Raforkulög

Fimmtudaginn 30. janúar 2003, kl. 15:07:29 (3251)

2003-01-30 15:07:29# 128. lþ. 69.1 fundur 462. mál: #A raforkulög# (heildarlög, EES-reglur) frv., JÁ
[prenta uppsett í dálka] 69. fundur, 128. lþ.

[15:07]

Jóhann Ársælsson:

Hæstv. forseti. Búið er að ræða nokkrum sinnum áður um þau mál sem hér eru til umræðu. Ég hef kvartað undan því í þeim umræðum að hér hafi ekki verið fjallað um hvernig þessi raforkumarkaður á í rauninni að líta út. Ég hef ítrekað óskað eftir því að hæstv. ráðherra þessara mála gerði grein fyrir stefnu ríkisstjórnarinnar hvað þetta varðar og þá er ég að tala um eignarhaldið á þeim fyrirtækjum sem eiga hér aðalhlut að máli eins og sakir standa. Það er nefnilega ekki alveg auðséð að það verði merkilegt samkeppnisumhverfi sem myndast ef menn horfa á þetta eins og það er núna. Við höfum Landsvirkjun sem ríkið á helminginn af, Akureyrarbær 5% og Reykjavíkurborg 45%. Við höfum Rarik sem ríkið á 100% og við höfum Hitaveitu Suðurnesja, ég er ekki viss um hvort ríkið á enn þá í henni, mig minnir að ríkið hafi átt í henni einu sinni (Gripið fram í: Aðeins.) og síðan eru einhver smærri fyrirtæki, Norðurorka og fleiri, sem menn hafa séð einhvers staðar inni í framtíðinni að gætu eitthvað unnið á þessum markaði.

Ég ætla ekki að spyrja um smærri fyrirtækin. Það þarf auðvitað að svara því hvernig menn ætla að fara með eignarhaldið í þeim stóru. Það mun náttúrlega ekki ganga að risarnir á þessum markaði séu í eigu Reykjavíkurborgar og ríkisins. Menn verða að spila því einhvern tímann út í umræðunni hvernig eigi að standa að því að gera breytingar á þessu og þar getur eignarhaldið á Rarik líka spilað stóra rullu.

Landsvirkjun er sérstakt vandamál og eignarhaldið á henni, einfaldlega vegna þess að þar hafa stjórnvöld á Íslandi komið sér upp mjög sérkennilegu vandamáli. Þar eru Reykjavíkurborg og Akureyrarbær með eignarhald ein allra sveitarfélaga. Landsvirkjun er ekkert venjulegt fyrirtæki. Landsvirkjun hefur haft aðgang og einkaeinokun á því að nýta orkulindirnar sem hún hefur fengið með lögum frá Alþingi, leyfi til þess að virkja. Og ekki bara það, þetta fyrirtæki hefur ekki borgað skatta en eigendurnir hafa verið að safna eignum inni í þessu fyrirtæki. Og eigendurnir eru af tvennu tagi: Annars vegar er það ríkið eða við öll sameiginlega og það hefur ekki snarast á merinni gagnvart því að eiga þar inni. En þegar kemur að því að velta fyrir sér hvernig eignarhald Reykjavíkurborgar og Akureyrarbæjar hefur orðið til á þeim miklu verðmætum sem eru í því fyrirtæki, þá hljóta menn auðvitað að doka við og velta fyrir sér hvort þetta geti bara gengið að tveimur bæjarfélögum í landinu sé skapaður þessi möguleiki. Síðan má líka spyrja: Hversu mikið hafa þessi bæjarfélög lagt til?

Ég lagði fram fyrirspurn á árinu 2000 og fékk svar við henni á hv. Alþingi þar sem m.a. kom fram að frá 1965 og til 1983 var Landsvirkjun í helmingseigu ríkis og Reykjavíkurborgar. Í upphafi lögðu eigendurnir, þ.e. ríkið, fram eignarhlut í Sogsvirkjun, vatnsréttindi þar og vatnsréttindi í Þjórsá og undirbúningskostnað vegna Búrfellsvirkjunar. Reykjavíkurborg lagði fram Sogsvirkjun ásamt vatnsréttindum, einhverfilsstöð borgarinnar við Elliðaár og spennistöð ásamt tilheyrandi lóðum. Það var sem sagt litið á þetta sem jöfn framlög frá ríki og Reykjavíkurborg. Síðan lögðu þessir eigendur fram fé til Landsvirkjunar á árunum 1966--1980 til að styrkja eiginfjárstöðu fyrirtækisins. Það er síðan 1983 að Akureyrarbær verður eignaraðili að Landsvirkjun og leggur þar inn hlut sinn í Laxárvirkjun, sem ríkið átti reyndar 35% hlut í líka, og allt þetta er samantekið á árinu 2000 og talið vera ásamt endurmetnum eiginfjárframlögum 16,7 milljarðar kr.

Landsvirkjun er nú talin vera býsna miklu meira virði en þetta, en þessir þrír aðilar eiga Landsvirkjun samanlagt 100%. Síðan hefur verið greitt frá þessu fyrirtæki til eigendanna. Landsvirkjun greiddi eigendum sínum árlega arð á árunum 1986--1991 og þær greiðslur voru á verðlagi í september árið 2000 675 millj. kr. og í samræmi við eigendasamkomulag sem gert var í október 1996 var farið að reikna eigendum árlegan arð upp á 5,5% af eigin fé, algjörlega burt séð frá því hvort hagnaður væri af rekstri Landsvirkjunar. Þeim arði hefur ýmist verið bætt við sem reiknað eigið framlag eða greitt út til eigendanna. Af þessum fjármunum hefur verið greiddur út tæpur milljarður, 959 millj. á verðlagi ársins 2000, en hinu hefur verið bætt við eigendaframlögin. Samtals nemur útgreiddur arður á árunum 1986--2000 1.634 millj.

Mér verður nú á að draga í efa að eigendurnir sitji uppi með miklar skuldir vegna eiginfjárframlaga til Landsvirkjunar. Ég held að Landsvirkjun hafi í raun og veru verið rekin frá upphafi nánast á lánum og staðið undir því sem hún hefur verið að framkvæma og rekstri sínum með þeim og arði af sölu á rafmagni.

[15:15]

Síðan hefur Landsvirkjun greitt ábyrgðargjald vegna þeirra lána sem eigendur eru í ábyrgð fyrir. Það er greitt til ríkisins samkvæmt lögum en stjórn Landsvirkjunar ákvað síðan að greiða Reykjavíkurborg og Akureyrarbæ hliðstætt gjald. Samtals hafa greiðslur ábyrgðargjaldsins verið 1,5 milljarðar kr. á verðlagi ársins 2000.

Ég ræði þetta hér vegna þess að ég sé fulla ástæðu til þess að vekja athygli á því enn einu sinni að stjórnvöld hafa ekki lagt í þá göngu að fara að skoða hvernig ríkið eigi að leysa sig út úr þessu vandamáli sem eignarhald Reykjavíkurborgar og Akureyrar á Landsvirkjun er. Ef það á að fara í þessa endurskipulagningu á raforkumarkaðnum er nú tækifæri til að taka á þessu máli. Og auðvitað á að taka á því með því að semja um að þessir aðilar hverfi út sem eigendur að Landsvirkjun. Ég sé engan annan kost í þessu máli en að Landsvirkjun verði alfarið í eigu ríkisins og að eignarhlutur Akureyrarbæjar og Reykjavíkur verði fluttur yfir í önnur fyrirtæki á orkusviði.

Mér finnst alveg með eindæmum að svona stórt mál, sem er bókstaflega hluti af þessu raforkumáli sem hér er verið að ræða, skuli ekki fást rætt með neinu móti, ekki einu sinni stuna um það hvaða stefnu stjórnvöld hafa í málinu, hvernig eigi að taka á þessu. Ef það á að marka það með einhverju móti hlýtur niðurstaðan að vera sú að það eigi ekkert að gera í þessu, að Reykjavíkurborg og Akureyri eigi bara að eiga áfram helminginn í Landsvirkjun. Að Reykjavíkurborg skuli svo geta verið í þessari svokölluðu samkeppni, eigandi Orkuveitu Reykjavíkur með einhverjum lítils háttar eignarhlut annarra aðila, ríkið eigi Landsvirkjun að hálfu og Rarik að fullu. Mér finnst það vera óvirðing við lýðræðislega umræðu að menn skuli ekki vilja sýna á spilin sín í þessum málum, að stjórnvöld skuli ekki bera meiri virðingu fyrir umræðunni sem fer fram um svo mikilsverð mál sem þessi en að þau láti sig hafa það að koma með mál af þessu tagi hvað eftir annað inn í umræðuna án þess að skýra frá því hvaða afstöðu þau hafi til stórra mála eins og þessara hér.

Nú er verið að fresta hluta af þessu máli og ég ætla svo sem ekki að fjalla mikið um það meira. Ég vísa til þess sem fulltrúi Samfylkingarinnar, hv. þm. Svanfríður Inga Jónasdóttir, sagði hér í morgun. Eitt langaði mig samt að spyrja um vegna þess að það stakk mig svolítið í texta athugasemdanna við frv. Hér stendur á einum stað, með leyfi forseta:

,,Aðskilnaður samkeppnis- og einokunarþátta er þar höfuðatriði. Í tengslum við slíkar skipulagsbreytingar mælir jafnframt margt með því að hlutafélagsformið taki við af núverandi rekstrarformi. Þannig væri meðal annars unnt að draga úr áhættu hins opinbera af fjárfestingu í orkuvinnslu vegna stóriðju.``

Og nú verður mér á að spyrja hæstv. ráðherra hvort hún telji að ef þetta frv. hefði verið orðið að veruleika, eins og til stóð, og Landsvirkjun orðin að hlutafélagi, eins og til stóð fyrir margt löngu, hefði þá nokkurn tíma getað orðið af hinum stóru áformum hæstv. ráðherra um að virkja við Kárahnjúka.