Aðgerðir til að draga úr mengun og vegsliti

Fimmtudaginn 30. janúar 2003, kl. 18:02:59 (3284)

2003-01-30 18:02:59# 128. lþ. 69.17 fundur 62. mál: #A aðgerðir til að draga úr mengun og vegsliti# þál., Flm. JÁ (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 69. fundur, 128. lþ.

[18:02]

Flm. (Jóhann Ársælsson):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir till. til þál. um aðgerðir til að draga úr mengun og vegsliti af völdum bifreiða. Flutningsmenn auk mín eru hv. þingmenn Þórunn Sveinbjarnardóttir, Kristján L. Möller, Lúðvík Bergvinsson, Ásta R. Jóhannesdóttir og Rannveig Guðmundsdóttir.

Tillögugreinin er eftirfarandi:

,,Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að undirbúa og leggja fyrir næsta reglulegt Alþingi tillögur sem miði að því að draga úr mengun og vegsliti af völdum bifreiða. Sérstaklega verði hugað að breytingum á álögum hins opinbera, svo sem tollum, vörugjöldum og þungaskatti, í þeim tilgangi að auka notkun dísil- og fjórhjóladrifsbifreiða og draga úr notkun nagladekkja.``

Þingsályktunartillaga þessi var lögð lögð fram á 127. löggjafarþingi en varð ekki útrædd og er nú lögð fram óbreytt.

Drjúgur kostnaður og margs konar vandamál hljótast af mikilli umferð bifreiða hér á landi og fer síst minnkandi. Mest kveður að þessum vanda í þéttbýli og því þarf að vinna að þessu máli í náinni samvinnu við forsvarsmenn sveitarfélaganna.

Mengun af völdum bifreiða er mikil en þó hafa stjórnvöld ekki beitt hagrænum aðgerðum til þess að draga úr henni. Notkun dísilbifreiða sem eyða mun minna eldsneyti og menga minna en bensínbifreiðar gæti skipt verulegu máli í náinni framtíð til að draga úr mengun. Stefna stjórnvalda hvað varðar þungaskatt hefur ekki ýtt undir að bifreiðaeigendur kaupi frekar slíkar bifreiðar. Þvert á móti hafa stjórnvöld með óréttlátum þungaskatti á dísilbíla komið í veg fyrir kaup á þeim. Bensínbílar eru skattlagðir á hvern lítra sem þeir eyða en dísilbílarnir með þungaskatti sem beitt er þannig að hagkvæmara er að kaupa bensínbíla þó að þeir eyði 25--50% meira eldsneyti. Dísilbílum hefur fjölgað mun meira í nágrannalöndum okkar heldur en hér. Þannig voru þeir einungis 13,6% af innfluttum bílum á Íslandi árið 2001, en í nágrannalöndum okkar var markaðshlutdeild dísilbílanna 32% árið 2000 og verður væntanlega um 40% árinu 2004.

Allan síðasta áratug lýsti fjármálaráðherra því ítrekað yfir að til stæði að breyta þungaskattskerfinu. Þær fyrirætlanir snúast um allan bílaflotann en mikill og almennur stuðningur er um þær meðal þingmanna. Ekkert hefur þó miðað í málinu. Það er því er kominn tími til að Alþingi setji ríkisstjórninni fyrir að ljúka því verkefni á kjörtímabilinu. Þessi tillaga boðar ekki byltingu, en mundi sýna ef samþykkt verður jákvæða viðleitni stjórnvalda til að draga úr neikvæðum áhrifum bílaumferðar á umhverfið. Hún miðar að því að stefna stjórnvalda verði endurskoðuð á þessu ári og m.a. fundin leið sem í er falin hvatning til kaupa og notkunar dísilbifreiða í þeim tilgangi að draga úr mengun.

Vegslit vegna notkunar nagladekkja er afar mikið og rykmengun af þeim völdum einnig. Ef mögulegt er að draga úr notkun nagladekkja án þess að slysahætta aukist en draga um leið úr rykmengun og spara stórfé í viðhaldi gatna er mikið í húfi.

Stjórnvöld hafa ekki ýtt undir notkun fjórhjóladrifsbifreiða þó að vitað sé að slíkar bifreiðar eru mun öruggari í hálku og erfiðum akstursaðstæðum en eindrifsbifreiðar. Þetta hefur margra ára reynsla Íslendinga af notkun slíkra bíla sannað.

Bifreið á góðum vetrardekkjum, þó ónegld séu, með drif á öllum hjólum er miklu öruggari til notkunar í misjafnri færð að vetri til í þéttbýli en eindrifsbifreið á negldum dekkjum. Því er ástæða til að hvetja til notkunar fjórhjóladrifsbifreiða. Slíkt mætti m.a. gera með lækkun á þungaskatti eða sérstökum afslætti innflutningsgjalda. Einnig þarf að hvetja eigendur slíkra bifreiða til að nota frekar góð ónegld dekk en nagladekk. Það mætti t.d. gera með sérstökum afslætti af þungaskatti. Með samræmdum aðgerðum sem hafa að markmiði að draga úr mengun og vegsliti af völdum bifreiðaumferðar mætti draga verulega úr mengun og kostnaði við umferð í þéttbýli. Þetta ætti alls ekki að valda aukinni slysahættu því að mjög sterk rök eru fyrir því að vel búin fjórhjóladrifsbifreið sé fullkomlega hæf til vetraraksturs. Þvert á móti ætti fjölgun slíkra bifreiða að auka öryggi í umferðinni.

Flutningsmenn leggja til að skoðað verði vandlega hvort taka beri upp staðbundið gjald á notkun nagladekkja í þéttbýli, en slíkt fyrirkomulag hefur verið í gildi í Ósló síðustu fimm árin eða svo og með svo góðum árangri að stjórnvöld hyggjast koma því á í fleiri borgum í Noregi. Slíkt fyrirkomulag mundi gilda um allar bifreiðir, en í tengslum við slíka breytingu yrði að tryggja mjög góða hreinsun gatna. Hugsanlegt er að það geti hentað á höfuðborgarsvæðinu og þarf að skoða þá hugmynd gaumgæfilega.

Margt fleira mætti færa til rökstuðnings fyrir þeim hugmyndum sem hér eru settar fram, en ég læt það bíða síðari tíma að fara yfir það. Ég vonast til þess að í hv. nefnd fari menn yfir þetta með jákvæðu hugarfari því ég er sannfærður um að hægt er að spara verulega mikið með minni notkun eldsneytis, minnkun á vegsliti og koma um leið í veg fyrir slys í umferðinni.