar í því samhengi örkerfi, sem ég held að þurfi að skoða með allt öðrum gleraugum en hér er verið að gera.

Herra forseti. Það er alveg ljóst að stóriðjuframleiðslan fer vaxandi því við það stjórnarfar sem við búum núna og þá atvinnustefnu sem hæstv. ríkisstjórn keyrir þá stefnir í að 80--90, sennilega hátt í 90% af orkuöflun landsmanna verði fyrir stóriðju og verði bundin í langtímasamningum til stóriðju og það er alveg ljóst að ef einungis 10% af aflinu eru seld á hinum almenna markaði, að það sé aðeins það sem á að véla um hér, þá erum við að reyna að innleiða kerfi sem ég tel að gangi ekki upp.

Hér hefur verið vitnað í greinina Raforkufrumvarp í vanda, sem birtist í Morgunblaðinu, og ráðherra mun hafa svarað á þá lund að hún vildi að horft yrði á heildarmyndina. Ég tek undir þau orð hæstv. ráðherra að horfa þurfi á heildarmyndina. En ég sakna hins vegar að það sé gert í þessu frv. og í þeirri umræðu sem hér fer fram. Ég er því voða hrædd um að við séum núna í þessari umræðu að missa út úr höndunum þá möguleika að horfa til framtíðar, horfa yfir sviðið í heild og skoða alla þætti þessa máls.

Kannski er ekki óeðlilegt þó hér sé ítrekað það sem þessi þingfundur hófst á, þ.e. orkugræðgi Landsvirkjunar sem er slík að ugg setur að mönnum. Það er ekki óeðlilegt þar sem Landsvirkjun er farin að sækja í svo ríkum mæli inn á friðlöndin okkar til að virkja. Ég vil í raun halda því fram að það geti verið tilefni til að breyta lögum um Landsvirkjun þannig að hún geti ekki stöðugt skákað í því skjóli þar að 5. tölul. 2. gr. laganna leggi þeim þann kross á herðar að þeir eigi að hafa með viðunandi öryggi tiltæka nægilega raforku til þess að anna þörfum viðskiptavina sinna á hverjum tíma. Ég vil halda því fram að þessi 5. tölul. í 2. gr. laganna um Landsvirkjun sé orðinn, má segja, prímus mótor í starfi Landsvirkjunar því að þar er stöðugt verið að búa til ný tækifæri til þess að afla orku og síðan er iðnrn. eins og útspýtt hundsskinn úti um öll holt og grundir, út um allan heim, að reyna að draga stóriðjufyrirtæki hingað til landsins. Allir þekkja dæmið um Alcoa sem dregið var hingað og boðið gull og grænir skógar. Landsvirkjun stóð auðvitað klár á því að afhenda nákvæmlega þá orku sem Kárahnjúkavirkjun gæti mögulega annað eða framleitt fyrir þá. Ég vil meina að þetta ákvæði í lögunum sé orðið íþyngjandi og komi í veg fyrir alla vitræna umræðu um náttúruvernd og skynsamlega nýtingu orkulindanna okkar.

[14:30]

Ég sakna þess að hæstv. ráðherra hafi ekki svarað hér spurningum mínum frá því í morgun þegar við vorum að munnhöggvast í byrjun þingfundar, herra forseti. Ég vil fá að vita hvað friðlýsing lands þýðir í huga hæstv. iðnrh. Ég sé ekki annað en að hér sé vaðið með offorsi yfir eina auðlind til þess að afla annarrar. Mér finnst þetta frv. til raforkulaga ýta undir slíkt. Mér finnst það gera það að verkum að menn eigi núna á hættu að glata þeim gersemum sem ósnortin náttúra landsins býr yfir og þá finnst mér verið að fórna einni auðlegð á altari stóriðjunnar, auðlegð sem mætti mögulega nýta þjóðinni til hagsældar, ekki síður en auðlegðina sem fólgin er í orkulindum landsins.

Síðan finnst mér, herra forseti, að það vanti umræðu um ákveðnar skilgreiningar í frv. Ég sé t.d. ekki að það séu almannahagsmunir --- ef við lítum á markmiðsgrein laganna stendur þar, herra forseti, að markmiðið sé að stuðla að þjóðhagslega hagkvæmu raforkukerfi og það eigi að efla atvinnulíf og byggð í landinu, og í því skyni skuli, eins og segir í 1. tölul., með leyfi forseta, ,,skapa forsendur fyrir samkeppni í vinnslu og viðskiptum með raforku, með þeim takmörkunum sem nauðsynlegar reynast vegna öryggis raforkuafhendingar og annarra almannahagsmuna``.

Og hverjir eru þessir almannahagsmunir? Ég spyr: Hvernig eru þeir skilgreindir? Ég spyr líka um þætti eins og skilvirkni, hagkvæmni og öryggi raforkukerfis og hagsmuni neytenda. Hvernig skilgreinir hæstv. iðnrh. t.d. þessa hagsmuni neytenda þegar það er ljóst að þar sem þessi frjálsi raforkumarkaður hefur verið innleiddur hefur verð til neytenda einmitt hækkað? Varla geta það verið hagsmunir neytenda.

Síðan tel ég líka að það þurfi að skilgreina betur hugtök eins og endurnýjanlega orkugjafa. Margar þrætur hafa átt sér stað í þessum sal sem fjalla um endurnýjanlega orkugjafa. Og ég sakna þess að í sambandi við þetta frv. til raforkulaga skuli ekki fjallað um þá skilgreiningu sem mér finnst eðlilegt að við gerum, skilgreininguna sem þeir sem fjalla um sjálfbæra þróun hafa notað fyrir endurnýjanlega orkugjafa, en öllum er kunnugt að þar undir falla ekki vatnsaflsvirkjanir með uppistöðulón sem eru að uppistöðu til jökulvatn.

En það er alveg ljóst að þessi ríkisstjórn og hæstv. iðnrh. skilgreina ekki endurnýjanlega orkugjafa á sömu nótum og þeir sem standa hvað best vörð um sjálfbæra þróun. Það mætti kannski nefna hér til sögunnar, herra forseti, samtök sem kalla sig International River Network. Það mundi útleggjast á íslensku Alþjóðlegt net vatnsfalla eða eitthvað á þá leið. Þar er um að ræða samtök sem hafa tekið að sér að skilgreina fyrir heiminn eðli vatnsfalla. Þetta er afar virtur félagsskapur sem mikið mark er tekið á og margir virtir vísindamenn starfa fyrir. Það er alveg ljóst að skilgreining þeirra á endurnýjanlegum orkugjöfum er ekki sú sama og ríkisstjórnar Íslands. Það er auðvitað sjálfsagt og eðlilegt að iðnn. taki þessar skilgreiningar til umfjöllunar þegar málið fer til nefndarinnar til frekari skoðunar.

Ef stuðla á að því að þetta verði svo óskaplega þjóðhagslega hagkvæmt raforkukerfi finnst mér vanta röksemdafærsluna um þá óhagkvæmni sem við búum við í því raforkukerfi sem við þekkjum í dag. Það má þá spyrja hæstv. iðnrh.: Hvaða stóra óhagkvæmni rekur okkur út í þessar breytingar sem áhöld eru um hvort skili okkur nokkru öðru en hærra orkuverði?

Það væri líka gaman að fá hér umræðu um það, herra forseti, hvernig gert sé ráð fyrir því að raforkukerfi það sem hér er lagt til komi til með að efla atvinnu og byggð í landinu. Það er sannarlega ekki vanþörf á í því umróti sem nú ríkir í virkjanamálum og framtíðarorkumálum þjóðarinnar að fá upp umræðu um það á hvern hátt hæstv. iðnrh. sjái að nákvæmlega þetta fyrirkomulag Evrópusambandsins efli svo mikið atvinnu og byggð á Íslandi.

Að svo mæltu, herra forseti, held ég að ljóst sé að ég hef margar efasemdir um þetta stóra mál og hefði sannarlega viljað sjá öflugar umræður um það fram eftir degi. Það er eðlilegt að 1. umr. um þetta frv. fari vítt og breitt um sviðið en ég geri síðan ráð fyrir því að iðnn. eigi eftir að varpa sínu öfluga ljósi á þetta mál. Ég geri ráð fyrir að 2. umr. um frv. komi til með að verða jafnvel enn átakameiri en sú fyrsta sem hér hefur farið fram.