Verndun búsetu og menningarlandslags í Árneshreppi

Fimmtudaginn 30. janúar 2003, kl. 17:55:04 (3283)

2003-01-30 17:55:04# 128. lþ. 69.15 fundur 55. mál: #A verndun búsetu og menningarlandslags í Árneshreppi# þál., JB
[prenta uppsett í dálka] 69. fundur, 128. lþ.

[17:55]

Jón Bjarnason:

Herra forseti. Ég dreg alls ekki í efa heilan hug hv. þm. Einars Kristins Guðfinnssonar varðandi það að vinna að málum Árneshrepps. Því fer fjarri. Ég tel einmitt, þekki og veit, að hann leggur sig þar fram. Ég vil í máli mínu taka undir og árétta hvað við getum gert betur.

Ég minntist t.d. á vegamálin. Ég tel að vegamál og samgöngumál norður í Árneshreppi séu með þeim hætti að það gæti réttlætt að tekið verði á því alveg sérstaklega í fjármögnun vegáætlunar. Ég tel það. Ég tel að þetta byggðarlag, þó að mikill vandi sé í samgöngum víða á landinu og hægt sé að heimfæra sérstæðu upp á mörg lítil samfélög, að samfélagið í Árneshreppi sé svo sérstætt að það ætti að vera hægt að taka á með skipulögðum hætti því að gera malarveg norður í Árneshrepp og setja hann á formlega áætlun svo hann þurfi ekki að vera háður því, eins og hv. þm. lýsti, lágum upphæðum af fjármagni sem úthlutað er til að mæta verkefnum á stóru svæði, verkefnum sem eru alltaf miklu stærri en fjármagnið nær að mæta.

Ég tel fulla ástæðu til að taka á þessu með sérstæðum hætti. Ég tel að ástandið réttlæti það. Þetta eru ekki þær risaupphæðir í sjálfu sér, nokkrir tugir milljóna króna sem þarf til að leggja þarna brúklegan og viðunandi malarveg sem getur verið góður að sumrinu, haustinu og vorinu, eftir því hvernig snjóalög eru. Þarna er vaxandi umferð. Þarna er ferðaþjónusta, útgerð, flutningur á fiski. Gríðarlega miklum fiski var landað í Norðurfirði á sl. sumri þannig að margar ástæður eru fyrir því að þessi vegur verði tekinn upp sem sérframkvæmd. Ég legg áherslu á þetta, herra forseti.

Ég vildi aðeins í lokaræðu minni vitna í ungan íbúa Árneshrepps sem skrifaði grein í blað Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs í Norðvesturkjördæmi, Norðurstjörnuna, Rakel Valgeirsdóttur frá Árnesi. Hún vitnar um hug sinn til byggðarinnar í Árneshreppi, með leyfi forseta:

,,Afkekkt, einangrað, fallegt ... Það er erfitt að finna lýsingarorð yfir þennan stað því fyrir mér er hann einfaldlega ,,heima``.

Öðrum kann að finnast það skrýtið að nota svo persónulegt orð yfir heilt sveitarfélag en fyrir mér er það eðlilegt. Það er þessi staður, þetta umhverfi og samfélag sem hefur gert mig að þeirri manneskju sem ég er í dag. Ég á þessum stað því allt að þakka og vildi svo gjarnan geta endurgoldið það.

Það tækifæri gætinú verið komið. Árneshreppur stendur frammi fyrir miklum tímamótum. Í áranna rás hefur fólk fæðst og dáið þar eins og annars staðar en nú er svo komið að fleiri deyja en fæðast. Þessi þróun vinnur hægt og bítandi á þessu litla samfélagi ásamt því að fólk gefst upp og flyst brott. Flestum er ljóst að nauðsynlegt er að sporna við þessari þróun en hvað er til ráða?

Í sumar var haldin ráðstefna með unga fólkinu í Árneshreppi. Þar var reynt að leita leiða til að tryggja framtíð hreppsins. Ýmsar hugmyndir komu fram á þessum fundi og vilji okkar allra er sá sami. Við viljum tryggja framtíð þessa litla samfélags og fá tækifæri til að gefa börnum okkar það sama og foreldrar okkar gáfu okkur. Ýmis ljón eru þó í veginum og þau ljón verða ekki yfirunnin hjálparlaust. Stjórnvöld og aðrir verða að hafa hönd í bagga til hjálpar svo heilsársbúseta í Árneshreppi geti verið álitlegur möguleika í hugum unga fólksins.``

Í lok greinar sinnar segir Rakel Valgeirsdóttir frá Árnesi:

,,Viljinn til að breyta þessu ástandi er til staðar og hann er grunnur til að byggja á. Einnig höfum við öflugar og vinnufúsar hendur en okkur vantar byggingarefni til að byggja upp búsetumöguleika fyrir nýja kynslóð. Lausn þessa vanda sem okkur er á höndum er því miður ekki að finna hér.

Ég ímynda mér að margir sem ekki þekkja til séu komnir með spurningar fram á varirnar á borð við: Hvers vegna? Til hvers að sporna við svo augljósri þróun? Hvað gerir þennan stað eitthvað öðruvísi en aðra? Það gætu sjálfsagt fáir skilið aðrir en við sem höfum alist þar upp og vitum hverra forréttinda við vorum aðnjótandi í æsku og njótum enn. Þessi forréttindi gaf staðurinn okkur því það að alast upp í harðgeru frjálsræði náttúrunnar mótar persónuleika manns. Þessi sérstaka náttúra sem dregur að hundruð ferðamanna á ári hverju er í senn stórfengleg og hrikaleg. Hún sleppir sem betur fer aldrei af manni tökunum heldur dregur mann sífellt til baka. Einhvers staðar stendur að hver vegur að heiman sé vegurinn heim og vonandi sannast þau orð á ungum íbúum Árneshrepps sem haldið hafa burt til að afla sér menntunar.``

Virðulegi forseti. Ég greip hér niður í grein sem ungur íbúi Árneshrepps, sem er við nám hér í Reykjavík, skrifaði í jólablað Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs. Ég tek undir þessi orð þessarar vösku stúlku og hvet til þess hér á Alþingi að Alþingi sýni þann dug og myndugleika að taka á málefnum Árneshreppsbúa og geri það nú á þessu þingi. Við getum gert það strax í gegnum vegáætlun og við getum gert það með ýmsum hætti á þessu þingi.

Þessi till. til þál. er líka mjög gott og sterkt innlegg í þessa umræðu. Hún er allra góðra gjalda verð og ég hvet til þess að tillagan fái hraða meðferð á yfirstandandi þingi og verði afgreidd svo fara megi að vinna eftir henni nú þegar. Við þurfum samt ekki meiri pappíra. Við þurfum aðgerðir, vilja og dug til að standa með þessu byggðarlagi, Árneshreppi á Ströndum. Þetta er auðlegð sem þjóðin má ekki tapa.