Verndun búsetu og menningarlandslags í Árneshreppi

Fimmtudaginn 30. janúar 2003, kl. 17:39:46 (3281)

2003-01-30 17:39:46# 128. lþ. 69.15 fundur 55. mál: #A verndun búsetu og menningarlandslags í Árneshreppi# þál., JB
[prenta uppsett í dálka] 69. fundur, 128. lþ.

[17:39]

Jón Bjarnason:

Herra forseti. Þessi till. hér til þál. um aðgerðir til verndunar búsetu og menningarlandslags í Árneshreppi er sannarlega góðra gjalda verð og gott innlegg inn í umræðuna um búsetu og atvinnulíf í Árneshreppi. Ég fagna þessari tillögu og vona sannarlega að hún verði ekki bara málamyndaplagg eða skúffumatur, heldur grundvöllur að því að gengið verði til einhverra framkvæmda. Byggð og búseta í Árneshreppi er í sjálfu sér menningarleg auðlind þessa lands. Við, þjóðin öll, höfum ekki efni á því að fækka auðlindum okkar.

Þetta er einn mikilvægur hlekkur í okkar menningar- og atvinnulífi og okkur ber að vernda hann, ekki bara vernda heldur gefa svæðinu sín tækifæri, sín öflugu tækifæri sem síðan verða öllu þjóðfélagi okkar til styrktar.

Ég vil bara vekja athygli á nokkrum atriðum sem mætti þegar í stað taka á. Samgöngumálin skipta þetta byggðarlag miklu máli og þó að ræst hafi úr með flugsamgöngur þangað, betur en stóð til um tíma, eru vegamálin engu að síður mikilvæg. Norður í Árneshrepp er í rauninni ekki skilgreind þjóðleið, vegurinn, sem þó er aðalsamskipta- og atvinnuvegur þessa byggðarlags að sumrinu og reyndar stóran hluta ársins. Með auknum vegabótum mætti gera þar enn betur þannig að vegurinn væri opinn lengri hluta ársins. Vegurinn er ekki skilgreindur sem þjóðleið heldur en hann enn þá skilgreindur sem ferðamannaleið. Hann er ekki hluti af þjóðvegakerfi landsins og engar áætlanir eru til um að lokið verði uppbyggingu eðlilegs og góðs malarvegar eins og hægt er að leggja þarna norður. Það eru engar áætlanir til um það og ég veit að íbúar Árneshrepps vonast til að þar verði gerð bragarbót á og þeim framkvæmdum verði hraðað. Reyndar hafa þeir mátt búa við að áætlanir sem þó hafa verið lagðar fram um vegagerð hafi ekki staðist og framkvæmdum verið frestað.

Þarna er mál sem hægt er að taka á og Alþingi getur þegar í stað tekið á við afgreiðslu vegaáætlunar. Sama er að segja um rafmagnsmálin. Þarna er bara einfasa rafmagn. Til að byggja upp atvinnulíf á svæðinu er mikilvægt að fá þar þriggja fasa rafmagn. Þarna er húsnæði og aðstaða. Þarna er höfn og möguleikar til atvinnulífs. En vegna þess að þarna er ekki fullnægjandi rafmagn er ekki hægt að byggja upp atvinnuvegina sem skyldi.

Sama gildir um símamálin og fjarskiptamálin. Þar er líka hægt að gera átak. Við, þingmenn Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs, höfum einmitt lagt fram frv. um það að GSM-samband verði gert að alþjónustukvöð, verði hluti af hinu almenna fjarskiptakerfi landsins og þar á meðal líka að koma slíku sambandi norður í Árneshrepp.

Ég vil einnig benda á að íbúar Árneshrepps hafa horft til með nokkrum væntingum til úthlutunar á sauðfjárkvóta, þ.e. greiðslumarki sauðfjár eða jafngildi þeirra 7.500 ærgilda sem átti að vera búið að úthluta til byggða sem stæðu höllum fæti en væru mjög háðar sauðfjárrækt. Sú úthlutun er ekki komin. Ég veit að þeir ungu bændur sem hv. flm. Einar K. Guðfinnsson gat um áðan bíða einmitt eftir því að til slíkrar úthlutunar komi eða svar um það hvernig slíku verði úthlutað. Þar stendur einmitt á stjórnvöldum að standa við þau væntanlegu og mögulegu úrræði sem hægt er að grípa til þegar í stað.

Verslun stendur þarna höllum fæti. Að sjálfsögðu er erfitt að reka þarna fullkomna samkeppnishæfa verslun. En engu að síður er verslunin þarna mikilvæg fyrir samfélagið til að það geti einnig notið þar grundvallarþjónustu.

Ég vil benda á hér, herra forseti, að eins og hv. framsögumaður gerði grein fyrir eiga þessar hugmyndir rætur að rekja til samþykktar ráðherranefndar Norðurlanda frá 12. september 1996, um framkvæmdaáætlun um verndun menningarumhverfis, eins og stendur í þáltill.

Af hálfu íslenskra ráðherra hefur ekkert verið gert til að fylgja eftir þessari ályktun Norðurlandaráðs og ráðherranefndar Norðurlanda, ekki neitt. Hins vegar skrifuðu Árneshreppsbúar hæstv. forsrh. bréf sem er fylgiskjal með þessari þáltill. Í bréfi hreppsnefndar Árneshrepps til hæstv. forsrh., Davíðs Oddssonar, ritað í Norðurfirði, 21. des. 1998, taka þeir undir þessar hugmyndir á vettvangi Norðurlandaráðs og óska eftir frumkvæði af hálfu forsrh. í þessu máli. Þeir skrifa hér bréf til forsrh. um einmitt að þeir séu reiðubúnir til samstarfs á grundvelli samþykktar ráðherranefndarinnar.

Mér er ekki kunnugt um að þessu bréfi hafi verið svarað. Ég get að vísu ekki fullyrt um það. Kannski getur hv. flm. þessarar þáltill., hv. þm. Einar Kristinn Guðfinnsson, svarað því: Hefur forsrh. svarað Árneshreppsbúum því bréfi sem þeir sendu 1998? Það væri fróðlegt að fá að vita um það.

Herra forseti. Þetta svæði, þetta mannlíf og þessi náttúra er auðlind sem Íslendingar mega ekki vera án. Landið skreppur saman, menning og þjóð skreppur saman, ef mannlíf og atvinnulíf brotnar í Árneshreppi. Þegar í stað er hægt að grípa til aðgerða til að styrkja sjálfsprottið mannlíf og atvinnulíf á þessu svæði. Ég hef nefnt vegamálin, raforkumálin og fjarskiptamálin, þannig að það er þegar hægt.

Ég, herra forseti, styð eindregið þá tillögu sem hér er flutt en tel samt, herra forseti, að við eigum ekki endilega að bíða eftir því að hún verði samþykkt. Fyrir Alþingi liggja mál sem gætu skipt atvinnulíf og búsetu á þessu svæði miklu máli og við getum haft áhrif í gegnum þau.