Raforkulög

Fimmtudaginn 30. janúar 2003, kl. 15:20:55 (3252)

2003-01-30 15:20:55# 128. lþ. 69.1 fundur 462. mál: #A raforkulög# (heildarlög, EES-reglur) frv., SJS
[prenta uppsett í dálka] 69. fundur, 128. lþ.

[15:20]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Það hefði verið ákaflega fróðlegt að fá að heyra svör hæstv. iðnrh. einmitt við spurningum síðasta ræðumanns, ekki síst þeirri síðustu: Hver væri staðan í þessum miklu ríkisframkvæmdum, þessum gríðarlega ríkissósíalisma sem nú er tíðkaður á Íslandi, að knýja fram með opinberum tilstyrk og niðurgreiðslum þessar stóriðjuframkvæmdir bæði eystra og syðra, ef þetta nýja umhverfi væri komið til sögunnar og allt væri þá rétt gefið í þeim efnum? Það væri mjög fróðlegt að heyra hæstv. ráðherra reyna að draga hér upp fyrir okkur það landslag sem hæstv. ráðherra sér fyrir sér að gæti orðið að þessu leyti.

Ég þykist ráða það af ýmsu sem við hefur borið á undanförnum mánuðum og missirum í þessum efnum að það sé talsvert ,,haltu mér, slepptu mér``-ástand í þessum efnum hjá hæstv. ráðherra og í hæstv. ríkisstjórn. Annars vegar og í orði kveðnu tala menn um að nú eigi að innleiða frjálsa samkeppni og færa þetta yfir í venjulegan fyrirtækjarekstur og allt það. Hins vegar vilja menn auðvitað geta knúið hlutina áfram með tilstyrk og í krafti opinberrar eignar. Ráðherra er með hugmyndir um að flytja Rarik norður í land, sem getur verið hið besta mál, og jafnvel að slá saman Orkubúi Vestfjarða, Rarik og þess vegna að heimamenn fái að leggja sín fyrirtæki í púkkið, Norðurorku eða hvað það nú er. En þetta gerir ráðherrann auðvitað ekki nema í krafti þess að um opinber fyrirtæki er að ræða sem hægt er að skipa fyrir verkum og menn hafa yfir að segja. En það er ekki alltaf bæði hægt að sleppa og halda, það er nefnilega mikill misskilningur, að vísu útbreiddur og alveg sérstaklega hjá framsóknarmönnum sem eru, eins og kunnugt er, mjög mikið í því að segja bæði já já og nei nei, að það sé hægt að vera bæði með og á móti hlutunum, í einni og sömu setningunni jafnvel.

Hvernig sér hæstv. ráðherra þetta landslag fyrir sér? Ég hef oft velt því upp í umræðum á undanförnum árum að menn ættu að nota tækifærið á meðan þeir hefðu á því full tök, meðan orkufyrirtækin væru í opinberri eigu, meðan þau hefðu einkarétt og einkaleyfi á sínum sviðum, til að knýja fram þá skipulagsbreytingu í þessum efnum sem menn sæju fyrir sér, vildu ná fram og teldu hagstæða.

Ég held t.d. að það hefði mátt fyrir lifandis löngu skoða jafnvel spurninguna um sameiningu Landsvirkjunar og Rafmagnsveitna ríkisins, e.t.v. þó þannig að sú sameining yrði á grunni tveggja fyrirtækja. Annars vegar væri fyrirtæki sem framleiddi, og þá væru lagðar í púkkið þó þær virkjanir sem Rafmagnsveitur ríkisins eiga enn þá og hafa jafnvel verið að kaupa á undanförnum árum, og hins vegar væri stofnað eitt opinbert fyrirtæki um dreifinguna. Þá hefðu menn t.d. verið betur undir það búnir að taka á sig þessa skipulagsbreytingu sem orkutilskipun Evrópusambandsins sjálfkrafa kveður á um.

Þetta fyrirkomulag hef ég staldrað við, í og með vegna þess að ég held að það hefði verið hagfelldara fyrir landsmenn og ekki síst landsbyggðina en núverandi ástand.

Hinn kosturinn sem ég sæi væri öflug, svæðisbundin orkufyrirtæki, Orkubú Norðurlands, Orkubú Vestfjarða o.s.frv., sem sagt öflug fyrirtæki sem bæði framleiddu og dreifðu rafmagninu á sínum svæðum. Það þyrfti ekki að hindra að orkumarkaðurinn væri samtengdur og það væri tiltölulega einfalt mál að skipuleggja það ef um t.d. tvö til fjögur meginfyrirtæki að þessu leyti hefði verið að ræða.

Best væri að mínu mati að kljúfa Landsvirkjun upp, skilja frá henni minni virkjanirnar sem framleiða fyrir almenna notendamarkaðinn og hafa stóriðjuna í einu fyrirtæki. Þá væri í eitt skipti fyrir öll loku fyrir það skotið að almenningur niðurgreiddi rafmagnið í erlenda auðhringa, og hefði auðvitað frá byrjun átt að standa þannig að málum, að sjálfstæð orkufyrirtæki, óháð öðrum, framleiddu þá fyrir stórnotendurna.

Skipulagsbreytingar af þessu tagi væri enn hægt að gera. En það verður að sjálfsögðu ekki ef búið verður að líberalísera orkumarkaðinn og þetta verður að einhverju leyti orðið einkavætt og komið úr höndum opinberra aðila. Þá eru menn komnir út á nýsjálensku, bandarísku, bresku brautina. Og hver veit hvaða nibbur eiga eftir að hrufla á mönnum búkinn á þeirri leið niður brekkuna? Sporin hræða a.m.k. mjög í þeim efnum, herra forseti.

Síðan ætla ég ekki að falla í sömu gryfju og síðast, herra forseti, og eyða öllum ræðutíma mínum áður en ég kem aðeins betur að óskabarninu Landsvirkjun. Ég er hérna nefnilega með ársskýrslu fyrirtækisins í höndunum, þetta glæsilega rit um þjóðminjar og umhverfisvernd sem vekur auðvitað aðdáun þeirra sem það skoða í svona fallegri kápu, gott ef það er ekki Valþjófsstaðarhurðin hérna á forsíðunni, herra forseti, það skyldi þó ekki vera? Og hér eru merkir útskornir kistlar og fleira í þessum dúr. Manni gæti fyrst dottið í hug rit frá Þjóðminjasafninu ef maður fengi þetta svona óforvarandis upp í hendur. Síðan kemur hér glæsileg umfjöllun um umhverfismál, það er næstmesta forgangsatriði Landsvirkjunar í skýrslunni, umhverfismálin, grænt bókhald og vistferilgreining. Það er ákaflega áhugavert og lofsvert að Landsvirkjun skuli sinna þessu svona. Hún hefur gert skoðanakönnun, annars vegar meðal starfsmanna sinna og hins vegar landsmanna, um áhuga á umhverfismálum. Það er ákaflega upplýsandi hvað starfsfólk Landsvirkjunar er áhugasamt um umhverfismál, og þakka ber það. Og ekki efa ég það að í hópi starfsmanna Landsvirkjunar eru mjög margir góðir og sanntrúaðir umhverfisverndarsinnar.

Það er samt stefna fyrirtækisins, ákvarðanir forstjóra þess og stjórnar, sem skiptir máli, í takt við ríkisstjórnina í landinu. Og hvað er Landsvirkjun að gera --- þvert á bæklingana um þjóðminjar og umhverfisvernd? Jú, berjast fyrir því að fá virkjun sem sökkvir yfir 100 merkum fornleifum á Austurlandi, berjast fyrir því að reisa virkjanir sem raska við þremur friðlöndum, ef marka má fréttir morgunsins. Þetta er það sem menn eru að gera í reynd, og þá gef ég lítið fyrir glanspappírana um þjóðminja- og umhverfisáhuga. Verkin sýna merkin. Það þýðir ekki fyrir Landsvirkjun, hvorki forstjóra hennar, stjórnarformann né aðra sem þar ráða ferðinni, að sáldra um sig peningum, okkar peningum, skattborgaranna og þeirra sem kaupa raforku í landinu, og reyna að kaupa sér þannig góðvild og fegra á sér andlitið fyrir nokkra tugi milljóna króna á hverju ári. Það fellur um sjálft sig þegar framganga þessa fyrirtækis er skoðuð. Og ég a.m.k. fyrir einn mann læt ekki bjóða mér að gjörningar Landsvirkjunar séu eitthvað betri þó að svona rit komi út, og þó að þeir leggi aur og aur af allsnægtaborði sínu til góðra málefna, sem getur verið þarft og gilt í sjálfu sér. Það breytir samt engu um það að þetta fyrirtæki gengur núna fram af manni, gengur algerlega fram af manni, í því til hvers það ætlast af hálfu Alþingis, ríkisstjórnar og náttúruverndaraðila í landinu, að fara inn í hvert friðlýsta svæðið á fætur öðru til þess að hefja þar umrót og rask með það í huga að reisa þar virkjanir og valda í sumum tilvikum umtalsverðum, óafturkræfum og neikvæðum umhverfisáhrifum. Það er hinn eiginlegi veruleiki sem við verðum að horfast í augu við.

Ég verð alveg að segja það, herra forseti, eins og er að ég hefði látið segja mér það tvisvar ef ekki þrisvar eða oftar að þeir tímar ættu eftir að renna upp, á 21. öldinni, að hvert svæðið á fætur öðru sem þó var orðin samstaða um að friðlýsa fyrir 20--25 árum yrði undirlagt af virkjanaáformum þegar hingað væri komið, að við værum að fara þetta mörg ár og þetta marga áratugi aftur á bak en ekki áfram í umhverfismálum á Íslandi. Sá er engu að síður veruleikinn. Sú er staðan hér þegar menn eru víðast hvar annars staðar að klára dæmið á hinn veginn, ákveða það eins og í Noregi og Svíþjóð að nú verði ekki hróflað frekar við vatnsföllum og náttúruperlum af því tagi.

Herra forseti. Ég held að það dugi ekki annað en að ræða þessa hluti alla í sameiningu. Mér sýnist að hv. þingnefnd hafi ærinn starfa að fara yfir þessi mál áður en þau verða tiltæk til afgreiðslu.