Orkustofnun

Fimmtudaginn 30. janúar 2003, kl. 16:18:00 (3263)

2003-01-30 16:18:00# 128. lþ. 69.4 fundur 544. mál: #A Orkustofnun# (heildarlög) frv., iðnrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 69. fundur, 128. lþ.

[16:18]

Iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um Orkustofnun sem er 544. mál þingsins á þskj. 891.

Frv. það til laga um Orkustofnun sem ég mæli hér fyrir felur í sér þær breytingar á núverandi Orkustofnun að rannsóknasvið Orkustofnunar verði lagt niður og sjálfstæð stofnun, Íslenskar orkurannsóknir, taki við hlutverki rannsóknasviðsins. Hefur sérstakt frv. til laga um þá stofnun verið kynnt á þskj. 892. Frv. þetta byggir á niðurstöðum nefndar sem skipuð var af iðnrh. í júní 2001 til að yfirfara skipulag Orkustofnunar með hliðsjón af því aukna stjórnsýsluhlutverki sem stofnuninni hefur verið falið með ákvæðum ýmissa laga á undanförnum árum, svo og væntanlegu auknu stjórnsýsluhlutverki hennar samkvæmt frv. til raforkulaga. Var nefndinni falið að koma með tillögur um framtíðarskipulag stofnunarinnar.

Nefndin skilaði tillögum sínum til ráðherra í maí 2002. Frv. er að mestu leyti byggt á niðurstöðun nefndarinnar eins og nánar er gerð grein fyrir í athugasemdum með frv. Í kjölfarið vann nefndin að gerð þessa lagafrv. og frv. til laga um íslenskar orkurannsóknir.

Þó að í I. kafla orkulaga sé nánast alfarið fjallað um Orkustofnun sem opinbera stjórnsýslustofnun hefur starfsemi stofnunarinnar þróast á þann veg allt frá upphafi að hún hefur meira beinst að orkurannsóknum en stjórnsýslu. Raunar má rekja þessa skipan mála aftur til tíma raforkumálaskrifstofunnar á 6. áratug síðustu aldar, þegar markvissar orkurannsóknir hófust hér á landi. Þá voru hér á landi fáir eða engir aðilar er gátu sinnt þessum rannsóknum og ríkið þurfti því að annast allar helstu rannsóknir á sviði orkumála. Eðlilegast var því að Raforkumálaskrifstofan og síðar Orkustofnun bæru ábyrgð á þessum rannsóknum.

Á síðustu árum hafa margir aðrir aðilar í auknum mæli komið að orkurannsóknum, bæði virkjunaraðilar og ráðgjafastofur. Á sama tíma hefur stjórnsýsluhlutverk stofnunarinnar aukist verulega, m.a. í samræmi við lög um nýtingu og rannsóknir á auðlindum í jörðu og lög um mat á umhverfisáhrifum.

Árið 1997 var gerð sú skipulagsbreyting á Orkustofnun að rannsóknahluti stofnunarinnar og stjórnsýsluhluti hennar voru rekstrarlega aðskildir til að tryggja að starfsemi stofnunarinnar væri í samræmi við samkeppnislög. Þær breytingar sem nú eru lagðar til eru í raun eðlilegt framhald þeirra breytinga.

Í skýrslu nefndarinnar sem undirbjó lagafrv. þetta er komist að þeirri niðurstöðu að hagsmunaárekstrar geti orðið í starfsemi Orkustofnunar vegna verkefna sem henni eru falin í gildandi lögum. Hagsmunaárekstrarnir felist í því að rannsóknasvið stofnunarinnar veiti á ákveðnu stigi þjónustu og komi að mótun verkefnis sem orkumálasvið stofnunarinnar geti á seinni stigum þurft að veita stjórnvöldum umsögn um. Nefndin telur að í þessu sambandi vakni spurning hvort starfsmenn orkumálasviðs geti talist óhlutdrægir til að veita umsögn um störf samstarfsmanna sinna á rannsóknasviði.

Telur nefndin að hagsmunaárekstrar sem þessir geti einkum komið upp vegna jarðhitanýtingar en bein ráðgjöf varðandi vatnsorku sé nær engin orðin. Þá geti starf vatnamælinga Orkustofnunar eins og þær eru reknar nú leitt til ákveðinna árekstra, sem þó séu ekki eins alvarlegir og þeir sem vikið var að hér að framan. Ekki kæmi til þess að endurmeta þyrfti ráðgjöf eða mat stofnunarinnar. Af þeim sökum kemur almennt ekki til slíkra hagsmunaárekstra sem vert sé að hafa áhyggjur af.

Til viðbótar við ofangreinda mögulega hagsmunaárekstra benti nefndin á að valdheimildir Orkustofnunar, samkvæmt frv. til nýrra raforkulaga, munu aukast verulega. Er Orkustofnun samkvæmt frv. falið eftirlit með öllum þáttum á raforkumarkaði, þ.e. vinnslu, flutningi, dreifingu og sölu. Þá er Orkustofnun ætlað, samkvæmt ákvæðum raforkulagafrv., að setja flutnings- og dreifiveitum árlega ákveðin tekjumörk. Er við því að búast að hugsanlegir hagsmunaárekstrar komi skýrt upp á yfirborðið þegar samkeppni hefur verið komið á á milli framleiðenda og seljenda raforku.

Með frv. þessu er verið að bregðast við framangreindum hagsmunaárekstrum en jafnframt gefa breytingarnar tækifæri til að fela Orkustofnun frekari verkefni á stjórnsýslusviði, sem nú eru unnin í ráðuneytinu. Það stuðlar að betri stjórnsýslu, m.a. vegna þess að ákvarðanir Orkustofnunar verða kæranlegar til æðra stjórnsýslustigs.

Við gerð frv. var gengið út frá því meginsjónarmiði að rétt væri að skilja Orkustofnun í tvær stofnanir, þannig að núverandi rannsóknasvið tilheyrði annarri, þ.e. stjórnsýslustofnuninni Orkustofnun, en núverandi orkurannsóknahluti tilheyri hinni, þ.e. Íslenskum orkurannsóknum.

Skoðað var hvort heppilegra væri að vatnamælingar tilheyrðu stjórnsýsluhlutanum eða rannsóknahlutanum. Að mati nefndarinnar var talið að vatnamælingar gætu fylgt hvorri stofnuninni sem var, enda engin sérstök fagleg rök fyrir því að hafa vatnamælingar og rannsóknasviðið saman í einni stofnun. Þá voru þau sjónarmið rædd við gerð frv. hvort til greina kæmi að vatnamælingar yrðu gerðar að sérstakri stofnun. Starfsemi vatnamælinga er að mörgu leyti ólík starfsemi rannsóknasviðs og greinir þar helst á milli að rannsóknir vatnamælinga eru einkum öflun grunnupplýsinga, úrvinnslgagna sem ekki eru unnin í samkeppni við aðra aðila.

Það var hins vegar ekki talið tímabært að stofna sérstaka stofnun um vatnamælingar og vatnafarsrannsóknir fyrr en mótuð hafði verið heildarstefna í rannsóknum og vöktun á vatnafari landsins. Með því að láta vatnamælingar fylgja Orkustofnun, eins og hér er lagt til, skapast betra svigrúm til að kanna frekar hvort rétt sé að stuðla að frekari samvinnu þeirra aðila sem starfa á svipuðum vettvangi og hvort rétt sé að sameina starfsemi stofnana sem að vatnafarsrannsóknum koma. Er að því stefnt að sú vinna hefjist innan skamms.

Á grundvelli framangreindra raka er í frv. lagt til að farin verði sú leið að rannsóknasviðið verði skilið frá Orkustofnun og sérstök stofnun, Íslenskar orkurannsóknir, sett á fót til að sinna hlutverki sviðsins.

Herra forseti. Ýmsar aðrar breytingar felast í frumvarpinu og koma þær fram í 6. og 7. gr. Þá er mælt fyrir um rekstur Orkusjóðs og eru ákvæðin að mestu leyti í samræmi við ákvæði núverandi laga um Orkusjóð. Lagt er til að tekjur vegna endurgreiðslukostnaðar af rannsóknum og áætlanagerð renni til Orkustofnunar í stað Orkusjóðs, sbr. 7. gr. frv. Ákvæði í 8. gr. frv. eru að mestu efnislega sambærileg við ákvæði núverandi laga um Orkusjóð.

Hæstv. forseti. Megintillögur þessa frv. er hér liggur fyrir felast samkvæmt framansögðu í eftirfarandi meginatriðum:

Að rannsóknasvið Orkustofnunar verði lagt niður. Samkvæmt frumvarpi til laga um Íslenskar orkurannsóknir mun ný stofnun, Íslenskar orkurannsóknir, sinna þeim verkefnum sem rannsóknasviðið hefur gert.

Að Orkustofnun fari með það hlutverk sem hún hefur að öðru leyti haft auk þess sem hún taki að sér frekara hlutverk eftir því sem mælt verði fyrir um í lögum, reglugerðum eða samkvæmt ákvörðun ráðherra hverju sinni.

Að ekki verði sérstök stjórn yfir Orkustofnun heldur verði sett á fót fagráð, Orkuráð, sem verði Orkustofnun til ráðgjafar í vissum málum.

Lög um Orkusjóð verði felld úr gildi en Orkustofnun annist umsýslu Orkusjóðs. Þeir fjármunir sem nú renna í Orkusjóð samkvæmt fjárlögum og lögum um Orkusjóð renni til Orkustofnunar.

Með þessu frv. er í raun aðeins verið að staðfesta ákveðna þróun í stjórnsýslu orkumála og í orkurannsóknum sem orðið hefur á undanförnum árum. Þær breytingar er felast í þessu frv. eru í sjálfu sér ekki róttækar heldur öllu heldur eðlileg afleiðing af breyttum tímum sem vonandi verða öllum til heilla.

Hæstv. forseti. Ég mælist til þess að að lokinni 1. umr. verði málinu vísað til 2. umr. og hv. iðnn.