Raforkulög

Fimmtudaginn 30. janúar 2003, kl. 16:06:53 (3257)

2003-01-30 16:06:53# 128. lþ. 69.1 fundur 462. mál: #A raforkulög# (heildarlög, EES-reglur) frv., iðnrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 69. fundur, 128. lþ.

[16:06]

Iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (andsvar):

Hæstv. forseti. Í sambandi við orkuverðið þá verður landinu skipt í gjaldskrársvæði og það verður sama verð innan hvers gjaldskrársvæðis fyrir sig. En eins og hv. þm. nefndi réttilega í ræðu sinni er ekki hægt að ákveða það fyrir fram að það verði nákvæmlega sama verð um allt land, enda er náttúrlega langt frá því að svo sé í dag. Hins vegar er ákvæði þess efnis að sama verð verði innan hvers gjaldskrársvæðis fyrir sig.

Samráð hefur verið haft við orkufyrirtækin í landinu sem eiga nokkuð mikilla hagsmuna að gæta, auk þess sem þetta mál hefur náttúrlega farið mjög víða til umsagnar, bæði af hálfu Alþingis og eins ráðuneytis. Sú grundvallarhugsun sem kom fram í þáltill. sem hér var rædd, þó að hún væri ekki afgreidd, og sú umræða var náttúrlega mjög stefnumótandi í þessu máli öllu. Þar komu þeir þingflokkar að sem áttu þá fulltrúa á Alþingi og umræðan fór hér fram og nefndin skilaði niðurstöðu og áliti þó að málið fengi ekki afgreiðslu þingsins. Sú umfjöllun og niðurstaða var höfð að leiðarljósi í áframhaldandi starfi.