Verndun búsetu og menningarlandslags í Árneshreppi

Fimmtudaginn 30. janúar 2003, kl. 17:24:05 (3279)

2003-01-30 17:24:05# 128. lþ. 69.15 fundur 55. mál: #A verndun búsetu og menningarlandslags í Árneshreppi# þál., Flm. EKG (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 69. fundur, 128. lþ.

[17:24]

Flm. (Einar K. Guðfinnsson):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir tillögu til þál. um aðgerðir til verndunar búsetu og menningarlandslags í Árneshreppi. Aðrir flutningsmenn að málinu eru hv. þm. Karl V. Matthíasson, Kristinn H. Gunnarsson, Guðjón A. Kristjánsson og Einar Oddur Kristjánsson, við fimm þingmenn Vestfjarðakjördæmis sem nú brátt líður undir lok.

Tillögugreinin er svohljóðandi:

,,Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að setja á stofn nefnd er vinni að gerð tillagna um aðgerðir til verndunar búsetu og menningarlandslags í Árneshreppi í Strandasýslu á grundvelli samþykktar norrænu ráðherranefndarinnar frá 12. nóvember 1996 og leita eftir víðtæku samstarfi heimamanna og félagasamtaka í þeim tilgangi.``

Hugmyndin að þessu máli er í raun og veru komin frá Landvernd og heimamönnum í Árneshreppi á Ströndum. Þannig er að Landvernd fór að huga að þessum málum í kjölfarið á því að norræna ráðherranefndin mun hafa samþykkt ályktun í þessa veru og það varð niðurstaða þeirra aðila sem skoðuðu málið að skynsamlegast væri að horfa sérstaklega til Árneshrepps í Strandasýslu til að vinna að þessu máli.

Þjóðfélag sem á samfélag á borð við Árneshrepp í Strandasýslu er auðugt, eins og fram kemur í greinargerðinni. Sveitarfélagið hefur mikla sérstöðu hér á landi vegna landfræðilegrar legu meðal annars. Sauðfjárrækt er ráðandi atvinnugrein, en síðustu árin hefur þess verið freistað að skjóta öðrum stoðum undir atvinnulífið. Allnokkur útgerð smábáta er stunduð frá Norðurfirði og ferðamannastraumur um Árneshrepp hefur vaxið að undanförnu.

Þrátt fyrir þetta hefur byggðin átt undir högg að sækja og brýnt er að mati okkar flutningsmanna að snúa þeirri þróun við og treysta byggð í Árneshreppi. Í því skyni þarf að styrkja forsendur hennar og er mikilvægt í því sambandi að íbúarnir fái notið staðarkostanna og menn viðurkenni sérstöðu þessa byggðarlags sem augljóslega er til staðar og þarf í sjálfu sér ekki að hafa mörg orð um það.

Þessi mál voru mjög rædd á afar athyglisverðri ráðstefnu sem haldin var norður í Árneshreppi 17.--18. mars árið 2001 og þar sem undirritaður var meðal annarra þátttakenda. Þessi mál fengu þar góðar viðtökur og heimamenn höfðu á þessu máli mikinn áhuga. Þessi hugmynd hljómar kannski dálítið framandi í upphafi en þegar maður skoðar hana betur er ég þeirrar skoðunar að hún sé fyllilega þess virði að við skoðum hana í því skyni að reyna að treysta byggðina í Árneshreppi, sem er markmiðið að baki þessari tillögu.

Það fór ekkert á milli mála á þessari skemmtilegu og athyglisverðu ráðstefnu í Árneshreppi að íbúarnir margir horfðu mjög til þessa. Menn hafa horft með nokkrum ugg til aðstæðna. Við vitum að landfræðilega er þessi sveit einangruð. Hún hefur hins vegar sína möguleika og þeir möguleikar byggja fyrst og fremst á því að byggðin sé efld á forsendum byggðarinnar sjálfrar. Það er auðvitað til staðar einstæð menning og þekking og reynsla sem þarna er til en hvergi annars staðar í landinu. Þess vegna er ég þeirrar skoðunar að það eigi að vera ein af skyldum okkar að verja þetta m.a. með þeirri menningarlegu og sérstöku skírskotun sem þetta byggðarlag hefur.

Það hefur vissulega verið ýmislegt gert til að reyna að treysta forsendur byggðarinnar þó að okkur sé ljóst að hinar þjóðfélagslegu aðstæður hafa á margan hátt verið andsnúnar byggðarlagi eins og þessu, þær þjóðfélagslegu aðstæður sem krefjast þess að fólk hafi mjög rúmt aðgengi að menningu, þjónustu og öðru slíku. En engu að síður er ljóst að fólk sem kýs sér búsetu við þessar aðstæður gerir aðrar kröfur. Við eigum auðvitað sem þjóðfélag, sem samfélag að reyna að mæta þeim kröfum með öllum tiltækum ráðum.

Virðulegi forseti. Ég hef átt mjög mikið samstarf við íbúa Árneshrepps frá því að ég var kosinn alþingismaður árið 1991 og kynntist reyndar hreppsbúum vel fyrir þann tíma. Ég get ekki annað en látið það koma fram að hæverskara fólk er varla hægt að hugsa sér eða fólk sem gerir minni kröfur til samfélagsins. Það gerir að vísu þær kröfur að hafa möguleika á aðgengi með samgöngum, sem er auðvitað sjálfsagður hlutur, en að öðru leyti eru kröfur þess til samfélagsins afar hógværar. En hins vegar hefur þetta samfélag mikið upp á að bjóða fyrir okkur aðra íbúa landsins og við erum ríkt þjóðfélag sem á að sjálfsögðu að verja þessa mikilsverðu byggð sem skiptir okkur svo miklu máli.

Ég vek athygli á þeim hluta grg. þar sem vísað var til röksemdafærslu Landverndar sem lagði til að ,,ríkisvaldið ákvæði að gera 5--10 ára tilraun í Árneshreppi til að styrkja búsetu á jaðarsvæði með raunhæfum aðgerðum í samræmi við samþykkt norrænu ráðherranefndarinnar og Norðurlandaráðs. Það yrði gert með þeim hætti að íbúar Árneshrepps skyldu spurðir, hvað ríkisvaldið gæti gert til að fá þá fram til samstarfs við að varðveita þennan menningararf með gróandi mannlíf í byggðarlaginu.``

Þetta er ívitnun í ræðu Jóns Helgasonar, fyrrv. alþingismanns og þáverandi formanns Landverndar, en hann hefur sýnt þessu máli mikinn áhuga og gefið því góðan gaum.

Ég held, virðulegi forseti, að í sjálfu sér þurfi ekki að hafa mörg orð um þetta. Ég trúi því og treysti að um þetta máli geti orðið breið pólitísk samstaða.

[17:30]

Að þessu máli standa, eins og ég sagði í upphafi, allir þingmenn Vestfjarðakjördæmis. Ég held að það sé engin tilviljun. Okkur er kannski betur ljóst en mörgum öðrum mikilvægi þessarar byggðar, þýðing hennar og sérstaða sem hægt væri að hafa mörg orð um. Hins vegar ljóst að að þessu máli þurfa að koma fleiri en einn og fleiri en tveir, t.d. ýmis ráðuneyti. Það væri ekki einfalt mál í sjálfu sér að vinna þetta mál upp frá svona rótum eins ráðuneytis. Þetta er mál sem höfðar til starfsemi ýmissa ráðuneyta, bæði atvinnuvegaráðuneyta, umhverfisráðuneytisins, félagsmálaráðuneytisins og e.t.v. fleiri aðila og síðast en ekki síst heimamanna sjálfra.

Ég held, virðulegi forseti, að skynsamlegast sé að vinna þessi mál eins og hér er verið að leggja til, að sett verði nefnd sem vinni að gerð tillagna um þessar aðgerðir á grundvelli þeirra sjónarmiða sem ég hef lauslega gert grein fyrir. Þau eru nánar rakin hér í greinargerð og tveimur fylgiskjölum.

Virðulegi forseti. Ég þarf í sjálfu sér ekki að hafa fleiri orð um þetta en vænti þess að þetta mál geti í friði og spekt verið samþykkt hér á Alþingi og hafist verði handa við að móta stefnu um þetta þýðingarmikla mál fyrir þetta sveitarfélag og að mínu mati fyrir þjóðfélagið allt.