Staðlar og Staðlaráð Íslands

Fimmtudaginn 30. janúar 2003, kl. 16:14:23 (3262)

2003-01-30 16:14:23# 128. lþ. 69.3 fundur 461. mál: #A staðlar og Staðlaráð Íslands# (heildarlög) frv., iðnrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 69. fundur, 128. lþ.

[16:14]

Iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir):

Hæstv. forseti. Ég mæli sem iðnrh. fyrir frv. til laga um staðla og Staðlaráð Íslands. Frumvarp þetta byggir á lögum nr. 97/1992, um staðla. Frá setningu þeirra hefur framkvæmd staðlasetningar og innviðir staðlastarfsins á Íslandi þróast og er ástæða til að festa áorðnar breytingar í sessi með lögum.

Meginatriði laganna frá 1992 haldast óbreytt en á Staðlaráð Íslands eru aftur á móti lagðar auknar skyldur og breytingin frá gildandi lögum fjallar að verulegu leyti um hlutverk og starfsemi Staðlaráðsins. Vegna þessa er lagt til að heiti laganna verði lög um staðla og Staðlaráð Íslands og komi þau í stað núverandi laga um staðla.

Staðlar gegna mikilvægu hlutverki við að koma á og viðhalda hindrunarlausum viðskiptum á milli landa. Þar liggur til grundvallar að vísað sé til alþjóðlegra staðla í opinberum stjórnvaldsfyrirmælum fremur en að tilgreina í einstökum atriðum hvaða tæknilegu kröfur skuli gera til vöru og þjónustu. Í þessu sambandi er mikilvægt að leggja áherslu á að staðlar eru ekki samdir af stjórnvöldum, heldur í samvinnu þeirra sem hagsmuna eiga að gæta af stöðlunum og eiga staðlarnir að endurspegla bestu fáanlega þekkingu, fyrirmyndarverklag og framkvæmd að bestu manna yfirsýn.

[16:15]

Þróunin síðustu tíu ár hefur orðið sú að notkun staðla í stað hefðbundinna reglugerða og stjórnvaldsfyrirmæla hefur reynst vel og eru staðlar nú teknir upp á sífellt fleiri sviðum. Þegar um er að ræða tilskipanir Evrópusambandsins er yfirleitt gert ráð fyrir að með því að uppfylla kröfur tiltekinna staðla séu kröfur viðkomandi tilskipunar jafnframt uppfylltar.

Þessi þróun hefur kallað á að hlutverk Staðlaráðs Íslands verði fest betur í sessi en með gildandi lögum um staðla, nr. 97/1992. Í því felst m.a. að það fyrirkomulag sem þróað hefur verið á síðustu tíu árum og reynst hefur best verði nú lögfest og að lög kveði á um skýrt og ótvírætt umboð Staðlaráðs Íslands til að staðfesta alþjóðlega og evrópska staðla sem íslenska staðla og til að annast gerð séríslenskra staðla. Sömuleiðis er nauðsynlegt að kveða á um tilvist fagstaðlaráða. Ljóst þarf að vera hvaða umboð fagstaðlaráðin hafa þar sem þau vinna að því að semja staðla sem munu í sumum tilvikum verða bindandi fyrirmæli.

Nauðsynlegt þykir einnig að kveða nánar á um hvernig rekstri Staðlaráðs skuli háttað þar sem það er opinber vettvangur hagsmunaaðila til að vinna að stöðlun þótt það sé ekki opinber stofnun. Einnig þykir nauðsynlegt að fram komi í lögum með hvaða hætti starfsemi Staðlaráðs skuli fjármögnuð.

Ég hirði ekki um að fjalla um einstakar greinar frv. Að dómi fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins hefur frv. ekki áhrif á útgjöld ríkissjóðs ef það verður óbreytt að lögum. Ég mælist til þess, hæstv. forseti, að frv. verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. iðnn.