Raforkulög

Fimmtudaginn 30. janúar 2003, kl. 15:03:29 (3249)

2003-01-30 15:03:29# 128. lþ. 69.1 fundur 462. mál: #A raforkulög# (heildarlög, EES-reglur) frv., iðnrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 69. fundur, 128. lþ.

[15:03]

Iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er nú eitt og annað sem ég hef við málflutning hv. þm. að athuga.

Hann segir að það hafi aldrei verið kannað hvort fyrirkomulagið væri gott fyrir okkur, það fyrirkomulag sem við erum að taka upp og þetta væri bara undirlægjuháttur gagnvart Evrópusambandinu. En þá er það nú svo að nefndin sem starfaði 1996 komst að þeirri niðurstöðu að taka bæri upp álíka fyrirkomulag og hér eru uppi tillögur um og þá var þessi tilskipun ekki það sem rak á eftir okkur.

Hv. þm. telur mjög slæmt að það skuli eiga að fjalla um jöfnun á raforkuverði í kerfinu í nefnd og samt er þetta nefnd sem þingflokkur hans kemur til með að eiga aðild að. Mér finnst það því mjög sérkennilegt ef honum finnst það verra að sú nefnd skuli fá það hlutverk að fjalla um þetta mikilvæga málefni. Ríkisstjórnin hefur ákveðið að tekið verði á þessum þætti mála og að séð verði til þess að það bitni ekki á íbúum þeirra landsvæða þar sem byggðin er dreifðust og mesti kostnaðurinn er við dreifinguna. En samt sem áður heldur hv. þm. þessu fram og hver þingmaðurinn á fætur öðrum.

Svo er það að eftirlitsiðnaðurinn muni eflast og að það sé vandamál, það sé mjög slæmt. Og einnig að hvergi sé tekið á þjónustumarkmiðum, en eftirlitið er nú einmitt til þess að þjóna neytandanum. Þannig að þetta rekur sig hvað á annars horn.