Raforkulög

Fimmtudaginn 30. janúar 2003, kl. 14:43:36 (3248)

2003-01-30 14:43:36# 128. lþ. 69.1 fundur 462. mál: #A raforkulög# (heildarlög, EES-reglur) frv., JB
[prenta uppsett í dálka] 69. fundur, 128. lþ.

[14:43]

Jón Bjarnason:

Herra forseti. Þetta frv. til raforkulaga á að marka þann ramma sem vinnsla, dreifing og þjónusta á rafmagni mun hafa á næstu árum. Það er auðheyrt af ummælum hæstv. iðnrh. að eitthvað hafi skolast til þær upplýsingar um þróun í öðrum löndum sem hún vitnaði til, sem hún sagði að hefði gengið vel og sýndi fram á að aukið frelsi í markaðsvæðingu þessa þjónustugeira hefði alls staðar verið til góðs.

Hv. þm. Ögmundur Jónasson rakti þetta mjög ítarlega í ræðu sinni og ég vona að hæstv. ráðherra hafi hlustað. Það væri þá a.m.k. tími til kominn. Ég get þó í tilefni af ummælum hæstv. ráðherra í andsvörum áðan bara minnt á nokkur atriði. Hér er ég með grein þar sem vitnað er í framkvæmdastjóra norska neytendaráðsins, Pers Anders Stahlheims. Hún er birt og endurtekin á fréttavef BSRB. Þar segir, með leyfi forseta:

[14:45]

,,Í sumar rauk verðið á raflínuleigunni (dreifikerfinu) upp. Ástæða: Við notum of lítið rafmagn. Nú þýtur rafmagnsverðið einnig upp. Ástæða: Við notum of mikið rafmagn.

Þetta er markaður, þar sem menn háfa inn peninga, segir Stalheim. Verðhækkunin nemur allt að 30% hjá einstökum rafmagnsnotendum.``

Ég vitna áfram í hinn norska framkvæmdastjóra neytendaráðsins.

,,Hagnaðurinn í rafmagnsgeiranum er einnig ævintýralegur. Árið 2000 var hagnaður norskra rafveitna um 11,6 milljarðar norskra króna og rafveiturnar greiddu 3,7 milljarða norskra króna í arð til eigenda sinna.

Nú tilkynna rafveiturnar um mikla hækkun rafmagnsverðs. Þeir rotta sig saman um verð á hverju hausti, segir Stalheim. Hann upplýsir að 80--90 Norskar rafveitur þurfi aðeins 4--5 norska aura (50--60 ísl. aura) á kílóvattstund til að vera reknar með hagnaði.``

Áfram segir í viðtalinu:

,,Í raun ráða þrír stórir eigendur rafmagnsmarkaðnum, segir Stalheim. Statkraft ræður öllu í Noregi, Vatterfall í Svíþjóð. Þriðja stóra samsteypan ræður rafmagnsmarkaði í Finnlandi. Nú er verið að rannsaka, hvort ólöglegt verðsamráð hafi verið haft í frammi á rafmagnsmarkaðnum til að halda uppi óeðlilega háu verði.

Kraftnord í Nordlandfylki hefur hækkað rafmagnsverð þrisvar sinnum í september.``

Stalheim lýsir þarna í hnotskurn hverju norskir neytendur standa frammi fyrir eftir þessa markaðsvæðingu. Við höfum líka vitnað til þess sem hefur gerst á öðrum svæðum og löndum, t.d. Kaliforníu, Ástralíu og Nýja-Sjálandi, þar sem eru sporgöngumenn markaðsvæðingar og einkavæðingar í rafmagnsgeiranum. Við höfum lýst því sem þar hefur gerst. Það hefur reynst nauðsynlegt að ríkið komi inn til að draga einkaaðilana þar að landi til að bjarga þjónustunni. Ég held að hæstv. iðnrh. ætti að fara varlega í að vitna til góðrar reynslu erlendra aðila í markaðsvæðingu raforkukerfisins enda eru aðstæðurnar sem menn búa við þar auk þess allt aðrar en hér á landi.

Þar komum við kannski að kjarna málsins í þessu frv. sem er að það er fyrst og fremst farið eftir erlendum uppskriftum varðandi fyrirkomulag raforkumála. Því er borið við að fara þurfi eftir einhverri evrópskri tilskipun sem við í asnaskap og undirlægjuhætti samþykktum að gangast undir, tilskipun sem allir vita að passar í raun engan veginn hér á landi. Afsökunin nú er að við séum búin að gangast undir þessa tilskipun og þess vegna verðum við að beygja okkur undir hana. En það var ekki á þeim forsendum að það væri íslenskum raforkumarkaði og neytendum til góðs. Það var aldrei inni í þessari umræðu, aðeins að þjónka þessum erlendu tilskipunum sem okkur bar engan veginn að taka upp. Þar stendur hnífurinn í kúnni.

Herra forseti. Ég tel einn mesta ágallann á því frv. sem hér er lagt fram að það er hvergi tekið á þjónustumarkmiðum þessara gæða, þ.e. raforkunnar til neytenda. Það er hvergi tekið á þjónustumarkmiðunum. Tökum t.d. bara eitt. Hvers konar rafmagni á að dreifa um landið? Við vitum að þriggja fasa rafmagn er mikilvægt fyrir uppbyggingu atvinnulífs úti um allt land. Það er ekki minnst einu orði á það í þessu frv. hvernig á að þjóna landinu öllu með rafmagni. Hvergi er minnst á það. Það mætti standa í þessu frv., sem á að ná um raforkulögin, um þjónustumarkmið og hvernig ætti að taka á gæðum þjónustunnar.

Hæstv. ráðherra sagði hér í ræðu sinni að það ætti að skilgreina gæðamarkmiðin seinna. Já, það er gott að vísa öllu til seinni tíma, öllu því sem skiptir í raun máli fyrir neytendur.

Ég hefði t.d. viljað spyrja hæstv. ráðherra í þessu sambandi um framkvæmd þáltill. um þriggja fasa rafmagn sem var samþykkt hér á Alþingi árið 1999. Samkvæmt henni var unnin skýrsla en þar var einmitt fjallað um þörfina fyrir þriggja fasa rafmagn. Íslenskir neytendur horfa á það sem að þeim snýr, hvers konar rafmagn stendur þeim til boða og á hvaða verði.

Í þessu frv. er hvorki tekið á því að jafna verð til neytenda, sem væri þó eitt af frumatriðunum í frv. til raforkulaga, svona heildstæðum lögum. Þar ætti að taka á því hvort stefnan sé í raun að dreifa rafmagni á jafnréttisgrunni á jöfnu verði um allt land. Það vilja íslenskir neytendur fá að heyra. En því er frestað. Öllu því sem lýtur að þjónustunni er frestað.

Í skýrslu sem gerð var, þ.e. úttekt á kostnaði og þörfum á þriggja fasa rafmagni í landinu öllu, kom fram að það kostaði um 9,6 milljarða kr. að setja þriggja fasa rafmagn á allar þær línur sem nú væru til staðar. Hins vegar kom líka fram að til þess að mæta að mestu brýnustu þörfum þyrfti ekki nema kannski þriðjung eða fjórðung af þessum kostnaði. Í þessari skýrslu voru einmitt lagðar fram niðurstöður eða tillögur um hvað gera skyldi. Lokaorð þessara tillagna voru, með leyfi forseta:

,,Verði sérstöku fjármagni varið til þessa verkefnis á næstu árum er lagt til að Rarik verði falið að vinna sérstaka áætlun um endurbyggingu dreifikerfisins fyrir þrífösun miðað við framangreindar niðurstöður könnunar nefndarinnar á þörf þrífösunar á landsbyggðinni. Jafnframt er nauðsynlegt að endurskoða gjaldskrá fyrirtækisins vegna þrífösunar fyrir líklega notendur, sem mun leiða til þess að hlutfallslega fleiri notendur sem beina þörf hafa nú munu velja að tengjast þriggja fasa rafmagni.``

13. mars 2002 var rætt var um mikilvægi þriggja fasa rafmagns um allt land og þá brýnu þörf sem atvinnulífið úti um hinar dreifðu byggðir hefur fyrir þriggja fasa rafmagn. Það er ekki nóg að vinna um það skýrslur og hafa um það góð orð, ef lítið er um efndir. Í svari við fyrirspurn frá hv. þm. Drífu Hjartardóttur við þær umræður svaraði ráðherrann, með leyfi hæstv. forseta:

,,Í síðustu viku var fjallað um þetta mál í ríkisstjórn og þá var ákveðið að fela iðnrh. og fjmrh. að móta tillögur um það hvernig farið skuli í verkefnið`` --- þetta þriggja fösunar verkefni --- ,,með ákveðinni aðgerðaáætlun og þar af leiðandi kostnaðaráætlun. Það tel ég vera mikilvægt. Þó að þetta sé að sjálfsögðu unnið hjá sveitarstjórnum þá er þetta unnið þannig skulum við vona og trúa að það sé í samvinnu við íbúa sveitarfélaganna. Ég tel þetta mikilvægt mál og þess vegna legg ég áherslu á að farið verði í aðgerðir til þess að bæta þarna úr og það eru ekki nema um 100 millj. kr. sem hafa farið á ári síðastliðin ár í þetta verkefni. Auðvitað þyrfti það að vera meira vegna þess að við sjáum hvað verkefnið er brýnt.``

Ég held, herra forseti, að þeir mörgu aðilar sem bíða eftir því að fá þriggja fasa rafmagn heim á býlin, heim á staðina þar sem atvinnustarfsemin er háð því að fá þriggja fasa rafmagn, bíði í ofvæni eftir því að eitthvað verði gert í þessum málum?

Á fjárlögum þessa árs var ekki aukið fjármagn til þess að efla eða auka þriggja fasa rafmagn í sveitum. Það er áfram sama upphæðin, tæplega 100 millj. kr. sem er gert ráð fyrir að verði varið til þeirra hluta. Við vitum líka að dreifikerfi Rariks víða um sveitir er líka mjög veikt og viðhald hefur alls ekki verið eins og skyldi. Þar bíða líka stór verkefni.

Þegar við fjöllum um raforkumál og framtíðarskipan raforkumála hljótum við að vilja heyra hvernig ætlunin er að byggja upp þessa þjónustu gagnvart öllum landsmönnum, bæði hvað varðar gæði þjónustunnar og einnig verð. Á hvorugu þessu er tekið í frv. Það er lögð áhersla á að einkavæða virkjanirnar, að framleiðsla rafmagnsins verði einkavædd og þurfi ekki lengur afskipti Alþingis af því að heimila stórvirkjanir, það verði falið eingöngu í hendur ráðherra. Síðan er dreifikerfið látið liggja á milli hluta. Það er fullkomlega óafgreitt hvernig standa á að jöfnuði á rafmagnsverði um allt land og hvernig á að standa að dreifingunni.

Það er talað um að skipa skuli nefnd til þess að fjalla um þessi mál en þetta er það mál sem ég held að allir neytendur, allir íbúar þessa lands, vilji fá á hreint í raforkulagafrumvarpinu áður en frá því verður gengið.

Ég held að margir íbúar landsins, sérstaklega í dreifbýlinu, treysti ekki vel þessari ríkisstjórn þegar hún er komin út í einkavæðingarferilinn.

Við þekkjum hvað hefur verið að gerast með Póstinn. Það tókst að afstýra sölu á Landssímanum en engu að síður er hann áfram til sölu. Ég er ekki viss um að menn séu hrifnir af því sem er að gerast í bönkunum og í bankaþjónustunni. Ég held að hinar dreifðu byggðir búist ekki við aukinni eða bættri þjónustu við sölu á bönkunum. Það er þess vegna lítil von til þess að þeir treysti betur ríkisstjórninni við einkavæðingu og markaðsvæðingu raforkunnar.

Við í Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði lítum á raforkuna sem grunnþjónustu fyrir annað atvinnulíf og búsetu í landinu. Við lítum svo á að raforkan, þessi auðlind, sé hluti af auðlindunum okkar og standi undir byggð og búsetu og atvinnulífi í landinu og eigi ekki að reka beint á arðsemisgrunni. Sjálfsagt á að reka hana eins hagkvæmt og kostur er en hún er til þess að byggja upp atvinnulíf og búsetu. Þess vegna skiptir svo miklu máli fyrir alla íbúa landsins að þeir fái að vita hvar þeirra hlutur verður í þessu nýja raforkulagaumhverfi. Það er áfram óljóst. Það er áfram látið vera óljóst hvernig verðlagningu og dreifingu á rafmagni um byggðir landsins verður háttað.

Nú þegar búum við við mikið órétti í þessu. Rafmagn til minni atvinnufyrirtækja vítt og breitt um landið er selt á himinháu verði. Hvernig halda menn að samkeppnisstaða sé fyrir lítil fyrirtæki sem eru að borga 7--10 kr. á kílóvattstundina? Hvernig halda menn að samkeppnisstaða þessara litlu atvinnufyrirtækja sé? Ég held að þeir aðilar sem búa við þetta raforkuverð vildu fá að heyra það nú að hér væri verið að leggja fram frv. til raforkulaga sem færði þetta til betri vegar. Þess í stað eru þeir áfram skildir eftir í fullkominni óvissu og mega búast við því að raforkuverðið hækki frekar en lækki, ef eitthvað er.

Herra forseti. Eitt er samt ljóst. Ákveðnir aðilar munu hagnast og fá þarna aukið svigrúm verði þetta frv. til raforkulaga að lögum, þ.e. eftirlitsiðnaðurinn. Því er alveg ljóst, enda kemur það fram í frv., að forsenda markaðsvæðingar raforkumálanna er sú að efla eftirlit með þeim. Það þarf að efla Samkeppnisstofnun og alls konar eftirlitsaðila til að fylgjast með því að reglunum sé fylgt.

[15:00]

Það er því alveg ljóst að því fleiri milliliðir sem koma hér inn og því meiri markaðsvæðing sem verður á þessum grunnþjónustuþætti, því meiri og þyngri verður eftirlitsiðnaðurinn. Og eftirlitið, hver mun borga það? Það verður neytandinn sem mun borga það. Kerfið sjálft sem lagt er upp með felur í sér aukinn kostnað sem mun bitna á neytendum. Á þessu er ekki tekið í frv. Það er ekki tekið á því hvernig fara skuli með jöfnun á raforkuverði um landið. Hvergi. Ekki er tekið á neinum stefnumarkandi markmiðum varðandi rafmagn, t.d. þriggja fasa rafmagn um allt land sem er eitt brýnasta hagsmunamál fyrir íbúa hinna dreifðu byggða að fá heim í hlað. Það er ekkert tekið á þeim málum.

Ég held því, herra forseti, að fyrir þá mörgu sem nú búa við skerta þjónustu hvað rafmagn varðar og búa við hæsta verðið, séu það mikil vonbrigði að heyra að í frv. er ekkert tekið á þeim málum. Ekki neitt. Meira að segja er það látið vera í svo mikilli óvissu að skipa á einhverja aðra nefnd til að fjalla um þessi mál. Eini kosturinn sem gæti verið við það að fela þetta annarri nefnd er að sú nefnd mundi þá hugsanlega starfa undir annarri ríkisstjórn en nú er og koma þá með niðurstöður sínar og tillögur ef tækist að skipta þessari einkavæðingar- og markaðsvæðingarríkisstjórn burt þannig að hagsmunir hins almenna neytanda og hagsmunir hins almenna íbúa landsins fengju að njóta sín með sterkari hætti en gerist undir núv. ríkisstjórn.

Ég ítreka það, herra forseti, að þetta frv. tekur ekki á verðjöfnun rafmagns um land allt. Það tekur ekki á því að styrkja dreifikerfi landsins. Það tekur ekki á því að tryggja þá sanngjörnu kröfu að í boði verði fullkomið rafmagn til allra íbúa landsins til að styrkja atvinnulíf og búsetu. Hins vegar felur þetta kerfi í sér markaðsvæðingu og möguleika á framsali á þeim náttúruauðlindum sem við byggjum rafmagnsframleiðslu okkar á og það tel ég vera hinn alvarlega galla frv. auk þess sem að öðru leyti er verið að uppfylla hér tilskipanir frá erlendum aðilum, tilskipanir sem passa ekkert við íslenskt umhverfi.