Vátryggingastarfsemi

Fimmtudaginn 30. janúar 2003, kl. 16:56:33 (3274)

2003-01-30 16:56:33# 128. lþ. 69.10 fundur 485. mál: #A vátryggingastarfsemi# (ökutækjatryggingar, EES-reglur) frv., viðskrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 69. fundur, 128. lþ.

[16:56]

Viðskiptaráðherra (Valgerður Sverrisdóttir):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breyting á lögum um vátryggingastarfsemi, nr. 60/1994, með síðari breytingum. Það er 485. mál þingsins á þskj. 797.

Eins og fram kemur í athugasemdum við frv. er megintilgangur þess að lögfesta ákvæði tilskipunar nr. 2000/26/EB, um samræmingu á lögum aðildarríkjanna um ábyrgðartryggingu vegna notkunar vélknúinna ökutækja, svonefnda fjórðu tilskipun um ökutækjatryggingar. Frv. felur einnig í sér breytingar til samræmis við ákvæði Vaduz-samningsins á milli EFTA-ríkjanna, sem öðlaðist gildi 1. júní 2002.

Frv. er lagt fram sem fylgifrumvarp með frv. dómsmálaráðherra til breytinga á umferðarlögum, nr. 50/1987, mál nr. 489 á þskj. 805. Í frv. þessu er lagt til að félag sem sækir um starfsleyfi vátryggingafélags og ætlar að taka að sér ábyrgðartryggingu ökutækja skuli leggja fram tilteknar staðfestingar, í fyrsta lagi staðfestingu á aðild að Alþjóðlegum bifreiðatryggingum á Íslandi sf. Ekki er hér um nýjung að ræða því að öll vátryggingafélög sem taka að sér lögmæltar ábyrgðartryggingar eru aðilar og byggist sú aðild nú á reglugerð nr. 556/1993, um lögmæltar ökutækjatryggingar.

Í öðru lagi skal leggja fram staðfestingu á þátttöku í starfsemi tjónsuppgjörsaðila og upplýsingamiðstöðvar samkvæmt umferðarlögum. Er hlutverk þessara stofnana skilgreint í umferðarlögum.

Loks skal í þriðja lagi leggja fram upplýsingar um tjónsuppgjörsfulltrúa í sérhverju EES-ríki eða EFTA-ríki. Hlutverk tjónsuppgjörsfulltrúa er að safna saman öllum nauðsynlegum upplýsingum í tengslum við kröfur vegna slysa og gera viðeigandi ráðstafanir til gera upp kröfur fyrir hönd vátryggingafélags og á kostnað þess, þar á meðal skaðabætur.

Eiga þessi skilyrði enn fremur við um vátryggingafélag með aðalstöðvar á EES-svæðinu eða EFTA-ríki sem hyggst stofnsetja útibú hér á landi eða veita hér þjónustu án starfsstöðvar.

Hæstv. forseti. Ég legg til að frv. verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. efh.- og viðskn.