Verndun búsetu og menningarlandslags í Árneshreppi

Fimmtudaginn 30. janúar 2003, kl. 17:31:57 (3280)

2003-01-30 17:31:57# 128. lþ. 69.15 fundur 55. mál: #A verndun búsetu og menningarlandslags í Árneshreppi# þál., GAK
[prenta uppsett í dálka] 69. fundur, 128. lþ.

[17:31]

Guðjón A. Kristjánsson:

Herra forseti. Hér erum við þingmenn Vestfirðinga að hreyfa afar þörfu máli, þ.e. því að nú verði gert sérstakt átak í að efla byggð í Árneshreppi á Ströndum. Byggðin hefur mikla sérstöðu eins og fram kom hjá hv. 1. flm. Einari K. Guðfinnssyni. Hún hefur líka sérstöðu vegna landfræðilegrar legu. Oft er erfitt um samgöngur þar norður eftir og langt til næstu byggða.

Að mínu viti er þarna jafnframt mikil atvinnusaga sem gæti hreinlega tapast. Ég held að það sé margra verka virði og margra milljóna virði að viðhalda þeirri byggð sem enn þrífst í Árneshreppi á Ströndum. Í framtíðinni verður það talið mikið happaverk ef okkur tekst að tryggja þar búsetu til framtíðar og viðhalda þeirri þekkingu á staðháttum og landfræðilegri þekkingu sem þar eru til staðar.

Við höfum lagt talsverða fjármuni í það á undanförnum árum, bæði beint frá fjárveitinganefnd og Alþingi eða úr sjóðum ráðherra, að styrkja alls konar verkefni sem við höfum einu nafni kallað menningartengda ferðaþjónustu. Þar hafa verið veittir fjármunir í ýmsa þarfa hluti. Við höfum lagt þó nokkra fjármuni í að endurbyggja gömul hús, gömul skip og aðrar minjar í byggðum þar sem búseta hefur í raun brugðist og er lögð af. Þarna eigum við hins vegar samfélag í Árneshreppnum þar sem enn er búið og sagan og fortíðin er þekkt. Ég hvet til þess, herra forseti, að drifið verði í því að vinna eftir þessari ályktun um verndun menningarminjanna og menningararfs norður í Strandasýslu, í þessari sérstöku byggð.

Það er auðvitað alveg hárrétt sem hér kom fram, að Landvernd átti kannski hugmyndina að því að þetta var lagt svona upp eins og hér er verið að fjalla um og kemur fram í fylgiskjölum og ágætlega hefur verið gerð grein fyrir af hv. 1. flm.

Ég tel, herra forseti, að byggð sem lifir við svo sérstæð skilyrði þurfi sérstakra ráðstafana við ef byggðin á ekki að leggjast af. Flest fólk sem þarna býr er orðið mjög fullorðið og ég held að á seinni árum hafi aðeins ein ung fjölskylda sest að í hreppnum. Mér er hins vegar kunnugt um að fólk sem ættað er af þessum slóðum hefur talsverðan áhuga á að geta sest þarna að. Fólk er eðlilega að horfa til tekjuöflunar, hvernig á að koma sér þarna fyrir og af hverju á það að hafa tekjur.

Það er auðvitað svo að hin gömlu hlunnindi, eins og reki og selveiði gefa ekki lengur sömu tekjur og áður, dúntekjan jafnvel ekki heldur. En það eru auðvitað hlunnindi til staðar fyrir utan ströndina, þ.e. fiskveiðar. Það væri mjög auðvelt að efla þetta svæði ef þeir sem þar byggju fengju sérstakan forgang til að nýta fiskimið sín. Ég tel að menn eigi hiklaust að líta til þess. Ég vil auðvitað gera þennan rétt almennan, gera fólki kleift að komast inn í þessa atvinnugrein, jafnt norður í Árneshreppi sem annars staðar. Auðvitað væri það besta leiðin en ef menn ætla að festa sig í þessu kvótakerfi sem hefur unnið gegn byggðinni þá verður að bregða út af reglunum til að viðhalda byggð í Árneshreppi á Ströndum.

Það er alveg ljóst að ungt fólk mun ekki setjast þarna að til að festa sér búsetu ef það getur ekki horft fram á að geta aflað þokkalegra tekna. Ég tel, herra forseti, að þegar eigi að móta þá reglu að bjóða sérstakan flutningsstyrk fyrir að setjast að á þessu svæði. Það mundi örugglega koma best þeim sem eru þaðan ættaðir, þekkja til og eiga e.t.v. möguleika á að fá hluta af bústofni þess fólks sem nú er komið vel við aldur. Með því að gefa mönnum meira frjálsræði til sjávarins væri hægt að ná þarna upp hærri tekjum en menn búa við í dag.

Það sýndi sig vel síðasta sumar hversu auðsótt var til fiskveiða frá Norðurfirði á Ströndum. Ég held að þar hafi verið landað um 1.000 tonnum á sl. sumri af smábátum. Með réttri stjórnun og eðlilegum kjörum fólks af nýtingu þeirra hlunnindi sem liggja að þessum hreppi gæti fólk vissulega haft góðar tekjur þar.

Það er miklu betra, herra forseti, að tryggja að fólk haldi áfram búsetu og þannig verði til það sem við köllum ,,menningartengd ferðaþjónusta``, þ.e. að búsetunni sé viðhaldið, staðarþekking sé til staðar og þeir sem búa á svæðinu geti kynnt fyrir gestunum hvað staðirnir heita, hvaða saga er á bak við þá og kynnt ferðaleiðir. Þetta held ég að séu mikil verðmæti.

Ég tel það mikla afturför ef ekki verður brugðist við fyrr en einhvern tímann eftir að byggðin hefur e.t.v. lagst af, að fara þá að halda til haga gömlum húsum og minjum eftir að fólk hefur þurft að yfirgefa svæðið. Það á að bregðast við til bjargar þessu sérstaka samfélagi með því að gera fólki kleift að lifa þar. Þannig munum við varðveita menninguna best til framtíðar.